Fossvogslög
Fossvogslögin eru meðal þekktustu setlaga í íslenska jarðlagastaflanum. Þetta er setlagasyrpa þar sem skiptast á jökulruðningslög og sjávarsetlög með skeljum og sums staðar straumvatnaset. Lögin finnast við Fossvog, í Nauthólsvík og út með Skerjafirði. Þau hafa einnig komið í ljós í húsgrunnum á Háskóla- og flugvallarsvæðinu. Lög þessi hafa lengi verið þekkt meðal náttúrufræðinga og margt hefur verið um þau ritað allt frá öndverðri 19. öld.
Ýmsar tegundir skelja og kuðunga hafa fundist í lögunum til dæmis smyrslingur (mya truncata), hallloka (macoma calcaria), beitukóngur (buccinium undatum), hrúðurkarlar (Balanus balanus) og fleira. Allt eru þetta tegundir sem enn lifa við Íslandsstrendur. Jökulrispaðar klappir Reykjavíkurgrágrýtis og jökulruðningur er undir skeljalögunum og ofan á þeim má sums staðar sjá yngri jökulruðning. Jarðlög þessi hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðs meðan jöklar voru enn að verki á höfuðborgarsvæðinu, ýmist að hörfa eða sækja fram. Sjór stóð þá töluvert hærra en hann gerir í dag. Aldursgreiningar á skeljum úr Fossvogslögum sýna að sjávarsetið í þeim er 12.500 - 13.000 ára, eða frá Allerød tímabilinu í ísaldartlok og jökulruðningurinn ofan á lögunum er frá Yngra Dryas kuldakastinu.
Friðlýsing
[breyta | breyta frumkóða]Fossvogsbakkar kallast það svæði sem Fossvogslögin ná yfir og voru þeir friðlýstir árið 1999. Svæðið er 17,8 hektarar og telst til náttúruvættis samkvæmt friðunarlögum.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Fossvogsbakkar, Reykjavík“. Umhverfisstofnun. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. febrúar 2015. Sótt 14. nóvember 2014.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Árni Hjartarson. 1989. „The ages of the Fossvogur layers and the Álftanes end-moraine, SW-Iceland“. Jökull 39: 21-31.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Kort af friðlýsta svæðinu (skoðað 2. ágúst 2112)
- Fossvogsbakkar (Vefur Reykjavíkurborgar um græn svæði) Geymt 24 mars 2015 í Wayback Machine