Fara í innihald

Vittorio Emanuele Orlando

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vittorio Orlando
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
30. október 1917 – 23. júní 1919
ÞjóðhöfðingiViktor Emmanúel 3.
ForveriPaolo Boselli
EftirmaðurFrancesco Saverio Nitti
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. maí 1860
Palermo, Sikiley, Konungsríki Sikileyjanna tveggja
Látinn1. desember 1952 (92 ára) Róm, Ítalíu
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn (1926–1952)
StarfStjórnmálamaður, lögfræðikennari
Þekktur fyrirAð vera forsætisráðherra Ítalíu í fyrri heimsstyrjöldinni
Undirskrift

Vittorio Emanuele Orlando (19. maí 1860 – 1. desember 1952) var ítalskur stjórnmálamaður sem mætti fyrir hönd Ítala á friðarráðstefnuna í París árið 1919 ásamt utanríkisráðherra sínum, Sidney Sonnino. Ítalir kölluðu hann „forsætisráðherra sigursins“ þar sem hann hafði verið forsætisráðherra Ítalíu í fyrri heimsstyrjöldinni þegar Bandamenn unnu sigur sinn gegn Miðveldunum.[1] Orlando var einnig meðlimur og forseti stjórnlagaþingsins sem breytti Ítalíu úr konungsríki í lýðveldi í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann var jafnframt kunnur lögfræðiprófessor og þekktur fyrir ritverk sín um lögfræði og dómsmál.[2]

Orlando fæddist á Palermo á Sikiley. Faðir hans beið með að skrásetja fæðingu sonar síns til þess að forðast þúsund manna her Giuseppe Garibaldi, sem hafði þá nýlega gert innrás í Sikiley til þess að sameina Ítalíu.[3] Orlando kenndi síðar lögfræði í háskólanum í Palermo og var mjög virtur sem lögfræðingur.[4]

Árið 1897 var Orlando kjörinn á fulltrúaþing Ítalíu (Camera dei Deputati) fyrir Partinico-kjördæmi. Hann hlaut endurkjör fyrir sveitarfélagið í öllum kosningum til ársins 1925.[5] Orlando varð stuðningsmaður Giovanni Giolitti, sem var fimm sinnum forsætisráðherra frá 1892 til 1921.

Orlando var frjálslyndismaður og gegndi ýmsum stöðum sem ráðherra. Árið 1903 var hann menntamálaráðherra í ríkisstjórn Giolitti. Árið 1907 var hann dómsmálaráðherra og sat í því embætti til ársins 1909. Hann var útnefndur í sama ráðuneyti árið 1914 í ríkisstjórn Antonio Salandra þar til hann var gerður að innanríkisráðherra í júní árið 1916 í ríkisstjórn Paolo Boselli.

Fyrri heimsstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Ítalir gengu inn í fyrri heimsstyrjöldina og hlutu afhroð í orrustunni við Caporetto þann 25. október 1917 sprakk stjórn Boselli og Orlando varð forsætisráðherra í hans stað til stríðsloka. Orlando hafði stutt inngöngu Ítala í stríðið eindregið. Orlando myndaði ríkisstjórn þjóðernissinna og endurskipulagði ítalska herinn.[4] Orlando var hvattur til að styðja bandamenn vegna leynilegs samnings þar sem Ítölum var lofað miklu landsvæði í Dalmatíu eftir lok stríðsins.[4]

Í nóvember árið 1918 unnu Ítalir sigur í orrustunni við Vittorio Veneto og ríkisher Austurríki-Ungverjalands hrundi í kjölfarið. Þar sem Ítalir voru meðal sigurvegara stríðsins fékk Orlando gælunafnið „forsætisráðherra sigursins.“[3]

Parísarráðstefnan

[breyta | breyta frumkóða]
Orlando (annar frá vinstri) á friðarráðstefnunni í Versölum ásamt David Lloyd George, Georges Clemenceau og Woodrow Wilson.

Orlando var einn af hinum „fjórum stóru“, leiðtogum bandamannanna, á friðarráðstefnunni í París árið 1919 ásamt Woodrow Wilson Bandaríkjaforseta, Georges Clemenceau forsætisráðherra Frakklands og David Lloyd George forsætisráðherra Bretlands.[6] Sem forsætisráðherra fór Orlando fyrir fulltrúum Ítala á ráðstefnunni en þar sem hann kunni ekki ensku og var í slæmri pólitískri stöðu heima fyrir hafði Sidney Sonnino utanríkisráðherra í reynd meiri áhrif.[7]

Ágreiningur milli Orlando og Sonnino var Ítölum dýrkeyptur í friðarviðræðunum. Orlando var reiðubúinn til þess að láta af kröfum Ítala til að innlima Dalmatíu og fá þess í stað Rijeka, en Sonnino vildi ekki fallast á að Ítalir yrðu án Dalmatíu. Í lokin kröfðust fulltrúar Ítala beggja landsvæðanna en fengu hvorugt þar sem Wilson hélt á lofti hugsjónum um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna. Orlando studdi tillögu Japana um jafnrétti kynþátta í lok ráðstefnunnar.

Orlando yfirgaf ráðstefnuna með þjósti í apríl árið 1919.[8] Hann sneri aftur næsta mánuð en neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra áður en Versalasamningurinn var undirritaður. Hann hreykti sér síðar á ævi sinni fyrir að hafa ekki undirritað samninginn.[9] Clemenceau forsætisráðherra uppnefndi Orlando „vælukjóann“ og Orlando sjálfur minntist þess stoltur að hann hefði grátið og öskrað á ráðstefnunni.[3]

Orlando var rúinn pólitísku trausti þar sem honum hafði mistekist að tryggja hagsmuni Ítala á ráðstefnunni. Orlando sagði af sér þann 23. júní 1919. Óánægja Ítala með hinn svokallaða „limlesta sigur“ þeirra í stríðinu var ein ástæðan fyrir því að Benito Mussolini tókst að komast til valda nokkrum árum síðar. Árið 1919 var Orlando kjörinn forseti ítalska fulltrúaþingsins en hann varð aldrei aftur forsætisráðherra.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
Tilvísanir
  1. Vittorio Emanuele Orlando, Incarichi di governo, Parlamento italiano (Skoðað 16. febrúar 2018)
  2. Vittorio Emanuele Orlando, Organi parlamentari, Parlamento italiano (Skoðað 16. febrúar 2018)
  3. 3,0 3,1 3,2 Last of the Big Four, obituary of Orlando in Time, December 8, 1952
  4. 4,0 4,1 4,2 Tucker, Encyclopedia Of World War I, pp. 865-66
  5. Servadio, Mafioso, p. 71
  6. MacMillan, Paris 1919, p. xxviii
  7. MacMillan, Paris 1919, p. 274
  8. Signor Orlando Returns to Rome: The Financial Times (London, England),Friday, April 25, 1919; pg. 3; Edition 9525.
  9. MacMillan, Paris 1919, p. 302
Heimildir
  • Andreotti, Giulio & Vincio Delleani (1982). Visti da vicino (Vol. II), Milan: Rizzoli.
  • Arlacchi, Pino (1988). Mafia Business. The Mafia Ethic and the Spirit of Capitalism, Oxford: Oxford University Press.
  • Dickie, John (2004). Cosa Nostra. A history of the Sicilian Mafia, London: Coronet.
  • Fruttero, Carlo & Massimo Gramellini (2010). La Patria, bene o male, Milan: Mondadori.
  • Lauren, Paul G. (1988). Power And Prejudice: The Politics And Diplomacy Of Racial Discrimination, Boulder (CO): Westview Press.
  • Macmillan, Margaret (2002). Paris 1919: Six Months That Changed the World, New York: Random House.
  • Servadio, Gaia (1976). Mafioso. A history of the Mafia from its origins to the present day, London: Secker & Warburg.
  • Tucker, Spencer C. & Priscilla Mary Roberts (eds.), (2005). Encyclopedia Of World War I: A Political, Social, and Military History, Santa Barbara (CA): ABC-CLIO


Fyrirrennari:
Paolo Boselli
Forsætisráðherra Ítalíu
(30. október 191723. júní 1919)
Eftirmaður:
Francesco Saverio Nitti