Fara í innihald

Philippe Pétain

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Henri Philippe Pétain)
Philippe Pétain
Áróðursmynd af Pétain frá árinu 1941.
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
16. júní 1940 – 17. apríl 1942
ForsetiAlbert Lebrun (1940)
ForveriPaul Reynaud
EftirmaðurPierre Laval
Þjóðhöfðingi franska ríkisins
Í embætti
11. júlí 1940 – 20. ágúst 1944
ForsætisráðherraPierre Laval
ForveriAlbert Lebrun
(sem forseti Frakklands)
EftirmaðurCharles de Gaulle
(sem forseti bráðabirgðastjórnar)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. apríl 1856
Cauchy-à-la-Tour, Pas-de-Calais, franska keisaraveldinu
Látinn23. júlí 1951 (95 ára) Île d'Yeu, Frakklandi
ÞjóðerniFranskur
MakiEugénie Hardon Pétain (g. 1920)
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Henri Philippe Benoni Omer Joseph Pétain (24. apríl 1856 – 23. júlí 1951), yfirleitt kallaður Philippe Pétain eða Pétain marskálkur, var franskur herforingi og stjórnmálamaður.

Pétain var einn helsti hernaðarleiðtogi Frakka í fyrri heimsstyrjöldinni og er honum yfirleitt eignaður sigur Frakka í orrustunni við Verdun. Ásamt Georges Clemenceau var hann einn ástsælasti leiðtogi Frakka í stríðinu og tókst einna best að stappa stálinu í hermennina eftir uppreisn franska hersins árið 1917. Það ár var Pétain gerður að yfirhershöfðingja franska heraflans og gegndi þeirri stöðu til stríðsloka, en þurfti þó að hlýða stefnu yfirstjórnar bandamannahersins, sem var undir stjórn keppinautar hans, Ferdinands Foch. Pétain var gerður marskálkur Frakklands árið 1918.

Árið 1925 varð Pétain herforingi Frakka í stríðinu við Rif í Marokkó ásamt Spánverjum. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Pétain einn virtasti stjórnmálamaður í Frakklandi og gegndi embætti hermálaráðherra frá árinu 1934 auk þess sem hann var gerður sendiherra til Spánar eftir valdatöku Francisco Franco árið 1939.

Pétain var kallaður til stjórnarstarfa á ný þann 17. maí 1940 við innrás Þjóðverja í Frakkland. Hann mótmælti því að Frakkar berðust áfram þar sem hann taldi stríðinu tapað, og kenndi lýðræðisstjórn Frakklands um ósigurinn. Þann 16. júní varð Pétain forsætisráðherra og gaf út skipun strax næsta dag um að láta af bardaganum við Þjóðverja. Þann 22. júní skrifaði Pétain undir friðarsamninga ásamt Adolf Hitler í Rethondes, í sama lestarvagni og Þjóðverjar höfðu undirritað samninga um vopnahlé í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Franska þingið veitti Pétain í kjölfarið titilinn „þjóðhöfðingja franska ríkisins“ sem hann bar í þau fjögur ár sem Frakkland var hernumið af Þjóðverjum. Pétain settist á valdastól í bænum Vichy og stofnaði þjóðernissinnaða alræðisstjórn sem nam úr gildi franskar lýðræðisstofnanir og almenn mannréttindi. Vichy-stjórnin vann með þýska innrásarhernum við að uppræta franska gyðinga og setti ýmis lög sem beindust gegn gyðingum í Frakklandi. Vichy-stjórnin entist til ársins 1944 en var steypt af stóli við innrás Bandamanna í Frakkland. Charles de Gaulle lýsti því yfir að Vichy-stjórnin hefði verið ólögmæt leppstjórn Þjóðverja og hefði aldrei haft neitt umboð til að tala fyrir frönsku þjóðina.

Við frelsun Frakklands var Pétain og öðrum ráðamönnum Vichy-stjórnarinnar forðað til Sigmaringen í Þýskalandi. Pétain flúði hins vegar úr haldi til Sviss til þess að gefa sig fram til hinna nýju frönsku stjórnvalda. Árið 1945 var Pétain dæmdur til dauða af hæstarétti Frakklands fyrir landráð. Dómurinn var mildaður í ævilangt fangelsi að áeggjan de Gaulle vegna hás aldurs Pétain og þjónustu hans í fyrri heimsstyrjöldinni. Pétain dó í fangavist á eyjunni Île d'Yeu árið 1951 og er grafinn þar.


Fyrirrennari:
Paul Reynaud
Forsætisráðherra Frakklands
(16. júní 194017. apríl 1942)
Eftirmaður:
Pierre Laval
Fyrirrennari:
Albert Lebrun
(sem forseti Frakklands)
Þjóðhöfðingi franska ríkisins
(11. júlí 194020. ágúst 1944)
Eftirmaður:
Charles de Gaulle
(sem forseti bráðabirgðastjórnar)