Íraksstríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Stríðið í Írak)
Jump to navigation Jump to search
Réttsælis frá efri vinstri myndinni: eftirlitsferð í Samarra; stytta af Saddam Hussein felld við Firdos torg; Íraskur hermaður mundar vélbyssu sína rétt áður en lagt er til atlögu; sprengja springur í Bagdad.

Íraksstríðið er stríð, sem hófst þann 20. mars 2003 með innrás bandalags viljugra þjóða í Írak með Bandaríkin og Bretland í broddi fylkingar. Innan bandaríska hersins þekkist stríðið undir heitinu Operation Iraqi Freedom (e. „Aðgerð Íraksfrelsi“). Formlega stóð stríðið sjálft yfir frá 20. mars 2003 til 1. maí 2003 en þá voru allar stærri hernaðaraðgerðir sagðar yfirstaðnar.[1] Við tók tímabil mikils óstöðugleika sjálfsmorðssprengjuárása, hermdarverka og launmorða sem margir kjósa að kalla borgarastyrjöld. Stríðinu lauk 18. desember 2011.[2]

Ástæður sem gefnar hafa verið upp til réttlætingar á stríðinu hafa verið margs konar. Kofi Annan hefur, ásamt fleiri gagnrýnendum, haldið því fram að stríðið sé ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum en ekki náðist sátt um innrásina í öryggisráði S.Þ. líkt og tilfellið hafði verið í fyrra Persaflóastríðinu.[3]

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Saga Íraks

Írak var þekkt sem Mesópótamía allt fram að 1921, lengi vel var það hluti af veldi Ottóman Tyrkja sem liðaðist í sundur eftir fyrri heimstyrjöldina. Í krafti Þjóðabandalagsins var Bretum veitt umboð til þess að stjórna Írak með skilgreind landamæri sem hafa haldist. Írakar hlutu sjálfstæði og gengu inn í Þjóðabandalagið 1932. Í júlí 1958 var gerð hallarbylting í Írak og Hashimita-konungsfjölskyldunni steypt úr stóli af hernum, við tók stjórn Qassims herforingja sem átti svo í erfiðleikum með óstöðugt ástand landsins. Tíu árum síðar tók Ba’th-flokkurinn völdin og hóf Saddam Hussein þá að klífa metorðastigann allt þar til hann tók völdin 1979, sama ár og Íranska byltingin átti sér stað. Stuttu síðar hófst eitt blóðugasta og mest langvarandi stríðs 20. aldarinnar. Stríð Íraks og Írans varði í tæp 8 ár, kostaði u.þ.b. milljón manns lífið og hafði gífurlegar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir hvort ríkið.

Tíundi áratugurinn[breyta | breyta frumkóða]

Saddam Hussein hafði ekki sagt sitt síðasta heldur réðist á Kúveit 2. ágúst 1990, hann sakaði Kúveit um að virða ekki landamæri ríkjanna og um að lækka heimsmarkaðsverð á olíu með því að auka framboð á henni og þannig viljandi minnka útflutningstekjur Íraks sem Írakar máttu ekki við að missa. [4] Fljótlega eftir innrásina brást öryggisráð S.Þ. við með því að samþykkja efnahagsþvingarnir gegn Írak og krefjast þess að þeir drægju herlið sitt tilbaka.[5][6] á eftir fylgdu ályktanir sem veittu leyfi til þess að beita öllum mögulegum ráðum til þess að framfylgja þeirri niðurstöðu.[7]

Persaflóastríðið hófst með sprengjuárásum um miðjan janúar 1991, árásir á landi fylgdu eftir 24. febrúar og lauk stríðinu með sigri aðeins þremur dögum seinna. Þá var sett á laggirnar eftirlitsteymi (UNSCOM) á vegum S.Þ. sem átti að finna og uppræta gjöreyðingarvopn (efnavopn og aðstöðu til framleiðslu kjarnorkuvopna)[8] og efnahagsþvingunum var haldið áfram.

Fimm árum seinna, 9. desember 1996, var Olía-fyrir-mat aðgerð S.Þ. hleypt af stokkunum samkvæmt ályktun öryggisráðsins[9]. Áætlunin var ákveðin málamiðlun á þeim efnahagsþvingunum sem settar höfðu verið á allan inn- og útflutning um landamæri Íraks. Áætlunin var í gildi allt fram að innrásinni 2003, hún hleypti lífi í veikan efnahag landsins því að bágt ástand á innviðum þess (opinber þjónusta s.s. vegir, hiti, rafmagn, heilbrigðisþjónusta, o.s.frv.) setti miklar takmarkanir á getu og skipan atvinnumarkaðarins.

Í janúar 1998 skrifuðu 18 meðlimir bandarísku hugveitunnar Project for a New American Century (PNAC) undir bréf sem þeir sendu til Clintons bandaríkjaforseta. Í bréfinu er Hussein sagður vera ógn við öryggi í heiminum og að efst á forgangslista bandarískrar utanríkisstefnu þurfi að vera það takmark að ryðja honum úr vegi.[10] Af þeim 18 sem skrifuðu undir bréfið hafa 11 meðlimir PNAC hafa komist til valda eftir að Bush var kjörinn forseti, þeirra á meðal ber helst að nefna Richard Cheney, varaforseta, Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, Paul Wolfowitz fyrrverandi varnarmálaráðherra og núverandi bankastjóri Alþjóðabankans og John Bolton sendiherra hjá S.Þ.

Undir lok ársins 1998 var komið í óefni. Vopnaeftirlitsmenn UNSCOM fengu ekki aðgang að ýmsum aðalbyggingum tengdum forsetanum og Ba'th-stjórnarflokknum og þeir kvörtuðu undan afskiptasemi Íraka og vélabrögðum ýmiss konar. Öryggisráð S.Þ. hafði samþykkt alls 13 ályktanir þar sem Írökum var gert að sýna fullkomnan samstarfsvilja. Bill Clinton fyrirskipaði loftárásir með aðgerð sem nefnd var Eyðimerkur-Refur. Næsta ár var nýtt vopnaeftirlitsteymi (UNMOVIC) sett saman sem Hans Blix var í forsvari fyrir. Írakar hleyptu þeim þó ekki inn í landið fyrr en í nóvember 2002.

Eftir 11. september[breyta | breyta frumkóða]

Mánuði eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 réðust hersveitir NATO á Afganistan einnig undir forystu Bandaríkjanna og Bretlands í þeim tilgangi að hafa uppi á Osama bin Laden og koma talibönum frá valdi og koma þannig í veg fyrir að í landinu yrðu þjálfaðir hryðjuverkamenn. Skemmst er frá því að segja að bin Laden fannst ekki og brátt beindust sjónir manna að Írak.

Í skýrslu sem þekkt varð sem September-skýrslan[11] og var gefin út af bresku ríkistjórninni í september 2002 kom fram að Írak hefði falast eftir úraníum frá Níger. Seinna kom í ljós að þetta voru innantómar ásakanir en engu að síður rötuðu þær í árlegt ávarp Bushs, 28. janúar 2003.[12]. Í október 2002 samþykkti bandaríska þingið lög sem heimiluðu Bush að ráðast gegn Írak[13]. Röksemdir fyrir innrásinni voru nokkrar:

 • Írak hafði brotið gegn ályktunum öryggisráðsins og reynt að trufla starf vopnaeftirlitsmanna
 • Meint gjöreyðingavopn Íraka sem nágrönnum Íraks og Bandaríkjunum stóðu sérstaklega ógn af
 • Mannréttindabrot írösku stjórnarinnar heima fyrir
 • Fordæmi þess að Írak gæti og hefði áður beitt gjöreyðingavopnum gegn öðrum þjóðum sem og eigin þegnum
 • Launmorðstilraun gegn George H.W. Bush í Kúveit 1993.
 • Meðlimir al-Qaida voru taldir vera í landinu
 • Stuðningur Íraks við hryðjuverkahópa, m.a. hópa sem börðust sérstaklega gegn Bandaríkjunum
 • Óttinn við að Írakar myndu sjá hryðjuverkahópum fyrir gjöreyðingavopnum
 • Baráttan gegn hryðjuverkum, þ.e.a.s. sérstaklega þeim sem stóðu að hryðjuverka-árásunum 11. september.
 • Áður samþykkt lög þess eðlis að forsetanum væri heimilt að heyja stríð gegn hryðjuverkum.

Eins og áður sagði hafði vopnaeftirlitsteymi S.Þ. verið hleypt aftur inn Írak í nóvember 2002, eftir að öryggisráð S.Þ. veitti Írökum síðustu forvöð til þess að verða við kröfum um afvopnun og fulla samvinnu.[14] Í mars 2003 hafði ekki náðst sátt meðal stórveldanna í öryggisráðinu um næstu skref. Jacques Chirac, forseti Frakklands, lét hafa eftir sér að af Írak „stæði ekki bráð ógn sem þyrfti að svara með hervaldi” og Gerhard Schröder á sömu leið en þolinmæði Bush og Blair var þrotin.[15]

Mótmæli gegn yfirvofandi stríði náðu hápunkti helgina 15.-16. febrúar 2003 þegar áætlað var að a.m.k. 10 milljón manns hefðu mótmælt á götum stórborga eins og San Francisco, London, Barcelona, Róm og víðar.[16] Á Íslandi var mótmæltu á bilinu 500-700 manns við Lækjartorg í Reykjavík, við Ráðhústorgið á Akureyri mættu um 500 manns til þess að mótmæla, einnig var mótmælt í Ísafirði og í Snæfellsbæ.[17][18][19] Nokkrum dögum seinna settu mótmælendur í Reykjavík upp eins konar gjörning fyrir framan Stjórnaráðið þegar þeir lögðust þar niður, ataðir út í rauðum vökva og þóttust vera dánir.[20]

Stríðið hefst[breyta | breyta frumkóða]

Þann 17. mars 2003 voru Saddam Hussein gefnir tveir sólarhringar til þess að gefast upp og yfirgefa landið. George Bush tilkynnti bandalag viljugra þjóða, 49 þjóðir sem studdu innrásina, oft í orði en ekki á borði, þ.á m. Ísland. Þann 20. mars 2003 hófst stríðið með loftárásum á Bagdad. Þann 9. apríl höfðu bandarískar hersveitir náð Bagdad, Kirkuk og Mosul á sitt vald. Í Bagdad hófst mikil óöld þar sem þjófar létu greipar sópa um fyrirtæki og opinberar byggingar.

Í maí var efnahagsþvingunum S.Þ. lyft eftir nær 13 ár, í júlí láta synir Saddams, Uday og Qusay lífið í Mosul. Í ágúst voru gerðar bílsprengjuárásir á Jórdanska sendiráðið og höfuðstöðvar S.Þ. í Bagdad, u.þ.b. 20 manns létust og ríflega mánuði seinna eftir aðra sprengjuárás drógu S.Þ. sig frá Írak. Þann 14. desember fannst Saddam Hussein í felum nálægt heimabæ sínum Tikrit.

2004[breyta | breyta frumkóða]

Fyrri hluta árs 2004 bárust fréttir af pyntingum og ómannúðlegri meðferð á föngum í Abu Ghraib fangelsinu. Ljósmyndir bárust af niðurlægjandi meðferð fanga og ollu þau hörð viðbrögð í vestrænum löndum og almenningsálit og stuðningur við stríðið snarféll. Eftir málaferli var komist að þeirri niðurstöðu að í öllum tilvikum væri að ræða um misskilninga hermanna á milli um lögmæta meðferð á föngum og „nokkur rotin epli”. 24 hermönnum var refsað þ.á m. Janis Karpinski, sem var lækkuð í tign, þáverandi fangelsisstjóri.

Í mars 2004 hófst atburðarás sem átti eftir að enda með einhverjum blóðugustu átökum stríðsins. Ráðist var að fjórum starfsmönnum öryggisverktakafyrirtækis á ferð um borgina Fallujah, vestan við Bagdhad. Þeir voru myrtir og limlestir á hrottafenginn hátt og bárust myndir af aðförunum til vestrænna fjölmiðla. Þá hófst umsátur um borgina og stóð fyrri hluti þess frá 4-9. apríl, að því loknu var óbreyttum borgurum leyft að flýja. Þá var samið um vopnahlé og kom það í hlut óreyndra íraskra hersveita að tryggja öryggi í borginni. Eftir sem áður var litið á Fallujah sem vígi uppreisnarmanna og hófst önnur atlaga að borginni í nóvember. Tugir sprengjuárása flugvéla og stórskotaliðs voru framkvæmdar daglega á þeim 13 dögum sem umsátrið stóð.

Í júní 2004 hlaut Írak fullveldi á ný og Iyad Allawi var skipaður forsætisráðherra bráðabirgðarstjórnar.

2005[breyta | breyta frumkóða]

Þann 30. janúar 2005 kom að langþráðum þingskosningum til bráðabirgða. Sjítar unnu meirihluta sæta og Kúrdar komu í annað sætið. Í apríl var kúrdinn Jalal Talabani kosinn forseti af þinginu og sjítinn Ibrahim Jaafari skipaður forsætisráðherra. Í júní var Massoud Barzani skipaður forseti Kúrdistans. Í ágúst var stjórnarskránni hafnað af súnnítum, hún var svo samþykkt mánuði seinna skv. henni átti að stofna íslamskt sambandslýðveldi. Í desember var svo kosið fyrir fullt kjörtímabil, sjítar fengu meirihluta.

2006[breyta | breyta frumkóða]

Í júní 2006 var meintur leiðtogi al-Qaida í Írak, Abu Musab al-Zarqawi drepinn í loftárás.

Mannfall[breyta | breyta frumkóða]

Tölur um mannfall Íraka eru á reiki en yfir fjögur þúsund bandarískir hermenn hafa fallið (mars 2008). Flestir hafa látið lífið eftir að helstu hernaðaraðgerðum lauk í maí 2003. Óháð, sjálfstæð samtök, Iraq Body Count [1] vinna að því að safna saman tilkynningum í fjölmiðlum um mannfall og leggja þær svo saman til þess að fá grófa og ónákvæma hugmynd um mannfall Íraka.

Í október 2006 kynnti teymi frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum rannsóknir sínar í breska læknatímaritinu Lancet sem sýndu að mannfall í Írak frá því að stríðið hófst af völdum (beinum sem óbeinum) stríðsátaka væru 655.000 manns. [2]

Þátttaka Íslands[breyta | breyta frumkóða]

Davíð Oddson, þáverandi forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra tóku ákvörðun um stuðning við afvopnun Íraks þann 18. mars 2003. Þá ákvörðun tóku þeir án samráðs við Alþingi eða utanríkismálanefnd Alþingis.[21] En í þingskaparlögum segir að „[u]tanríkismálanefnd [skuli] vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum”.[22] Fyrir vikið uppskáru þeir mikla gagnrýni, skoðanakannanir sýndu að ekki var stuðningur hjá almenningi fyrir innrásinni. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sögðu þingskaparlögin brotin.[23]

Í desember 2004 urðu ummæli Halldórs Ásgrímssonar í Kastljósi um að Íraksmálið hefði verið rætt á Alþingi og í utanríkismálanefnd til þess að Steingrímur J. efndi til umræða og sagði það vera „afar ósvífið og einfaldlega alrangt að halda því fram að uppáskrift Íslands að innrásinni í Írak án undangenginnar áyktunar, sérstakrar ályktunar í öryggisráðinu, hafi nokkurn tímann verið rædd í utanríkismálanefnd eða á Alþingi áður en nafn Íslands birtist á hinum víðfræga lista.”[24] Í byrjun árs 2005 hafði Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, birt lögfræðiálit sitt á ákvörðuninni og sagði um orðalagið „meiri háttar utanríkismál” að það hlyti „að ráðast af mati hverju sinni, enda verður ekki í fljótu bragði séð að neinar fastmótaðar venjur hafi skapast í því efni. Hvað sem því líður er víst að umrætt ákvæði í þingsköpum, eins og það er úr garði gert, hróflar ekki við þeirri skipan, sem ráð er fyrir gert í stjórnarskránni og lýst er hér að framan, að utanríkisráðherra og eftir atvikum aðrir ráðherrar fari með óskorað vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, hver á sínu sviði, nema því valdi séu sett skýr takmörk í stjórnarskránni eða settum lögum,… Þar með má segja að þeirri skyldu, sem fyrir er mælt í 24. gr. laga nr. 55/1991, hafi verið fullnægt af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda er þar vísað til "meiri háttar mála", en ekki "meiri háttar ákvarðana" í einstökum málum. Ekki hefur verið venja að túlka ákvæðið svo rúmt að skylt sé að bera slíkar ákvarðanir fyrir fram undir utanríkismálanefnd, t.d. hefur komið fram opinberlega að ýmsar ákvarðanir þess efnis, að Ísland lýsi yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir gegn einstökum ríkjum, hafi ekki verið bornar áður undir nefndina,”.[25] Svo virðist sem að afar lítið af gögnum um ákvörðun forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þannig finnist aðeins þrjú skjöl í forsætisráðuneytinu um ákvörðunina. Fleiri skjöl eru í skjalasafni utanríkisráðuneytisins en mikill hluti af því efni er aðsent en ekki frumsamin vinnuskjöl.[26]

Það er enginn vafi á því í mínum huga, herra forseti, að uppáskrift hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á Íraksstríðinu eru einhver hörmulegustu afglöp íslenskra stjórnmála um langt skeið, örugglega á þessari öld og má mikið vera ef þau endast ekki út öldina sem slík, að þetta eigi eftir að verða á spjöldum sögunnar einhver hörmulegustu pólitísku afglöp og mistök sem lengi hafa verið framin.
 
Steingrímur J. Sigfússon, 30. apríl 2004[27]

Í lok árs 2004 skrifaði Björn Bjarnason, þá dóms- og kirkjumálaráðherra, grein undir heitinu „Átökin um Íraksstríðið” þar sem hann réttlætti stuðning við innrásina með vísan til þess að það hefði veirð „meira stílbrot í sögu íslenskra utanríkismála, ef ríkisstjórn Íslands hefði á þessari örlagastundu ákveðið að yfirgefa samstarf þjóðanna við Atlantshaf og lagst á árarnar með ríkisstjórnum Frakklands og Þýskalands [sem voru andvíg beitingu hervalds án samþykkis Öryggisráðs S.Þ.]” og benti á að um þessar mundir ættu sér stað lýðræðislegar kosningar í Írak.[28]

Í september 2006 fluttu þingmenn stjórnarandstöðu, Össur Skarphéðinsson (Samfylkingin), Ögmundur Jónasson (Vinstri grænir) og Magnús Þór Hafsteinsson (Frjálsyndi flokkurinn), þingsályktunartillögu þar sem ályktað var að „fela ríkistjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsi því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.”[29] Þingályktunartillagan var svæfð hjá utanríkismálanefnd Alþingis.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksinss og Samfylkingar frá maí 2007 var „ný ríkisstjórn [sögð harma] stríðsreksturinn í Írak”.[30] Síðla árs 2008, þegar rúm fimm ár voru liðin frá innrásinni, var talað um átyllur til innrásar í frétt hjá RÚV.[31]

Í lok árs 2010 var lögð fram þingályktunartillaga um að stofnuð yrði rannsóknarnefnd til rannsóknar á aðdraganda ákvörðunarinnar um stuðning Íslands við innrásina í Írak 2003.[32] Svandís Svavarsdóttir, þingkona VG, lagði fram fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um það hvort til stæði af hálfu íslenskra yfirvalda að biðjast afsökunar á stuðningi þeirra við Íraksstríðið þar sem að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefði opinberlega beðist afsökunar á rangri upplýsingagjöf í aðdraganda stríðsins.[33]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „President Bush Announces Major Combat Operations in Iraq Have Ended“, skoðað þann 9. október 2006.
 2. U.S. formally declares end of Iraq War USA today
 3. „Iraq war illegal, says Annan“, skoðað þann 11. október 2006.
 4. „Gulf War: US Embassy Bagdhad to Washington (Saddam's message of friendship to George Bush) (declassified 1998)“, skoðað þann 9. október 2006.
 5. „Security Council resolution 660 (1990)“, skoðað þann 9. október 2006.
 6. „Security Council resolution 661 (1990)“, skoðað þann 9. október 2006.
 7. „Security Council resolution 678 (1990)“, skoðað þann 9. október 2006.
 8. „Security Council resolution 687 (1991)“, skoðað þann 9. október 2006.
 9. „Security Council resolution 986 (1995)“, skoðað þann 9. október 2006.
 10. „Letter to President Clinton on Iraq“, skoðað þann 9. október 2006.
 11. „Iraq's Weapons of Mass Destruction - The assessment of the British Government“, skoðað þann 9. október 2006.
 12. „President Delivers "State of the Union"“, skoðað þann 9. október 2006.
 13. „AUTHORIZATION FOR USE OF MILITARY FORCE AGAINST IRAQ RESOLUTION OF 2002“, skoðað þann 9. október 2006.
 14. „Security Council resolution 1441 (2002)“, skoðað þann 11. október 2006.
 15. „US war signal divides world“, skoðað þann 11. október 2006.
 16. „Millions join global anti-war protests“, skoðað þann 11. október 2006.
 17. „Þögul mótmæli gegn stríði við kertaljós“, skoðað þann 11. október 2006.
 18. „Þögul mótmæli við kertaljós“, skoðað þann 11. október 2006.
 19. „500 manns mótmæltu á Akureyri“, skoðað þann 11. október 2006.
 20. „Táknræn mótmæli ungmenna“, skoðað þann 11. október 2006.
 21. „Taka undir Azoreyjayfirlýsingu“. mbl.is (18. mars 2003),
 22. „Lög um þingsköp Alþingis. 1991 nr. 55 31. maí“,
 23. „Segja þingsköp brotin“ (20. mars 2003),
 24. „Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu“,
 25. „Stuðningur við afvopnun Íraks var í samræmi við íslensk lög“ (25. janúar 2005),
 26. „Þrjú skjöl í forsætisráðuneyti“ (16. nóvember 2010),
 27. „Athugasemdir um störf þingsins: Stríðsátökin í Írak.“ (30. apríl 2004), skoðað þann 9. október 2006.
 28. Björn Bjarnason (18. desember 2004). „Átökin um Íraksstríðið“,
 29. „Tillaga til þingsályktunar gegn stuðningi við innrás í Írak.“, skoðað þann 9. október 2006.
 30. „Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007“ (23. maí 2007),
 31. „Abu Nidal njósnari Bandaríkjamanna?“. RÚV (25. október 2008),
 32. „Rannsóknar­nefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003“,
 33. „Svar forsætisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um afsökunarbeiðni til þjóðarinnar vegna stuðnings við Íraksstríðið“,

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]