6 mR
Sex metra kjölbátur (6 mR eða sexa) er gerð af kappsiglingaskútum sem eru smíðaðar samkvæmt alþjóðlegu metrareglunni. Reglan skilgreinir tiltekna jöfnu með tilteknum málum bátsins og útkoman úr henni á að vera sex. Sex metra á því ekki við um lengd bátsins, en sex metra kjölbátar eru að jafnaði um ellefu metrar að lengd. Sexur geta verið mjög ólíkar innbyrðis.
Sexur voru notaðar sem Ólympíubátar frá Ólympíuleikunum 1908 til 1952.
Sexan átti sitt blómaskeið á 3. og 4. áratugnum og skútuhönnuðir kepptust við að hanna sem hraðskreiðastar útgáfur. Hún þótti vera dýr og óaðgengileg fyrir almenning. Um 1930 var farið að keppa á ódýrari fimm metra skútum og 1949 var alþjóðlegi 5,5 metra kjölbáturinn skilgreindur. Það markaði endalok vinsælda sexunnar.
Frá 9. áratugnum hefur áhugi á sexunni vaxið aftur og keppnir eru reglulega haldnar í flokknum.