Fara í innihald

Hinrik Frehen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hinrik Frehen (Henrik Hubertus Frehen) (24. janúar 191731. október 1986) var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi frá 1968 til 1986.

Hinrik Frehen fæddist í héraðinu Waubach syðst í Hollandi við landamæri Þýskalands og Belgíu. Hann stundaði nám í menntaskóla Montfort-presta og gerðist meðlimur reglu þeirra (S.M.M.) 1937. Hinrik stundaði nám í heimspeki og guðfræði í prestaskóla Montfortpresta í Oirschot í Hollandi og var vígður prestur 18. desember 1943. Hann tók doktorspróf við háskólann í Louvain í Belgíu. Doktorsritgerð hans fjallaði um Kristsfræði Bérulle kardínála. Næstu sex árin gegndi hann tveimur prófessorsembættum, fyrst í Biblíufræðum og síðar í trúfræði og trúarlífssögu við prestaskólann í Oirschot. Árið 1958 varð hann yfirprestur í Montfort-reglunni og framkvæmdastjóri trúboðsstöðvar, fyrst í Louvain og síðar í Róm.

Hinrik Frehen var útnefndur biskup á Íslandi 18. október 1968[1] og vígður 8. desember sama ár[2][3] en settur inn í embætti 22. sama mánaðar.[4][5] Hinrik þótti fyrst og fremst vera vísindamaður sem reyndi að vinna bug á vandamálunum á vitrænan hátt og lagði mikla stund á íslenskunám en náði þó aldrei fullum tökum á talmálinu. Hann fylgdi fyrirmælum og ákvörðunum annars Vatíkanþingsins og sá til þess að helgisiðirnir væru framkvæmdir eftir nýjum reglum þess. Hann lét meðal annars þýða messu- og helgitexta á íslensku. Henrik biskup hafði víðtæk sambönd í Hollandi og Þýskalandi og notfærði sér þau til að bæta fjárhagsstöðu biskupsdæmisins. Hann kom meðal annars á tengslum við St. Ansgar-stofnunina í Þýskalandi og stofnaði eigin hjálparsjóð í Hollandi fyrir íslensku kirkjuna.

Biskup var jarðsunginn í Landakoti 7. nóvember 1986.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Acta Apostolicae Sedis LXI, bls. 416.
  2. Catholic Hierarchy. Skoðað 3. júlí 2011.
  3. Morgunblaðið 10. desember 1968. Skoðað 3. júlí 2011.
  4. Morgunblaðið 22. desember 1968. Skoðað 3. júlí 2011.
  5. Tíminn 24. desember 1968. Skoðað 3. júlí 2011.
  6. Morgunblaðið 8. nóvember 1986. Skoðað 3. júlí 2011.


Fyrirrennari:
Jóhannes Gunnarsson
Biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi
(1968 – 1986)
Eftirmaður:
Alfred Jolson