Fara í innihald

Fallöxi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fallöxi er aftökutæki sem er helst þekkt úr frönsku byltingunni sem hófst 1789. Fallöxin er í grundvallaratriðum hár gálgi með skásett, þungt og beitt blað, sem hengt er upp á gálgann. Við aftöku er blaðið látið falla fyrir eigin þunga niður á háls sakamanns.

Fallöxin er í flestum tungumálum kennd við meðmælanda hennar, Joseph-Ignace Guillotin, og nefnd Guillotine. Fallöxin var aðallega notuð í Frakklandi, og var helsta aftökuaðferðin í frönsku byltingunni. Síðasta opinbera aftakan með fallöxi fór fram 17. júní 1939 fyrir utan fangelsið Saint-Pierre rue Georges Clemenceau 5 í Versölum. Þá var Eugene Weidman tekinn af lífi eftir að hafa verið sakfelldur fyrir sex morð. Síðasta aftaka með fallöxi fór fram 10. september, 1977, þegar Hamida Djandoubi, innflytjandi frá Túnis sem hafði pyntað og drepið fyrrverandi kærustu sína, var tekinn af lífi í Aix-en-Provence. Bann gegn dauðarefsingum í Frakklandi gekk í gildi 1981.