Fara í innihald

Jón Arnór Stefánsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jón Arnór Stefánsson
Upplýsingar
Fæðingardagur 21. september 1982 (1982-09-21) (41 árs)
Fæðingarstaður    Skövde, Svíþjóð
Hæð 1.96m
Þyngd 92 kg
Leikstaða Bakvörður
Núverandi lið
Núverandi lið Valur
Númer 9
Meistaraflokksferill1
Ár Lið
2000–2002
2002–2003
2004–2005
2005–2006
2006–2007
2007–2008
2008–2009
2009
2009–2011
2011–2014
2014–2015
2015–2016
2016-2020
2020-
KR
TBB Trier
Dynamo Saint Petersburg
Carpisa Napoli
Pamesa Valencia
Lottomatica Roma
KR
Benetton Treviso
CB Granada
CAI Zaragoza
Unicaja
Valencia Basket
KR
Valur
Landsliðsferill2
Ár Lið Leikir
2001-2002
2000-
Ísland U21
Ísland
9
91

1 Meistaraflokksferill
síðast uppfærður 25. ágúst 2017.
2 Landsliðsleikir uppfærðir
25. ágúst 2017.

Jón Stefánsson 2007

Jón Arnór Stefánsson (fæddur 21. september 1982 í Skövde í Svíþjóð) er íslenskur körfuknattleiksmaður sem leikur með Val[1] í úrvalsdeild karla í körfuknattleik.

Ferill Jóns Arnórs[breyta | breyta frumkóða]

Yngri flokkar[breyta | breyta frumkóða]

Jón Arnór lék alla yngri flokka með KR áður en hann fór í "high school" í Bandaríkjunum. Skólinn sem hann var í úti fór hins vegar ekki alveg eftir settum reglum og því þurfti Jón Arnór að yfirgefa skólann fyrr en til stóð.

1999-2000: Íslandsmeistari[breyta | breyta frumkóða]

Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum lék Jón Arnór með KR í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik vorið 2000, og átti drjúgan þátt í að liðið varð Íslandsmeistari það ár. Hann skoraði átta stig að meðaltali á 17,4 mínútum í leik, aðeins sautján ára gamall.

2000-2001: Besti nýliðinn[breyta | breyta frumkóða]

Þetta var fyrsta tímabil Jóns Arnórs í úrvalsdeild, en þá lék hann 30,2 mínútur að meðaltali í leik, skoraði 16,8 stig, tók 3,2 fráköst, gaf 3,6 stoðsendingar og stal boltanum 2,1 sinni í þeim 20 leikjum sem hann lék. Hann var í kjölfarið valinn besti nýliði úrvalsdeildar það árið.

2001-2002: Besti leikmaðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Jón Arnór bætti um betur á þessari leiktíð, lék 34,5 mínútur að meðaltali, skoraði 20,7 stig, gaf 4,8 stoðsendingar, tók 6,1 frákast, var með 2,6 stolna bolta og 1,25 varið skot í 20 leikjum. Að auki var hann með 40% þriggja stiga nýtingu. Þetta dugði til að hann var valinn besti leikmaður deildarinnar.

2002-2003: Atvinnumaður í Þýskalandi[breyta | breyta frumkóða]

Nú tók atvinnumennskan við. Jón Arnór gekk til liðs við þýska úrvalsdeildarliðið Trier. Þar lék hann 24 deildarleiki og skoraði 13,5 stig að meðaltali á 29,7 mínútum. Hann var einnig með 2,9 fráköst, 2,8 stoðsendingar og 1,4 stolna bolta.

2003-2004: NBA[breyta | breyta frumkóða]

Jón Arnór söðlaði heldur betur um sumarið 2003 og samdi við NBA liðið Dallas Mavericks. Þar með var hann annar Íslendingurinn, á eftir Pétri Guðmundssyni, til að komast á mála hjá NBA liði. Þrátt fyrir að hafa, að margra mati, staðið sig vel á undirbúningstímabilinu fékk Jón Arnór aldrei að spreyta sig í deildarleik. Hann lék þó í nokkrum sumarmótum sumarið 2004, en ákvað í samráði við stjórnendur félagsins að framlengja ekki samninginn að svo stöddu.

2004-2005: Rússland og Evrópukeppnin[breyta | breyta frumkóða]

Það voru nokkur vonbrigði fyrir Jón að fá ekki að spila í NBA deildinni, og hann ákvað því að semja við rússneska liðið Dynamo St. Peterburg. Jón Arnór var valinn í byrjunarlið Evrópuúrvalsins í stjörnuleik FIBA Europe, þar sem hann skoraði 10 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu á 21 mínútu. Hann lék stórt hlutverk undir lok leiksins, en lið hans tapaði þó fyrir Heimsúrvalinu 102-106.

Lið Jóns Arnórs tók þátt í FIBA Europe League og þann 28. apríl 2005 varð Jón fyrsti íslenski körfuknattleiksmaðurinn til að verða Evrópumeistari með liði sínu, þegar Dynamo St. Peterburg vann BC Kyiv 85-74. Jón Arnór lék í 29 mínútur og skoraði níu stig. Í undanúrslitaleiknum gegn BC Khimki skoraði hann 14 stig og tók fjögur fráköst á 35 mínútum. Dynamo vann alla leiki sína í Evrópukeppninni.

2005-2006: Ítalía[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2005 samdi Jón Arnór við ítalska félagið Carpisa Napoli. Áður höfðu lið á Spáni og í Bandaríkjunum sýnt honum áhuga. Napoli varð bikarmeistari þann 19. febrúar eftir sigur á Lottomatica Roma í framlengdum úrslitaleik, 85-83. Jón Arnór lék 35 mínútur í leiknum, skoraði níu stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Liðið komst í undanúrslit um ítalska meistaratitilinn og tapaði þar fyrir ClimaMio Bologna í fimm leikjum; 3-2.

2006-2007: Spánn[breyta | breyta frumkóða]

Í júlíbyrjun 2006 skrifaði Jón Arnór undir þriggja ára samning við spænska félagið Pamesa Valencia. Um haustið meiddist hann á ökkla í landsleik gegn Lúxemborg og í kjölfarið meiddist hann á læri. Hann lék tiltölulega lítið með liðinu og skildu leiðir í febrúar 2007.

2006-2007: ...og Ítalía aftur[breyta | breyta frumkóða]

Þann 12. febrúar 2007 samdi Jón Arnór við ítalska liðið Lottomatica Roma til loka tímabilsins 2008. Vistaskiptin tóku þegar gildi og hélt Jón Arnór til Ítalíu daginn eftir að samningurinn var undirritaður.

Fjölskyldan[breyta | breyta frumkóða]

Jón Arnór er einn fimm systkina sem eru öll íþróttamenn. Elst er Íris Birgis Stefánsdóttir. Elsti bróðir Jóns er Ólafur Stefánsson, landsliðsfyrirliði í handbolta til margra ára, næstur í röðinni er Eggert Stefánsson, knattspyrnumaður, næstyngst systkinanna er Stefanía Stefánsdóttir, tennisleikari, og yngstur er Jón Arnór.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Jón Arnór genginn til liðs við Val“. RÚV. 5. ágúst 2020. Sótt 4. febrúar 2021.