Guðmundur Torfason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Halldór Torfason (f. 13. desember 1961 í Vestmannaeyjum) er íslenskur fyrrum knattspyrnumaður og þjálfari. Hann er sonur frjálsíþróttakappans Torfa Bryngeirssonar og hóf íþróttaiðkun ungur að árum. Hann þótti jafnframt efnilegur tónlistarmaður og var ásamt Ellen Kristjánsdóttur söngari í hljómsveitinni Norðurljósum sem var að öðru leyti skipuð meðlimum í Mezzoforte.[1]

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Guðmundur lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Fram sumarið 1979 og skoraði sitt fyrsta mark í upphafsleik mótsins gegn Víkingum. Hann var lykilmaður í Framliðinu næstu árin og varð til að mynda markakóngur í 2.deild sumarið 1983 með ellefu mörk. Árið 1985 varð hann bikarmeistari með Framliðinu og Íslandsmeistari árið eftir. Guðmundur skoraði 19 mörk í fyrstu deild sumarið 1986 og jafnaði þar með markamet Péturs Péturssonar sem enn stendur.

Haustið 1986 gekk Guðmundur til liðs við belgíska félagið Beveren sem atvinnumaður. Hann færði sig síðar um set til Winterslag í sama landi, sem síðar sameinaðist öðru félagi í Racing Genk og skoraði Guðmundur fyrsta deildarmarkið í sögu þess félags á móti KV Mechelen. Frá Belgíu lá leið hans til Rapid Vín í Austurríki árið 1988, en Guðmundur hafði einmitt skorað sigurmark Fram gegn liði Rapid í Evrópuleik nokkrum árum fyrr.

Frá Vínarborg lá leiðin til St. Mirren í Skotlandi, þar sem hann varð markakóngur félagsins þrjú ár í röð. Guðmundur var í herbúðum St. Johnstone 1992-94 og lék því næst fáeina leiki fyrir Doncaster Rovers í ensku deildinni. Þrálát meiðsli bundu þó enda á atvinnuferilinn. Sumarið 1995 lék Guðmundur með Fylkismönnum í næstefstu deild og tók árið eftir við stjórn Grindavíkur sem spilandi þjálfari. Hann lagði skóna á hilluna í lok leiktíðarinnar 1996.

Guðmundur stýrði liði Grindavíkur næstu tvö árin. Sumarið 2000 stýrði hann Frömurum í efstu deild og árin 2001 og 2002 þjálfaði hann ÍR-inga í næstefstu deild.

Guðmundur Torfason lék 26 A-landsleiki á árunum 1985-91 og skoraði fjögur mörk.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Helgarpósturinn 28. mars 1985“.