Giuseppe Conte
Giuseppe Conte | |
---|---|
Forsætisráðherra Ítalíu | |
Í embætti 1. júní 2018 – 13. febrúar 2021 | |
Forseti | Sergio Mattarella |
Forveri | Paolo Gentiloni |
Eftirmaður | Mario Draghi |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. ágúst 1964 Volturara Appula, Ítalíu |
Þjóðerni | Ítalskur |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn (2018-2021) Fimmstjörnuhreyfingin (2021–) |
Maki | Valentina Fico (skilin); Olivia Paladino |
Börn | 1 |
Háskóli | Sapienza-háskólinn |
Starf | Lögfræðiprófessor, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Giuseppe Conte (f. 8. ágúst 1964) er ítalskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem er 58. og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Hann tók við embætti þann 1. júní 2018.[1]
Conte starfaði sem prófessor í einkarétti áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann var lítið þekktur þar til 21. maí 2018 en þá var stungið upp á honum sem forsætisráðherraefni samsteypustjórnar Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðursambandsins.[2] Í fyrstu neitaði Sergio Mattarella forseti Ítalíu að staðfesta þessa ríkisstjórn þar sem hann kunni ekki við val þeirra á evruandstæðingnum Paolo Savona sem fjármálaráðherra[3] Þann 31. maí var leyst úr ágreiningnum og Giovanni Tria var gerður að fjármálaráðherra. Conte sór embættiseið sem forsætisráðherra næsta dag.[4]
Ýmsir fjölmiðlar líta á ríkisstjórn Conte sem fyrstu popúlísku ríkisstjórn í Vestur-Evrópu.[5][6][7] Conte er annar maðurinn sem hefur gerst forsætisráðherra Ítalíu án fyrri reynslu í ríkisstjórnarstörfum á eftir Silvio Berlusconi. Hann er jafnframt fyrsti forsætisráðherrann frá Suður-Ítalíu síðan Ciriaco De Mita var ráðherra árið 1989.[8][9]
Þar sem Conte er ekki hátt settur í stjórnmálaflokkunum sem mynduðu ríkisstjórn hans voru persónuleg völd hans sem forsætisráðherra í fyrstu ríkisstjórn hans nokkuð takmörkuð. Formenn Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðursambandsins, Luigi Di Maio og Matteo Salvini, voru hver um sig ráðherra fjárhagsþróunar og innanríkisráðherra í ríkisstjórninni. Auk þess voru Di Maio og Salvini báðir varaforsætisráðherrar.
Þann 20. ágúst árið 2019 lýsti Conte því yfir að hann hygðist segja af sér sem forsætisráðherra.[10] Afsögn Conte kom í kjölfar þess að Salvini dró Norðursambandið úr ríkisstjórnarsamstarfinu með Fimmstjörnuhreyfingunni. Conte sakaði Salvini um að skapa stjórnarkreppu í eigin þágu til þess að reyna að auka fylgi flokks síns í nýjum kosningum.[11] Í stað þess að boða til nýrra kosninga ákváðu meðlimir Fimmstjörnuhreyfingarinnar hins vegar að mynda nýja ríkisstjórn í samstarfi við ítalska Lýðræðisflokkinn og settu það skilyrði að Conte, sem nýtur mikilla vinsælda meðal meðlima hreyfingarinnar, sæti áfram sem forsætisráðherra.[12][13]
Conte sagði aftur af sér þann 25. janúar árið 2021. Italia Viva, klofningsflokkur fyrrum forsætisráðherrans Matteo Renzi úr Lýðræðisflokknum, hafði dregið stuðning sinn við stjórn Conte til baka. Conte hafði náð áframhaldandi meirihluta á neðri deild ítalska þingsins en ekki á öldungadeildinni.[14] Eftir afsögn Conte var Mario Draghi, fyrrum seðlabankastjóra Evrópu, boðið að mynda þjóðstjórn til að ljúka kjörtímabilinu.[15]
Í ágúst 2021 var Conte formlega kjörinn forseti Fimmstjörnuhreyfingarinnar. Hann hafði haft náin tengsl við flokkinn en hafði þó verið óflokksbundinn á meðan hann var forsætisráðherra.[16]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ "Raggiunto l'accordo per un governo M5S-Lega con Conte premier"
- ↑ „Novice to lead Italian populist cabinet“. 23. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018 – gegnum bbc.com.
- ↑ „Italian president faces impeachment call“. 28. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018 – gegnum www.bbc.com.
- ↑ „Giuramento governo: alle 16 Conte e i ministri al Quirinale“. Sótt 13. júlí 2018.
- ↑ „"Italia primo governo populista in Europa occidentale"“. adnkronos.com. Sótt 13. júlí 2018.
- ↑ „Giuseppe Conte: Italy's next PM to form western Europe's first populist government“. Sótt 13. júlí 2018.
- ↑ „Opinion – The Populists Take Rome“. 24. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018 – gegnum NYTimes.com.
- ↑ „Da Renzi a Conte: ecco chi sono i presidenti del Consiglio non eletti in parlamento“. 25. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018.
- ↑ „Da De Mita a Conte, l'incarico torna a sud di Roma dopo trent'anni“. Sótt 13. júlí 2018.
- ↑ „Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér“. mbl.is. 20. ágúst 2019. Sótt 20. ágúst 2019.
- ↑ Margrét Helga Erlingsdóttir (20. ágúst 2019). „Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér“. Vísir. Sótt 20. ágúst 2019.
- ↑ „Ný ríkisstjórn komin á koppinn á Ítalíu“. Vísir. 3. september 2019. Sótt 3. september 2019.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (29. ágúst 2019). „Conte með umboð til stjórnarmyndunar“. RÚV. Sótt 3. september 2019.
- ↑ Sunna Valgerðardóttir (25. janúar 2021). „Forsætisráðherra Ítalíu hættir á morgun“. RÚV. Sótt 25. janúar 2021.
- ↑ „Draghi verður forsætisráðherra Ítalíu“. mbl.is. 12. febrúar 2021. Sótt 13. febrúar 2021.
- ↑ M5S, Conte eletto presidente col 93% di sì: "Ce la metterò tutta per non deludervi". Con lui 5 vice. Ecco chi ci sarà nella sua squadra al comando, la Repubblica
Fyrirrennari: Paolo Gentiloni |
|
Eftirmaður: Mario Draghi |