Donald Rumsfeld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Donald Rumsfeld
Rumsfeld árið 2001.
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
20. nóvember 1975 – 20. janúar 1977
ForsetiGerald Ford
ForveriJames Schlesinger
EftirmaðurHarold Brown
Í embætti
20. janúar 2001 – 18. desember 2006
ForsetiGeorge W. Bush
ForveriWilliam Cohen
EftirmaðurRobert Gates
Starfsmannastjóri Hvíta hússins
Í embætti
21. september 1974 – 20. nóvember 1975
ForsetiGerald Ford
ForveriAlexander Haig
EftirmaðurDick Cheney
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 13. kjördæmi Illinois
Í embætti
3. janúar 1963 – 20. mars 1969
ForveriMarguerite S. Church
EftirmaðurPhil Crane
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. júlí 1932
Evanston í Illinois í Bandaríkjunum
Látinn29. júní 2021 (88 ára) Taos, Nýju-Mexíkó, Bandaríkjunum
DánarorsökMergæxli
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiJoyce Pierson (g. 1954)
Börn3
HáskóliPrinceton-háskóli
StarfBandarískur stjórnmálamaður, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjana
Undirskrift

Donald Rumsfeld (9. júlí 1932 – 29. júní 2021[1]) var bandarískur stjórnmálamaður og fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Á ferli sínum sem stjórnmálamaður var hann tvisvar sinnum varnarmálaráðherra. Fyrst frá 1975-1977 í ríkisstjórn Geralds Ford og var þá yngsti maður sem tekið hafði við þessu embætti. Svo frá 2001 – 2006 í ríkisstjórn George W. Bush og var þá sá elsti sem hafði tekið við þessu sama embætti.

Yngri ár[breyta | breyta frumkóða]

Rumsfeld er fæddur í Evanston í Illinois en ólst upp í Winnetka í sama ríki. Hann var mjög virkur í skátastarfi á sínum yngri árum og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín innan hreyfingarinnar.

Hann fékk skólastyrk til þess að stunda nám við Princeton-háskóla. Meðan hann var í námi var lagði hann stund á bæði glímu og ruðning og var hann fyrirliði á báðum liðum skólans í þessum greinum. Herbergisfélagi hans í Princeton var Frank Carlucci sem síðar varð einnig varnarmálaráðherra.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

1954 – 2000[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1954 gékk Rumsfeld í sjóher Bandaríkjanna þar sem hann var flugmaður og flugkennari. Hann var virkur í hernum til ársins 1957 en þá skráði hann sig í varalið hersins. Hann var skráður í herinn allt til ársins 1989.

Rumsfeld var kosin til fulltrúardeildar bandaríkjaþings fyrir hönd 13.kjördæmis Illinois. Hann hlaut örugga kosningu í endurkjörum árin 1964, 1966 og 1968. Meðan hann var á þingi sótti hann kennslustundir og námskeið í Háskólanum í Chicago. Meðan hann var þar kynntist hann Milton Friedman og kenningum Chicago-skólans í hagfræði.

Hann sagði upp sem þingmaður 1969 til þess að starfa í ríkisstjórn Nixons. Þar tók hann sæti sem ráðgjafi forsetans ásamt því að taka sæti í ýmsum ráðum og nefndum. Árið 1973 flutti Rumsfeld frá Washington D.C. til Brussel þar sem hann var sendiherra Bandaríkjana hjá NATO. Á meðan hann var í Brussel sinnti hann ýmsum störfum fyrir hönd Bandaríkjanna á sviði hernaðar- og vararmála og var meðal annars fastafulltrúi Bandaríkjana í Norður-Atlantshafsráðinu.

1974 var hann kallaður aftur heim til Washington til þess að sjá um embættistöku Geralds Ford. Ári seinna tók hann við starfi starfsmannastjóra Hvítahússins og hélt því þar til Ford stokkaði upp ríkisstjórn sinni árinu seinni. Ford skipaði þá Rumsfeld sem varnarmálaráðherra og var hann í því embætti til 1977.

Frá árunum 1977 – 2001 starfaði hann að mestu í einkageiranum en sat þó í hinum ýmsu ráðum og nefndum innan stjórnmálanna, flestum á sviði utanríkis-, hernaðar- og varnarmála.

2001 – 2006[breyta | breyta frumkóða]

Það var þegar George W. Bush var kjörinn forseti að hann varð varnarmálaráðherra í annað sinn.

Sem varnarmálaráðherra tók Rumsfeld þá ákvörðun að láta loka herstöð Bandaríkjamanna í Keflavík árið 2006 í kjölfar viðræðna um aukna kostnaðarþátttöku Íslendinga í rekstri hennar. Rumsfeld var sakaður um að standa illa að þeirri ákvörðun þar sem hún var ekki tekin í samráði við íslensk stjórnvöld og kom mörgum í opna skjöldu.[2] Samkvæmt sjálfsævisögu Rumsfelds hafði hann barist fyrir lokun herstöðvarinnar í þrjú ár en hafði ekki fengið sínu framgengt á meðan Colin Powell, sem vildi halda henni opinni, var utanríkisráðherra.[3]

Íraksstríðið[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar hryðjuverkaárásana þann 11.september 2001 er Rumsfeld sagður hafa gefið skipanir til undirmanna sinna um að afla strax upplýsinga um árásirnar og dæma hvort þær séu nógu góðar til þess að ráðast gegn Saddam Hussein og Osama Bin Laden.[4]

Á meðan á Íraksstríðinu stóð var Rumsfeld mjög umdeildur og þá sérstaklega vegna þeirra pyntingarmála sem komu upp meðan á stríðinu stóð. Stríðsfangar sem höfðu verið handteknir á meðan á stríðinu stóð voru látnir sæta ýmiss konar pyntingum meðan þeir voru í haldi Bandaríkjamanna svo sem vatnspyntingum, svefnleysi, niðurlægingu og barsmíðum. Rumsfeld heimilaði þessar starfsaðferðir þvert á tilskipun genfarsáttmálans um meðferð stríðsfanga. Hann sagði seinna um pyntingarnar: „Þetta eru atburðir sem gerðust á meðan ég var varnarmálaráðherra. Ég er ábyrgur fyrir þeim.“[5]

Rumsfeld gaf út minnisblað þar sem hann fjallar um pyntingar á herföngum. Í minnisblaðinu er meðal annars talað um að fangar séu látnir standa kyrrir í allt að fjóra tíma á dag. Á minnisblaðinu sem Rumsfeld hafði skrifað undir hafði hann einnig skrifað „Ég stend í 8-10 tíma á dag. Af hverju mega [fangarnir] aðeins standa í fjóra tíma“.[6] Þegar þetta minnisblað var gert opinbert birti The Economist það á forsíðu sinni ásamt textanum „Segðu af þér Rumsfeld“.

Eftir því sem leið á stríðið mætti Rumsfeld sífellt meiri andstöðu frá almenningi, innan ríkisstjórnarinnar og innan hersins. Í upphafi árs 2006 kröfðust alls átta hershöfðingjar og aðmírálar afsagnar Rumsfelds í fordæmalausri aðgerð í sögu Bandaríkjanna. Sökuðu þeir Rumsfeld um að hafa sýnt af sér gríðarlega vanhæfni í skipulagningu hernaðarátaka. Rumsfeld hafnaði þessum ásökunum. Bush stóð með Rumsfeld og sagðist muna styðja hann svo lengi sem hann væri forseti en þann 6. nóvember skrifaði Rumsfeld afsagnarbréf til Bush. Margir repúblikanar voru ósáttir við að uppsögnin hafi borist svo seint fyrir kosningar og trúðu því að margir hafi ákveðið að kjósa ekki repúblikana vegna Rumsfelds. Afsögn hans tók gildi þann 18. desember 2006 og tók þá Robert Gates við starfinu. Þegar Bush tilkynnti um afsögn Rumsfeld sagði hann: „Bandaríkin eru öruggari og heimurinn allur er öruggari vegna starfa Donald Rumsfeld.“[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Donald Rumsfeld látinn“. mbl.is. 30. júní 2021. Sótt 5. júní 2021.
  2. Samúel Karl Ólason (30. júní 2021). „Donald Rumsfeld er dáinn“. Vísir. Sótt 5. júní 2021.
  3. Máni Snær Þorláksson; Heimir Hannesson (30. júní 2021). „Donald Rumsfeld látinn – Maðurinn sem sveik Íslendinga um herstöð á Suðurnesjum“. DV. Sótt 5. júní 2021.
  4. „Plans For Iraq Attack Began On 9/11“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. desember 2018. Sótt 21. nóvember 2010.
  5. „Rumsfeld 'the best'. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. maí 2004. Sótt 22. nóvember 2010.
  6. „Rumsfeld OK'd harsh treatment“. Sótt 22. nóvember 2010.
  7. „President Bush Nominates Dr. Robert M. Gates to be Secretary of Defense“. Sótt 22. nóvember 2010.