Þátttaka Fram í Evrópukeppnum í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Knattspyrnufélagið Fram hefur nítján sinnum verið meðal fulltrúa Íslands í Evrópukeppnum karla í knattspyrnu. Fyrst árið 1971 en síðast árið 2014. Árin 1985, 1990 og 2008 fór félagið upp úr fyrstu umferð. Framarar urðu fyrsta íslenska liðið til að vinna leik í Evrópukeppni.

Yfirlit[breyta | breyta frumkóða]

1969[breyta | breyta frumkóða]

Íslendingar sendu í fyrsta sinn lið til Evrópukeppni félagsliða árið 1969. Framarar höfðu hafnað í öðru sæti Íslandsmótsins 1968 og hefðu því undir eðlilegum kringumstæðum átt að hljóta sætið. KSÍ ákvað hins vegar að sætið skyldi fara í hlut sigurvegara Reykjavíkurmótsins sama ár. Hlutu Valsmenn því keppnisréttinn og var það í eina skiptið sem sú regla var viðhöfð.

1971[breyta | breyta frumkóða]

Framarar hófu Evrópusögu sína með þátttöku í Evrópukeppni bikarhafa haustið 1971. Þeir voru eitt fjögurra liða sem dregin voru til að hefja leik í hálfgerðri forkeppni fyrir fyrstu umferðina og mættu Hibernians frá Möltu. Báðir leikirnir fóru fram á Möltu. Hibernians sigraði 3:0 í fyrri leiknum í steikjandi hita, en Framarar höfðu betur í seinni leiknum og sigruðu 2:0 með tveimur mörkum Erlends Magnússonar. Var þetta fyrsti sigur íslensks liðs í Evrópukeppni.

1973[breyta | breyta frumkóða]

Framarar tóku í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppni meistaraliða og mættu svissnesku meisturunum í Basel. Báðir leikir fóru fram í Sviss og lyktaði 5:0 og 6:2 fyrir Basel, þar sem Ásgeir Elíasson og Jón Pétursson skoruðu mörk Fram. Lið Basel var afar sterkt um þessar mundir og komst í fjórðungsúrslit, sem enn í dag er besti árangur liðsins í keppninni. Meðal leikmanna þess var Perúmaðurinn kunni Teófilo Cubillas, sem kjörinn var besti leikmaður Suður-Ameríku árið 1972.

1974[breyta | breyta frumkóða]

Framarar duttu í lukkupottinn þegar dregið var í fyrstu umferð Evrópukeppni bikarhafa haustið 1974. Andstæðingarnir voru spænska stórliðið Real Madrid. Í liði Spánverjanna voru tveir leikmenn vestur-þýska landsliðsins sem sigrað hafði á Heimsmeistaramótinu fáeinum vikum fyrr, Paul Breitner og Günter Netzer. Búist var við að áhorfendamet gæti fallið í leiknum á Laugardalsvelli, en vegna slæms veðurs mættu ekki nema um 8.000 áhorfendur. Real Madrid sigraði 2:0 í Reykjavík og 6:0 ytra.

1976[breyta | breyta frumkóða]

Fram dróst gegn Austur-evrópsku liði í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða árið 1976. Andstæðingurinn var Slovan Bratislava sem hafði á að skipa sjö leikmönnum úr sigurliði Tékka í Evrópukeppninni 1976, þar á meðal Anton Ondrus og Jan Pivarnik sem báðir voru i úrvalsliði Evrópumótsins. Viðureigning í Reykavík fór 3:0 en 5:0 ytra.

1977[breyta | breyta frumkóða]

Sigurlíkur Framara í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða árið 1977 voru taldar nokkuð góðar, þegar liðið dróst á móti Start frá Noregi. Framarar sáu hins vegar aldrei til sólar í leikjunum tveimur og töpuðu fyrst 6:0 í Kristiansand og svo 2:0 á heimavelli.

1980[breyta | breyta frumkóða]

Fram mætti Hvidovre frá Danmörku í Evrópukeppni bikarhafa haustið 1980. Liðið náði góðum árangri á útivelli og tapaði bara 1:0. Sigurlíkurnar voru því taldar ágætar þegar á Laugardalsvöllinn var komið, en þar sigruðu gestirnir 2:0.

1981[breyta | breyta frumkóða]

Mótherjar Fram í Evrópukeppni bikarhafa haustið 1980 voru Dunkalk frá Írlandi. 2:1 sigur Fram á heimavelli með mörkum Guðmundar Steinssonar og Guðmundar Torfasonar var sá fyrsti í mörgum tilraunum, en hrökk þó skammt. Írarnir sigruðu 4:0 á heimavelli og komust í næstu umferð þar sem mótherjarnir voru Tottenham Hotspur.

1982[breyta | breyta frumkóða]

Fram tók þátt í Evrópukeppni félagsliða haustið 1982. Mótherjarnir voru Shamrock Rovers frá Norður-Írlandi. Frammistaða Framliðsins olli verulegum vonbrigðum og tapaði það 3:0 á heimavelli og 4:0 ytra.

1985[breyta | breyta frumkóða]

Í fyrstu umferð í Evrópukeppni bikarhafa dróst Fram á móti Glentoran frá Norður-Írland. Fyrri leikurinn fór fram í Reykjavík þar sem gestirnir komust yfir eftir einungis tveggja mínútna leik. Eftir það tóku Framarar öll völd á vellinum og unnu að lokum 3:1 sigur. Seinni leikurinn fór fram í Belfast og tók það norður-írska liðið 80 mínútur að brjóta vörn Framara. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Fram komst í aðra umferð í Evrópukeppni í fyrsta sinn.

Rapid Wien var mótherji Framara í næstu umferð, en lið þeirra hafði þá um vorið komist alla leið í úrslit sömu keppni. Austurríkismennirnir fóru langleiðina með að tryggja sér sigurinn í einvíginu með 3:0 sigri á heimavelli. Seinni leikurinn fór fram í brunagaddi á Laugardalsvelli þann 6. nóvember við afleitar aðstæður. Framarar unnu 2:1 með mörkum Kristins R. Jónssonar og Guðmundar Torfasonar. Var þetta fyrsti sigur íslensks liðs í annarri umferð í Evrópukeppni.

1986[breyta | breyta frumkóða]

Valsmenn og Skagamenn fengu ósigrandi mótherja í fyrstu umferðum Evrópumótanna þetta árið, en Framarar töldust nokkuð heppnir með mótherja, pólska liðið GKS Katowice í Evrópukeppni bikarhafa, sem ekki hafði komist í Evrópukeppni í rúm 15 ár. Fyrri leikurinn fór fram á Laugardalsvelli þremar sólarhringum eftir að Framliðið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil um langt árabil. Gestirnir nýttu sér spennufallið og unnu 0:3 sigur sem hefði gerað orðið enn stærri. Seinni leiknum lauk með 1:0 sigri Pólverjanna.

1987[breyta | breyta frumkóða]

Hið sigursæla tékkneska lið Sparta Prag var mótherji Framara í Evrópukeppni meistaraliða og reyndist alltof stór biti. Tékkarnir sigruðu í fyrri leiknum á Íslandi 0:2, þar sem Tomáš Skuhravý var annar markaskorara. Á heimavelli héldu Spartverjum engin bönd og unnu þeir 8:0. Er það stærsti ósigur Fram í Evrópuleik og annar tveggja stærstu sigra Spörtu á sama vettvangi.

1988[breyta | breyta frumkóða]

Knattspyrnuáhugamenn í Reykjavík kættust þegar stórliðin Monaco frá Frakklandi og FC Barcelona frá Spáni léku á Laugardalsvelli með dagsmillibili, annað gegn Val en hitt gegn Fram. Barcelona var miklu sterkara á öllum sviðum á móti Frömurum í Evrópukeppni bikarhafa og sigraði 0:2 í fyrri leiknum en 5:0 ytra. Barcelona fór að lokum með sigur af hólmi í keppninni.

1989[breyta | breyta frumkóða]

Fjórða árið í röð luku Framarar keppni í Evrópu án þess að skora mark, eftir að hafa tapað tveimur leikjum sínum gegn Steauafrá Búkarest í Evrópukeppni meistaraliða. Fyrri leiknum ytra lauk með 4:0 sigri heimamanna og Rúmenarnir unnu svo 0:1 í Reykjavík. Innan við 600 áhorfendur mættu á leikinn í Laugardal, sem þótti slakt í ljósi þess að Steaua hafði orðið Evrópumeistari fáeinum misserum fyrr og komst alla leið í úrslitaleikinn þessa sömu leiktíð.

1990[breyta | breyta frumkóða]

Framarar náðu líklega sínum besta árangri í Evrópu fyrr og síðar í Evrópukeppni bikarhafa. Andstæðingarnir í fyrstu umferð voru sænska liðið Djurgårdens IF. Fyrri leikurinn fór fram í Reykjavík og var bragðdaufur framan af. Í síðari hálfleik skoraði Jón Erling Ragnarsson tvívegis og Pétur Arnþórsson einu sinni og Framarar héldu með góða 3:0 forystu til Stokkhólms. Pétur Ormslev kom Frömurum yfir seinni leiknum en gestirnir jöfnuðu undir lokin, 1:1. Fram komst áfram, en varð þó fyrir því áfalli að missa þá Pétur Ormslev og Viðar Þorkelsson í leikbann.

Andstæðingar Fram í annarri umferð var FC Barcelona í annað sinn á þremur árum. Heimsókn katalónska liðsins vakti enn meiri athygli en í fyrra skiptið, enda lið þess talið sterkara undir stjórn hollendingsins Johan Cruyff. Michael Laudrup kom gestunum yfir en Ríkharður Daðason jafnaði metin. undin lokinn skoraði búlgarski framherjinn Hristo Stoichkov sigurmark Barcelona, 1:2. Leikið var í lok október, en veður var með besta móti og hiti um tíu stig. Ekki sóttu Framarar gull í greipar andstæðinga sinna á Camp Nou í seinni leiknum. Stórleikur Birkis Kristinssonar gerði það að verkum að Fram slapp með 3:0 tap. Barcelona hafnaði í öðru sæti í keppninni eftir tap fyrir Manchester United í úrslitaleik.

1991[breyta | breyta frumkóða]

Gríska liðið Panathinaikos mætti Frömurum í fyrstu umferð Evrópukeppni meistaraliða og reyndist það hörkueinvígi. Grikkirnir komust yfir á Laugardalsvelli en Jón Erling Ragnarsson og Pétur Arnþórsson svöruðu með tveimur mörkum. Fimmtán mínútum síðar jafnaði Panathinaikos, 2:2 og þar við sat. Mikil spenna var í seinni leiknum í Aþenu, en eftir færi á báða bóga lauk viðureigninni með markalausu jafntefli. Heimamenn komust því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

1992[breyta | breyta frumkóða]

Fram sótti ekki gull í greipar þýska liðsins Kaiserslautern í Evrópukeppni félagsliða. Þjóðverjarnir unnu 3:0 á heimavelli en 0:4 í Reykjavík.

2009[breyta | breyta frumkóða]

Eftir langt hlé frá Evrópukeppnum tóku Framarar þátt í Evrópudeild UEFA. Sú breyting hafði orðið á keppnisfyrirkomulaginu að leikin var forkeppni og byrjaði Fram í fyrstu umferð hennar á móti TNS frá Wales. TNS náði forystunni á Laugardalsvelli en Sam Tillen og Heiaðr Geir Júíusson tryggðu Fram 2:1 sigur, hvor með sínu markinu. Útileikurinn þróaðist með nákvæmlega sama hætti. Walesverjarnir komust yfir en þeir Almarr Ormarsson og Sam Tillen skoruðu báðir.

Framara beið erfitt verkefni í annarri umferð forkeppninnar, þar sem mótherjarnir voru Sigma Olomouc frá Tékklandi. Fyrri leikurinn fór fram ytra, þar sem Framarar komu mjög á óvart. Liðið náði forystunni með marki Jóns Guðna Fjólusonar um miðjan fyrri hálfleik og varðist kröftuglega upp frá því. Mínútu fyrir lok venjulegs leiktíma náðu heimamenn þó að jafna, 1:1. Markalaust var í leikhléi í seinni viðureigninni sem fram fór á Laugardalsvelli. Tvö mörk Tékkanna í byrjun síðari hálfleiks gerðu þó draum Framara um að komast lengra í keppninni að engu. Lokatölur 0:2. Sigma Olomouc mætti skoska liðinu Aberdeen í næstu umferð og sigraði samtals með átta mörkum gegn einu.

2014[breyta | breyta frumkóða]

Framarar tóku þátt í Evrópudeild UEFA sem bikarmeistarar. Mótherjarnir voru Nömme Kalju frá Eistlandi. Tap á heimavelli í fyrri leiknum, 0:1, reyndist dýrkeypt. Ytra fóru leikar 2:2, þar sem Framarar jöfnuðu í tvígang með mörgum Einars Bjarna Ómarssonar og Tryggva Sveins Bjarnasonar. Litlu mátti muna að Framarar stælu sigrinum í lokin, en allt kom fyrir ekki.

Markahæstu leikmenn[breyta | breyta frumkóða]

Jón Erling Ragnarsson er markahæstur Framara í Evrópukeppnum með þrjú mörk. Þeir Erlendur Magnússon, Guðmundur Torfason, Ómar Torfason, Pétur Arnþórsson og Sam Tillen hafa skorað tvö mörk hver. Tólf Framarar til viðbótar hafa skorað hver sitt markið.