Panathinaikos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Panathinaikos eða Panathinaikos Athlitikos Omilos er grískt knattspyrnufélag frá Aþenu. Félagið er það næstsigursælasta í grísku knattspyrnunni og hefur náð bestum árangri grískra félagsliða á alþjóðavettvangi.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Panathinaikos var stofnað árið 1908 þegar hópur knattspyrnumanna gekk úr íþróttafélaginu Panellinios G.S., einu elsta íþróttafélagi Grikklands, til að mótmæla þeirri ákvörðun þess að leggja niður knattspyrnuæfingar.

Hið nýja félag skipti nokkrum sinnum um nafn, en tók upp heitið Panathinaikos árið 1924. Áður hafði það tekið upp merki sitt, mynd af grænum þriggja laufa smára, fyrir tilstuðlan ensks þjálfara sem kom félaginu í fremstu röð á öðrum áratugnum.

Keppni um Grikklandsmeistaratitilinn hófst árið 1927. Panathinkaikos fór með sigur af hólmi árið 1930, en síðan ekki aftur fyrr en árið 1960. Þá rann upp gullöld félagsins sem varð átta sinnum Grikklandsmeistari á árunum 1960-72. Undir lok þessa tímabils var liðið undir stjórn hinnar kunnu ungversku knattspyrnukempu Ferenc Puskás, en undir hans stjórn komst Panathinaikos alla leið í úrslit Evrópukeppni meistaraliða, þar sem það tapaði 2:0 gegn Ajax á Wembley.

Á seinni hluta níunda áratugarins hófst nýtt blómaskeið hjá Panathinaikos. Liðið varð fjórum sinnum grískur meistari frá 1990 til 1996. Síðastnefnda árið komst liðið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, en tapaði fyrir Ajax.

Panathinaikos varð síðast grískur meistari árið 2010. Það var tuttugasti meistaratitill liðsins, Erkifjendur liðsins, Olympiacos, geta þó státað af nærri tvöfalt fleiri titlum.

Tengsl við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Panathinaikos mætti Frömurum í fyrstu umferð Evrópukeppni meistaraliða árið 1991, eftir tvö jafntefli.

Íslenski landsliðsmaðurinn Helgi Sigurðsson lék með Panathinaikos á árunum 1999-2001. Hann lék 32 leiki með aðalliðinu og skoraði í þeim tíu mörk.

Hörður Björgvin Magnússon gerði samning við félagið sumarið 2022.