Jörundur hundadagakonungur
Jørgen Jørgensen | |
---|---|
Verndari og hæstráðandi Íslands | |
Í embætti 26. júní 1809 – 19. ágúst 1809 | |
Forveri | Frederik Christopher Trampe (stiftamtmaður) |
Eftirmaður | Frederik Christopher Trampe (stiftamtmaður) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 7. apríl 1780 Kaupmannahöfn, Danmörku |
Látinn | 20. janúar 1841 (60 ára) Hobart, Tasmaníu |
Þjóðerni | Danskur |
Maki | Nora Corbett (g. 1831) |
Starf | Sjómaður, ævintýramaður |
Jørgen Jørgensen (fæddur 29. mars 1780 í Kaupmannahöfn í Danmörku – látinn 20. janúar 1841 í Hobart í Tasmaníu), sem í daglegu tali er kallaður Jörundur hundadagakonungur, var danskur sjómaður og ævintýramaður sem réð í stuttan tíma árið 1809 yfir Íslandi sem „verndari og hæstráðandi“ landsins eftir að hafa framið valdarán gegn dönskum stjórnvöldum.
Jørgen bjó í Bretlandi framan af og dáðist að öllu sem enskt var. Síðar þvældist hann inn í Íslandsævintýri sitt og varð þar „hæstráðandi til sjós og lands“ (nokkurs konar ígildi konungs) um nokkurra vikna skeið og er viðurnefni hans á Íslandi dregið af því að þetta bar til um hundadagana. Eftir að hann var fluttur aftur til Bretlands var hann meira og minna fangi, vegna þess að hann var forfallinn spilafíkill og greiddi sjaldan skuldir sínar. Að lokum var hann fluttur sem fangi til Ástralíu. Hann fékk frelsi nokkrum árum áður en hann dó.
Nám og störf
[breyta | breyta frumkóða]Jørgen Jørgensen var sonur konunglegs úrsmiðs í Kaupmannahöfn, sem var mikils metinn maður. Vegna þess að drengurinn var haldinn mótþróa gegn því skólanámi, sem honum var ætlað, sendi faðir hans hann á sjóinn og kom honum í siglingar og nám í siglingafræði á breskum kaupskipum þegar hann var um 15 ára aldur. Hann var fullnuma fyrir tvítugt. Þá gekk hann í breska flotann og var á nokkrum herskipum. Eftir það á kaupskipum og rannsóknarskipum, sem sigldu til Ástralíu. Hann var á skipinu Lady Nelson, sem fann sundið á milli meginlands Ástralíu og Van Diemens-lands, eins og Tasmanía hét þá. Síðar varð hann fyrsti stýrimaður á Lady Nelson og flutti skipið fanga frá Bretlandi til Ástralíu. Einnig voru framkvæmdar mælingar við strendur Ástralíu. Eftir þetta varð hann skipstjóri á selveiðiskipi og svo stýrimaður á hvalveiðiskipi. Þannig þvældist hann um mikinn hluta heimsins til sumarsins 1806 er hann kom til London. Þar tókst honum að komast í kynni við mennta- og vísindafrömuðinn Sir Joseph Banks, sem var góðkunningi konungsins og ráðgjafi hans í vísindalegum málefnum. Vináttu þeirra lauk eftir Íslandsævintýri Jörundar nokkrum árum síðar.
Eftir þetta fór hann til Kaupmannahafnar, sem hann hafði ekki séð síðan á unglingsárum sínum. Á þessum tíma áleit Jörgensen sig eiginlega breskan sem átti eftir að reynast honum erfitt. Í ágúst 1807, gerðu bresk herskip árás á Kaupmannahöfn og hertóku borgina eftir þriggja vikna umsátur. Í kjölfarið hertóku Bretar þau skip sem þeim þótti einhvers virði og yfirgáfu Danmörku. Í kjölfarið sögðu Danir Englandi stríð á hendur og allir Danir á aldrinum 18 til 50 ára voru gerðir herskyldir og þar með sat Jørgensen fastur. Sem reyndur sjómaður og skipstjórnandi var hann skikkaður til að gerast skipstjóri á dönsku herskipi sem hét Admiral Juul. Þann 2. mars 1808 lenti hann í sjóorustu við breska skipið Sappho og gafst upp eftir um hálftíma bardaga. Vegna tengsla sinna við Bretland þótti ýmsum Dönum grunsamlegt þegar skip Jørgensen lenti í höndum óvinanna og var jafnvel talinn föðurlandssvikari í Danmörku. Í Bretlandi fékk hann að ganga laus þó honum hafi verið bannað að yfirgefa landið.
Íslandsferðir
[breyta | breyta frumkóða]Á meðan dvöl Jørgensen á Englandi stóð heyrði hann af því að vöruskortur væri mikill á Íslandi vegna stríðsátaka í Evrópu. Hann kom sér í kynni við sápukaupmanninn Samuel Phelps og skipulagði með honum kaupför til Íslands í þeim tilgangi að kaupa tólg eða mör til sápugerðar. Hann taldi Phelps trú um að hann yrði honum mikils virði, meðal annars sem túlkur, en greindi ekki frá því að hann væri stríðsfangi í farbanni. Skipið Clarence var tekið á leigu til fararinnar. Jörundur fór með sem túlkur, en fulltrúi Phelps hét Savignac. Þeir sigldu frá Liverpool í desember 1808 og komu til Hafnarfjarðar í janúar 1809.
Ástandið á Íslandi var ekki jafn slæmt og Jørgensen hafði talið. Á þeim tíma var Íslendingum þá enn bannað að versla við aðra en danska þegna og reyndu embættismenn, með tilstuðlan kaupmanna, að koma í veg fyrir að breska skipið gæti nokkuð selt af vörum sínum. Savignac var ekki tilbúin að gefa eftir og neyddi embættismenn að gefa út undanþágu. Vörum var umskipað og sat Savignac eftir til að selja vörur á meðan Clarence hélt til Englands.
Nú var ráðgerð ný ferð. Að þessu sinni var Phelps sápukaupmaður með í för og var hann studdur af Sir Joseph Banks og jafnvel af flotamálaráðuneytinu og verslunarráðuneytinu. Phelps lánaði Jörundi 1000 pund til þess að losa hann úr skuldum, en um leið tókst Jörundi að slá hina og þessa kunningja sína um 360 pund að láni, svo að hann var með fullar hendur fjár. Að þessu sinni hét skipið Margaret & Anne og var látið úr höfn frá Gravesend snemma laugardags þann 3. júní 1809.
Skipið kom til Reykjavíkur miðvikudaginn 21. júní. Þá kom í ljós að undanþágan sem Savignac hafði kríað út fyrr á árinu var ekki mikils virði og hafði lítið selst af þeim vörum. Trampe greifi ítrekaði bann við verslun. Jörundur, Phelps og Savignac töldu sig illa svikna og ákváðu þeir í kjölfarið að taka völdin í eigin hendur.
Byltingin
[breyta | breyta frumkóða]Trampe greifi, sem var æðsti fulltrúi danskra yfirvalda á þessum tíma var handtekinn sunnudaginn 25. júní og geymdur um borð í Margaret & Anne. Mánudaginn þann 26. júní 1809 var hengd upp auglýsing undirrituð af Jörundi. Hún var í 11 liðum undir fyrirsögninni PROCLAMATION (sem er enska og þýðir „yfirlýsing“) og var svohljóðandi:
- Allur danskur myndugleiki er upphafinn á Íslandi.
- Allir Danskir ellegar faktórar, sem standa í sambandi með dönskum handelshúsum, skulu vera hver í sínu húsi og ekki upp á nokkurn máta láta sjá sig á götunum, heldur ekki að hafa samtal, eða senda skrifleg eða munnleg boð hver til annars né taka á móti slíku án þess að þeir hafi leyfi þar til.
- Allir danskir embættismenn skulu vera um kyrt í sínu eigin húsi, og eru undir sömu skilmálum sem hinir í undangangandi paragraph.
- Allslags vopn án undantekningar, svo sem byssur, pístólur, korðar, lángir knífar (Dolk) eður ammunition skulu án tafar afhendast.
- Sé svo að nokkur af landsins innbyggjurum, kvenfólk eða börn, skulu fara sendiferð milli Danskra án leyfis, eiga þeir að straffast sem stjórnarstandsins fjandmenn, samt sem áður, ef barnið ekki veit af, að það hafi drýgt yfirsjón, þá skal sú persóna, sem sendi það, straffast í þess stað.
- Allir lyklar til opinberra, einnig privat pakkhúsa og krambúða, skulu afhendast; allir peningar og bankoseðlar, sem annaðhvort tilheyra kónginum ellegar þeim faktórum, sem eru í sambandi með dönskum höndlunarhúsum, skulu geymast strax undir loku og lás og lyklarnir afhendast ásamt öllum reikningskapar bókum, protokollum og pappírum, sem tilheyra kónginum og faktórum, er meðhöndlast upp á líkan máta.
- Til að uppfylla þessi boð gefst yður hér í Reykjavík hálfur þriðji tími, í Hafnarfirði 12 tímar, en síðar meir skal nauðsynleg ráðstöfun ské á öðrum fjærliggjandi stöðum.
- Allir innfæddir, börn og kvenfólk, hverir sem eru og hverjum sem til heyra, - allir innfæddir embættismenn, - hafa fyrir eingu að óttast, og skulu meðhöndlast á bezta hátt, þó með því skilyrði, að þeir ekki brjóti gegn áðurnefndum skipunum.
- Sé þessum vorum boðum strax að fullu hlýtt, mun það að miklum hluta hlífa við óþarfa mælgi og blóðsúthellingu, en skyldi einn eður annar, hver sem er, breyta öðruvísi en hér er fyrirskipað verður hann að skyndingu fastur settur, heimtast fyrir stríðsrétt, og á að skjótast innan tveggja tíma, ef hann hefir brotið.
- Þegar öllu hér að framan skrifuðu er fram fylgt, verður útgefin opinber auglýsing, af hverju Íslenzkir munu fá að sanna, að ekkert annað er tilgangurinn hér við en þeirra eigið gagn, og að þetta er fyrirtekið einungis til að gera þá vissa um frið og fullsælu, er Íslendingar munu varla hafa þekt á hinum seinni árum.
- Þessi auglýsing skal verða skriflega til kynna gefin, hvar sem verður, svo Íslenzkir fái séð, að ekkert verði gert, er hindri frjálsræði þeirra, eður á nokkurn hátt (geti) orðið þeim að skaða.
Geti nokkur með rökum sannað, að einhver hafi brotið á móti þessari auglýsingu, þá skal sá hljóta verðlaun af 50 rd.
- Reykjavík, þann 26ta Júnii 1809.
- Jörgen Jörgensson
Seinni auglýsingin var í 20 greinum og hófst þannig: Ísland er laust og liðugt frá Danmerkur Ríkisráðum. Einnig þessi auglýsing var undirrituð af Jörgen Jörgensen. Þannig var fyrsta sjálfstæðisyfirlýsing Íslands orðin að veruleika. Þann 11. júlí birtist enn ein auglýsing og var fyrsta grein hennar þannig að loknum talsverðum formála: (... Það gjörist þess vegna hérmeð heyrum kunnugt)
- 1. Að Vér, Jörgen Jörgensen, höfum tekið að Oss Landsins Stjórn sem þess Forsvarsmaður, þartil að regluleg Landstjórn er ákvörðuð, með Fullmagt að færa Stríð og semja Frið við útlenska Stjórnarherra.
Undirskriftin var: Reykjavík þann 11. júlí 1809, Útgefið undir Vorri Hendi og Signeti, Jörgen Jörgensen, Alls Íslands Verndari og Hæstráðandi til Sjós og Lands.
Varnir landsins voru treystar með því að Phelps, sápuframleiðandi, lét byggja virki, sem kallað var Phelpsvirki á batteríinu niðri á Klöpp, sem var fyrir neðan og vestan fyrrverandi Útvarpshús við Skúlagötuna í Reykjavík. Þessi klöpp og umhverfi hennar er nú allt komið undir mikla landfyllingu neðan við Skúlagötu. Í virki þessu áttu að verða sex fallbyssur. Yfir því blakti fáninn sem Jörundur hafði sjálfur hannað: Blár, með þrjá hvíta, flatta þorska.
Til Bretlands aftur
[breyta | breyta frumkóða]Byltingunni lauk eftir tæpa tvo mánuði. Breska herskipið Talbot kom inn til Hafnarfjarðar og fengu þeir þar fréttir af ástandinu. Hraðaði skipstjórinn sér þá til Reykjavíkur og kallaði Phelps og Jörund fyrir sig. Að kvöldi sama dags tókst Trampe greifa að flýja frá borði á Margaret & Anne og komst hann um borð í Talbot. Þann 19. ágúst flutti Jörundur sig um borð í Margaret & Anne og völdum hans var lokið á Íslandi. Skipið fór þó ekki af stað til Bretlands næstu daga vegna slæms veðurs. Þann 22. ágúst undirrituðu Jones, skipherra á Talbot, Samuel Phelps, Magnús Stephensen etatsráð og Stefán Stephensen amtmaður samkomulag um að allar auglýsingar og aðgerðir Jörundar skyldu ógildar með öllu. 25. ágúst var svo haldið af stað til Bretlands og voru bæði Trampe greifi og Jörundur fluttir út nauðugir, Trampe um borð í Margaret & Anne, en Jörgensen um borð í skipinu Orion, sem var skip Trampes. Áhöfn Orions var fangar um borð í Margaret & Anne. Þeim líkaði vistin illa og kveiktu þeir í ullarfarmi skipsins strax á öðrum degi siglingarinnar. Varð uppi fótur og fit um borð og skipstjórinn var ófær um að halda stjórn. Orion var talsvert á eftir, en er það bar að, tók Jörundur að sér stjórn hins brennandi skips og reyndi hvað hann gat til að bjarga því, en það var um seinan. Áhöfnin bjargaðist hins vegar öll yfir í Orion, sem nú var snúið til baka til Reykjavíkur. Þetta var mikið björgunarafrek og hlaut Jörundur af þessu nokkurn heiður.
Nú var umskipað í Reykjavíkurhöfn. Talbot var ekki farið og tók Jones skipherra Trampe greifa og fleiri um borð í herskipið, en á Orion voru Jörundur, Phelps og fleiri. Orion sigldi beina leið til London, en Talbot kom ekki þangað fyrr en tveimur vikum síðar. Skömmu eftir það var Jörundur handtekinn. Ekki fyrir að hafa gert uppreisnina á Íslandi, heldur fyrir að hafa brugðist heiðursmannsloforðinu um að halda kyrru fyrir sem stríðsfangi. Í fangelsinu kynntist hann argasta lýð og meðal annars lærði hann þar fjárhættuspil og ýmis svindlbrögð og var eftir það forfallinn spilafíkill. Eftir fimm vikur í þessu fangelsi var kveðinn upp dómur yfir honum. Hann skyldi vera fangi um borð í fangaskipi með öðrum stríðsföngum. Kröfum um að framselja hann til Danmerkur var alfarið hafnað.
Fangi
[breyta | breyta frumkóða]Í október 1809 var Jörgensen fluttur um borð í fangaskipið Bahamas. Þetta var frekar lítið skip en þó voru um borð 800 fangar af ýmsu þjóðerni. Margir þeirra voru danskir stríðsfangar eins og hann, en það var honum frekar andstætt, því að allir Danir voru honum ævareiðir fyrir að láta Breta ná herskipinu Admiral Juul. Þarna var hann fangi í tæpt ár og notaði tímann til að skrifa, en hann var allafkastamikill rithöfundur, þó að deila megi um gæðin. Hann var látinn laus af skipinu í september 1810 gegn drengskaparheiti um að halda kyrru fyrir í Reading, sem er smáborg um 65 km vestan við London.
Í Reading hélt hann áfram ritstörfum og lét gefa út eftir sig eitt og annað. Hann kom sér í mjúkinn hjá yfirstéttarfólki, ævinlega tungulipur. Mörgum þótti upphefð í því að fá að kynnast þessum ævintýramanni. Þarna sat hann í farbanni þar til í júlí 1811, að hann var látinn laus. Hann fór beina leið til London og lifði þar í sukki og svalli og sólundaði öllum eigum sínum og safnaði skuldum fram á árið 1812. Þá var honum varpað í skuldafangelsi. Þar gengu menn „frjálsir“ en urðu að greiða fyrir veru sína. Í þessu „fangelsi“ hitti hann fyrrum félaga frá Íslandsferðinni, því að þar var Savignac fyrir og hafði það nokkuð gott. En Jörgensen var haldinn slíkri spilafíkn, að í stað þess að greiða skuldir sínar og kaupa sig þannig lausan, spilaði hann öllu fé frá sér hvað eftir annað.
Njósnari Breta
[breyta | breyta frumkóða]Fyrir tilviljanir og heppni tókst honum að ná eyrum valdamanna, sem urðu honum hjálplegir á æðstu stöðum. Honum var falið að gerast njósnari fyrir Breta á meginlandi Evrópu. Hafði hann nú fullar hendur fjár og allar skuldir hans voru greiddar fyrir hann. Hann lagðist beint í sukkið aftur og sinnti ekki störfum sínum á meðan utanríkisráðuneytið hélt að hann væri að njósna í Evrópu. Það var ekki fyrr en á miðju ári 1815, sem hann fór til að sinna þeim störfum. Þá voru Napóleonsstríðin í fullum gangi og hann reyndi að ná sambandi við Wellington hershöfðingja, sem hann hafði kynnst áður, en það tókst ekki. Hann var félaus í Frakklandi, en átti að vera í Þýskalandi og þar biðu laun hans. Þangað komst hann með því að ljúga sér út fé hvar sem hann fór. Í Berlín lifði hann hátt og tókst að komast í mjúkinn hjá aðlinum. Þaðan fór hann til Dresden og lenti þar enn á ný í spilasolli og að lokum flúði hann skuldir sínar fótgangandi og komst til Hamborgar. Bretar voru ánægðir með upplýsingar hans og borguðu honum vel fyrir njósnirnar. Þessu fór fram til 1817, en þá fór hann aftur til London. Hann skrifaði ritgerðir um vörusmygl og um skattsvik og fékk vel greitt fyrir þær frá utanríkisráðuneytinu. Hann lét gefa út ferðabók sína, sem þótti léleg.
Newgatefangelsi
[breyta | breyta frumkóða]Aldrei gat hann haldið sér frá spilum og nú lenti hann í fangelsi vegna skulda fyrir alvöru. Hann var settur í Newgatefangelsið, sem veitti honum ekkert frelsi eins og hann hafði notið í hinu fyrra. Hann komst í starf á sjúkradeild fangelsisins og stóð sig vel þar. Þarna var hann í nokkur ár, en 1821 í nóvember var hann látinn laus með því skilyrði að hann yfirgæfi Bretland áður en mánuður væri liðinn. Að sjálfsögðu stóð hann ekki við það og breytti í engu lifnaðarháttum sínum. Svo að hann lenti aftur í Newgate í október 1822.
Ástralía
[breyta | breyta frumkóða]Í árslok 1825 var Jörgensen fluttur um borð í fangaskip og var áfangastaður Nýja Suður-Wales. En hann fékk því framgengt að hann var fluttur um borð í annað skip, sem fór til Van Diemenslands (Tasmaníu). Það skip hét Woodman. Á leiðinni var hann aðstoðarmaður skipslæknisins og stundaði jafnframt njósnir fyrir skipstjórann.
Þegar til Hobart kom þótti honum mikið til um þá breytingu, sem orðin var frá því hann var þar við rannsóknir í óbyggðum aldarfjórðungi fyrr. Nú var þarna 8000 manna bær. Hann fékk meðmæli frá skipstjóranum til landsstjórans og var vægt tekið á honum. Honum tókst að vinna sig upp í Hobart og fékk stöðu sem eftirlitsmaður með hinum föngunum. Síðar varð hann lögregluþjónn í Hobart og giftist þar. Kona hans var írsk og hét Nora Corbett. Að sjálfsögðu var hún fangi eins og hann. Þau giftu sig í janúar 1831. Það var víst ekki hamingjuríkt hjónaband. Hann sagði af sér lögregluþjónsstöðunni og þau fóru bæði að lifa í slarki og drykkjuskap. Jörgensen vann við skriftir og liggur ýmislegt eftir hann frá þessum tíma. Þau bjuggu í húsi númer 4 við Watchorn stræti.
Jörgensen var greiddur út 200 punda arfur frá Kaupmannahöfn (líklega eftir föður hans). Einhvern tíma um 1835 fór hann fram á að vera náðaður og var það veitt, þó með því skilyrði, að hann kæmi aldrei aftur til Bretlands. En hann mátti fara hvert annað sem honum sýndist og var frjáls eftir það. Hann fór þó hvergi. Kona hans dó 17. júlí 1840 og hann lifði áfram sama slarklifnaði og fyrr. Hann dó í Hobart 20. janúar 1841 á 61. aldursári. Sagt er að hann eigi afkomendur í Ástralíu.
Jörundur var grafinn við hlið Nóru konu sinnar i grafreit kaþólikka í Hobart. Árið 1911 var kirkjugarðurinn aflagður og reistur heimavistarskóli yfir grafstæðin. Þá voru þau bein sem lágu ómerkt í garðunum grafin upp, sett í kassa og jarðsett að nýju við hlið skólahússins. Þar er því að líkindum að finna jarðneskar leyfar Jörundar undir litlum minningarsteini. Síðar var gert bílastæði kennara á þessum stað og stendur steinninn í útjarðri þess. Á honum er að finna eftirfarandi áletrun: "In our labour rest most sweet/Grateful coolness in your heat./Solace found in your mind. - Here lie the remains of unknown Tasmanian Catholics (1825-1870)"
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Enginn ræður för, reisubók úr neðra eftir Runólf Ágústsson, Veröld, Reykjavík 2009.
- Jörundur hundadagakongur eftir Rhys Davies (Rvk. 1943)
- Íslandskóngur (sjálfsævisaga), R. 1974
- Saga Jörundar hundadagakóngs eftir Jón Þorkelsson, Kaupmannahöfn 1892
- Sjálfstæði Íslands 1809 eftir Helga P. Briem, Hið Íslenzka þjóðvinafélag Reykjavík 1936.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Kvonfang og ævilok Jörundar hundadagakonungs; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1954
- Grafstæði Jörundar?
- Aðkomumaður í Íslandssögunni, Andvari, 1. tölublað (01.01.2010)