Búrfell (Garðabæ)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Búrfellsgjá)
Búrfell
Búrfellsgjá

Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg.

Eldborgir einkennast af því að gos hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, 180 m hátt yfir sjó, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Hraunstraumarnir sem runnu frá gígnum nefnast einu nafni Búrfellshraun en hafa fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli og allar náð til sjávar. Stærsta tungan rann niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á þessum hluta hraunsins. Önnur hrauntunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum. Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir í dag. Ystu totur hraunsins eru því sokknar í sæ og teygja sig nokkuð út fyrir núverandi strönd.

Berggerðin hraunsins er ólivínbasalt (ólivínþóleiít) með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum.

Búrfell og Búrfellsgjá voru friðlýst árið 2020. [1]

Sprungur og misgengi[breyta | breyta frumkóða]

Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni og að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krísuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.

Stærð hraunsins[breyta | breyta frumkóða]

Að stærð er Búrfellshraun miðlungshraun á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að sjá hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraun hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Líklega er allt að þriðjungur hraunsins sé hulinn yngri hraunum og það sé því alls um 24 km2 að flatarmáli. Rúmmál hraunsins er talið vera um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu eða rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr.

Hrauntraðir[breyta | breyta frumkóða]

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Stærstu hrauntraðirnar nefnast Lambagjá, Kringlóttagjá, Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.

Gönguleiðir[breyta | breyta frumkóða]

Vinsæl gönguleið á Búrfell liggur um Búrfellsgjá. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar, þar er Hrafnagjá, við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Veggir traðanna eru oft 5-10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti. Vinsælar gönguleiðir og skoðunarstaðir eru einnig í Gálgahraun. Þar hafa spunnist miklar deilur vegna umhverfismála því vegagerð þykir ógna gamalgrónum stígum og þjóðleiðum. Samtökin Hraunavinir hafa barist gegn vegaframkvæmdunum og tekist hart á við bæjaryfirvöld vegna þessara mála. Átök við lögreglu, handtökur á þjóðkunnum umhverfissinnum hafa átt sér stað þar í hrauninu og kærumál hafa risið vegna málsins.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Búrfellsgjá friðlýst Mbl.is, skoðað 21. mars 2021