Hinrik Frehen
Hinrik Frehen (Henrik Hubertus Frehen) (24. janúar 1917 – 31. október 1986) var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi frá 1968 til 1986.
Hinrik Frehen fæddist í héraðinu Waubach syðst í Hollandi við landamæri Þýskalands og Belgíu. Hann stundaði nám í menntaskóla Montfort-presta og gerðist meðlimur reglu þeirra (S.M.M.) 1937. Hinrik stundaði nám í heimspeki og guðfræði í prestaskóla Montfortpresta í Oirschot í Hollandi og var vígður prestur 18. desember 1943. Hann tók doktorspróf við háskólann í Louvain í Belgíu. Doktorsritgerð hans fjallaði um Kristsfræði Bérulle kardínála. Næstu sex árin gegndi hann tveimur prófessorsembættum, fyrst í Biblíufræðum og síðar í trúfræði og trúarlífssögu við prestaskólann í Oirschot. Árið 1958 varð hann yfirprestur í Montfort-reglunni og framkvæmdastjóri trúboðsstöðvar, fyrst í Louvain og síðar í Róm.
Hinrik Frehen var útnefndur biskup á Íslandi 18. október 1968[1] og vígður 8. desember sama ár[2][3] en settur inn í embætti 22. sama mánaðar.[4][5] Hinrik þótti fyrst og fremst vera vísindamaður sem reyndi að vinna bug á vandamálunum á vitrænan hátt og lagði mikla stund á íslenskunám en náði þó aldrei fullum tökum á talmálinu. Hann fylgdi fyrirmælum og ákvörðunum annars Vatíkanþingsins og sá til þess að helgisiðirnir væru framkvæmdir eftir nýjum reglum þess. Hann lét meðal annars þýða messu- og helgitexta á íslensku. Henrik biskup hafði víðtæk sambönd í Hollandi og Þýskalandi og notfærði sér þau til að bæta fjárhagsstöðu biskupsdæmisins. Hann kom meðal annars á tengslum við St. Ansgar-stofnunina í Þýskalandi og stofnaði eigin hjálparsjóð í Hollandi fyrir íslensku kirkjuna.
Biskup var jarðsunginn í Landakoti 7. nóvember 1986.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Acta Apostolicae Sedis LXI, bls. 416.
- ↑ Catholic Hierarchy. Skoðað 3. júlí 2011.
- ↑ Morgunblaðið 10. desember 1968. Skoðað 3. júlí 2011.
- ↑ Morgunblaðið 22. desember 1968. Skoðað 3. júlí 2011.
- ↑ Tíminn 24. desember 1968. Skoðað 3. júlí 2011.
- ↑ Morgunblaðið 8. nóvember 1986. Skoðað 3. júlí 2011.
Fyrirrennari: Jóhannes Gunnarsson |
|
Eftirmaður: Alfred Jolson |