Fara í innihald

Micro 18

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Micro 18, Micro Cupper eða einfaldlega Micro er tegund af seglskútu sem er hönnuð bæði fyrir kappsiglingar og skemmtisiglingar. Bátar af þessari gerð eru átján feta langir (5,5 metrar) og 2,45 metra breiðir með káetu og svefnpláss fyrir fjóra að framanverðu. Hönnunin var fyrst kynnt af franska tímaritinu Bateaux árið 1976. Gerðin var hugsuð fyrir eina árlega siglingakeppni, Micro Cup frá 1977, og miðaðist við hönnun vinsælla átján feta báta á borð við Corsaire. Brátt hófu bæði stærri og minni framleiðendur framleiðslu báta út frá þessum hönnunarviðmiðum og Micro-bátar náðu talsverðum vinsældum á 9. áratug 20. aldar.

Árið 1999 hlaut gerðin viðurkenningu Alþjóða siglingasambandsins sem alþjóðleg keppnisgerð.

Algengar útgáfur Micro 18-báta eru meðal annars Jeanneau Microsail, Corsaire og GEM. Micro-bátar skipast í keppnisbáta, skemmtibáta og frumgerðir eftir því hvaða áherslur hafa ráðið smíði þeirra. Oftast eru Micro-bátar gerðir úr trefjaplasti utanum krossviðarskel með fellikili með 100 kg ballest úr blýi. Nokkrar vinsælar tegundir voru upphaflega líka með fellistýri þannig að hægt væri að sigla bátnum upp í fjöru, en eftir nokkur atvik þar sem slík stýri brotnuðu við álag varð algengara að notast við heilt stýri. Micro-bátar eru yfirleitt um hálft tonn að þyngd og því hægt að flytja þá með kerru aftaní fólksbíl.

Á Íslandi voru nokkrir bátar af þessari gerð smíðaðir um miðjan 9. áratuginn af fyrirtækinu Mótun ehf. í Hafnarfirði eftir teikningum frá breskum framleiðanda og frá 1983 fram á 10. áratuginn var haldin árleg Íslandsmeistarakeppni í flokknum.