Patrice Lumumba
Patrice Lumumba | |
---|---|
Forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó | |
Í embætti 24. júní 1960 – 5. september 1960 | |
Forseti | Joseph Kasa-Vubu |
Forveri | Fyrstur í embætti |
Eftirmaður | Joseph Iléo |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 2. júlí 1925 Katakokombe, belgíska Kongó (nú Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó) |
Látinn | 17. janúar 1961 (35 ára) Élisabethville (nú Lubumbashi), Katanga |
Dánarorsök | Myrtur |
Stjórnmálaflokkur | Kongóska þjóðernishreyfingin (Mouvement national congolais) |
Maki | Pauline Opanga Lumumba |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | Michel, François, Guy Patrice, Juliane, Patrice, Roland |
Starf | Stjórnmálamaður |
Patrice Émery Lumumba (2. júlí 1925 – 17. janúar 1961) var kongóskur sjálfstæðisleiðtogi og fyrsti lýðræðislega kjörni forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó (nú Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó). Lumumba var lykilmaður í að semja um sjálfstæði Kongó frá Belgíu og var stofnandi og leiðtogi Kongósku þjóðernishreyfingarinnar (fr. Mouvement national congolais; MNC).
Stuttu eftir að Kongó hlaut sjálfstæði árið 1960 gerði herinn uppreisn sem markaði upphaf Kongódeilunnar. Lumumba biðlaði til Bandaríkjanna og Sameinuðu þjóðanna um hjálp við að kveða niður aðskilnaðarsinnana í Katanga en hafði ekki erindi sem erfiði. Því leitaði hann þess í stað til Sovétríkjanna. Þetta leiddi til ágreinings Lumumba við Joseph Kasa-Vubu forseta og starfsmannastjórann Joseph-Desiré Mobutu auk þess sem ákvörðunin styggði mjög Bandaríkin og Belgíu. Í kjölfarið var Lumumba handtekinn af ráðamönnum undir stjórn Mobutu, framseldur aðskilnaðarsinnunum í Katanga og tekinn af lífi. Lík hans var síðan bútað í sundur og líkamshlutarnir leystir up í sýru.[1] Eftir dauða hans fóru sjálfstæðissinnar í Afríku að líta á Lumumba sem píslarvott sem hefði látið lífið í viðleitni til að endurheimta sjálfstæði nýlendanna.
Bæði belgísk og bandarísk stjórnvöld liggja undir grun sem þátttakendur í samsærinu sem leiddi til dauða Lumumba. Viðhorf þeirra til Lumumba litaðist af kalda stríðinu og voru þau tortryggin í hans garð þar sem hann þótti hallur undir Sovétríkin. Lumumba sagðist þó ekki vera kommúnisti, heldur hafi hann neyðst til að leita á náðir Sovétríkjanna þar sem enginn annar vildi hjálpa honum að leysa Kongó úr viðjum nýlenduyfirráða.[2] Belgískir liðsforingjar fóru fyrir aftökusveitinni sem batt enda á líf Lumumba.[3][4][3] Bandaríska leyniþjónustan hafði auk þess lagt drög að áætlunum til að koma Lumumba fyrir kattarnef[5][6][7] og Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseti hafði sjálfur viljað hann feigan.[8]
Það eina sem varðveittist af jarðneskum leifum Lumumba var ein gulltönn sem belgískur lögreglumaður reif úr líkinu og fór með til Belgíu. Tönnin varðveittist í fórum fjölskyldu hans fram til ársins 2020, en þá úrskurðaði belgískur dómstóll að tönninni skyldi skilað til Kongó.[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Vera Illugadóttir (2018). „Forsætisráðherra myrtur og leystur upp í sýru“. RÚV.
- ↑ Sean Kelly, America's Tyrant: The CIA and Mobutu of Zaire, bls. 29.
- ↑ 3,0 3,1 The Assassination of Lumumba, Ludo De Witte, 2003.
- ↑ Hollington, Kris (2007). Wolves, Jackals and Foxes: The Assassins Who Changed History. True Crime. bls. 50–65. Sótt 11. desember 2010.
- ↑ 6) Plan to poison Congo leader Patrice Lumumba (p. 464), Family jewels CIA documents, on the National Security Archive's website
- ↑ „A killing in Congo“. US News. 24. júlí 2000. Sótt 18. júní 2006.
- ↑ Sidney Gottlieb "obituary" „Sidney Gottlieb“. Counterpunch.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2011. Sótt 21. október 2017.
- ↑ Kettle, Martin (10. ágúst 2000). „President 'ordered murder' of Congo leader“. The Guardian. London. Sótt 18. júní 2006.
- ↑ Atli Ísleifsson (11. september 2020). „Belgar munu loks skila tönninni úr Lumumba til Kongó“. Vísir. Sótt 11. september 2020.