Enski bikarinn
Enski bikarinn eða F.A. Cup er elsta bikarkeppni í fótbolta í heimi en hún var stofnuð árið 1871. Í bikarnum hafa mest keppt 763 lið og er þar lið úr úrvalsdeild, þremur deildum ensku knattspyrnudeildarinnar og hundruðir utandeildarliða. Undanúrslitin og úrslitaleikurinn eru haldin á Wembley. Sigurvegararnir fara beint í riðil í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu.
Manchester United eru núverandi meistararar (2024).
Fyrrum þjálfari Arsenal, Arsene Wenger hefur unnið flesta bikartitla, alls 7 sinnum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Nítjánda öldin
[breyta | breyta frumkóða]Charles W. Alcock, þá nýkjörinn formaður Enska knattspyrnusambandsins, lagði sumarið 1871 fram tillögu um að stofna til meistaramóts á vegum sambandsins þar sem aðildarfélögum gæfist færi á að keppa. Skipuð var undibúningsnefnd og fór fyrsta viðureign hinnar nýju bikarkeppni fram í nóvember sama ár. Þrettán leikum síðar voru Wanderers krýndir sem fyrstu bikarmeistarar. Árið eftir fengu ríkjandi meistararnir sjálfkrafa þátttökurétt í úrslitaleiknum, en eftir það var horfið frá þeirri reglu og bikarmeistarar fyrra árs hófu keppni um leið og önnur lið.
Árið 1875 þurfti í fyrsta sinn að endurtaka úrslitaleik eftir að Royal Engineers og Old Etonians skildu jöfn. Fóru báðar viðureignirnar fram á Kennington Oval eins og velflestir úrslitaleikir þeirra ára.
Núverandi keppnistilhögun fór að taka á sig mynd leiktíðina 1888-89 þegar komið var á svæðisbundinni forkeppni, sama ár og ensku deildarkeppninni var komið á legg. Sama ár tókst utandeildarliðinu Warwick County að slá Stoke City F.C. úr keppni, en óvænt úrslit af þeim toga hafa alla tíð verið talin hluti af töfrum bikarsins.
Ellefu fyrstu skiptin sem keppt var í ensku bikarkeppninni fóru lið skipuð yfirstéttarmönnum sem numið höfðu leikinn í enskum einkaskólum. Þessi lið lögðu ríka áherslu á áhugamennskuhugsjónina, enda meðlimir þeirra úr röðum efnafólks og þurftu ekkert á greiðslum að halda fyrir að spila fótbolta. Árið 1883 vann fyrsta liðið frá norðanverðu Englandi keppnina, Blackburn Olympic. Liðin úr norðrinu komu frá verkamannaborgum og voru oftar en ekki í eigu verksmiðjueigenda sem vildu sjá starfsfólki sínu fyrir afþreyingu. Leikmenn þessara voru úr efnaminni stéttum og þáðu yfirleitt laun fyrir að keppa, þótt það yrði framan af að gerast undir borðið. Eftir að atvinnumennskan ruddi sér almennilega til rúms hættu áhugamannaliðin í suðrinu að eiga nokkra möguleika á sigri í keppninni og hættu þau eitt af öðru þátttöku í henni.
1901-50
[breyta | breyta frumkóða]Tottenham varð fyrsta bikarmeistaralið tuttugustu aldar eftir sigur á Sheffield United í endurteknum úrslitaleik. Fyrri viðureignin braut blað í sögunni þar sem áhorfendur voru meira en 100 þúsund talsins. Með sigrinum varð Tottenham eina utandeildarliðið til að fara með sigur af hólmi eftir stofnun ensku deildarinnar.
Enska bikarkeppnin var haldin leiktíðina 1914-15 og lauk með sigri Sheffield United að viðstöddum fjölmörgum einkennisklæddum hermönnum. Harðar deilur spruttu vegna þeirrar ákvörðunar Enska knattspyrnusambandsins að halda áfram keppni þrátt fyrir að fyrri heimsstyrjöldin hefði brotist út. Töldu ýmsir óviðeigandi að fullfrískir karlmenn kepptu i fótbolta á meðan landið stæði í stríði. Knattspyrnusambandið lét undan þrýstingnum og felldi niður keppni þar sem eftir var stríðsins og það sama gilti á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Árið 1923 fóru úrslitin í fyrsta sinn fram á Wembley, þar sem Bolton og West Ham mættust. Opinberar tölur herma að um 126 þúsund manns hafi mætt á leikinn, sem samsvaraði þeim áhorfendafjölda sem völlurinn var talinn rýma. Viðstöddum ber þó saman um að miklu fleiri hafi troðið sér inn á völlinn, jafnvel allt að 200 þúsund manns.
Leiktíðina 1925-26 var tekið upp á þeirri nýbreytni að lið úr tveimur efstu deildunum hófu ekki keppni fyrr en í þriðju umferð bikarsins og hefur sú tilhögun haldist til þessa dags. Sama ár voru núgildandi rangstöðureglur teknar upp í keppninni. Árið eftir varð Cardiff City fyrsta og eina félagið utan Englands til að vinna keppnina, en félög frá Wales hafa löngum verið meðal þátttökuliða.
Hörmulegur atburður átti sér stað í bikarleik milli Bolton og Stoke City árið 1946 þar sem 33 áhorfendur létust eftir að hafa troðist undir. Þrátt fyrir blóðbaðið var ákveðið að ljúka leiknum og var sú ákvörðun fordæmd af mörgum.
1951-2000
[breyta | breyta frumkóða]Bikarúrslitaleikurinn 1953 varð sögufrægur, ekki hvað síst vegna þátttöku Stanley Matthews sem var 38 ára gamall. Hann hafði tvívegis tapað í úrslitum en náði loks að lyfta bikarnum eftir 4:3 sigur Blackpool á Bolton Wanderers, sem misst hafði tvo leikmenn meidda af velli með 3:1 forystu. Þetta var ekki eini úrslitaleikurinn í sögu keppninnar þar sem meiðsli leikmanna höfðu áhrif á úrslit leikja, þannig beinbrotnuðu leikmenn í fimm úrslitaleikjum á árunum 1957-65. Það var ekki fyrr en leiktíðina 1966-67 að skiptingar voru heimilaðar í bikarkeppninni.
Árið 1970 var í fyrsta sinn keppt um bronsverðlaun í bikarkeppninni, þar sem Manchester United og Watford mættust. Áhugi leikmanna og áhorfenda á keppninni um þriðja sætið reyndist takmarkaður og í síðasta sinn var keppt um titilinn vorið 1974.
Hundraðasti bikarúrslitaleikurinn fór fram árið 1981, milli Tottenham og Manchester City.
Leiktíðina 1990-91 þurfu Arsenal og Leeds United að mætast fjórum sinnum í viðureign sinni í fjórðu umferð. Í kjölfarið ákvað Enska knattspyrnusambandið að önnur viðureign félaga skyldi ráðast með vítaspyrnukeppni í stað nýs leiks til að koma í veg fyrir fjölgun leikja. Sama ár var farið að halda undanúrslitaleiki á Wembley.
Fyrsta vítaspyrnukeppnin í sögu bikarkeppninnar var á milli Scunthorpe United og Rotherham United og lauk með 6:7 sigri þeirra síðarnefndu. Nokkur ár liðu enn áður en vítaspyrnukeppnir voru teknar upp í forkeppni bikarsins.
Árið 1999 var undanúrslitaviðureign endurtekin í síðasta sinn. Upp frá því var ákveðið að grípa skyldi til vítaspyrnukeppni í lok allra undanúrslitaleikja og úrslitaleikja ef þurfa þætti. Sama ár varð keppnin fyrir áfalli þegar ríkjandi meistarar, Manchester United, ákváðu að senda ekki lið til leiks vegna þátttöku í Heimsmeistarakeppni félagsliða. Þess í stað var dregið út taplið úr 2. umferð keppninnar og varð Darlington því fyrsta liðið í sögu keppninnar til að tapa tvívegis á sömu leiktíð.
2001-
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu ár 21. aldarinnar var brotið blað í sögu ensku bikarkeppninnar þar sem úrslitaleikurinn fór fram utan Englands, nánar tiltekið á Millennium Stadium í Wales á árunum 2001-06 á meðan unnið var að endurbótum á Wembley. Frá og með 2008 hafa undanúrslitaleikir einnig farið fram á Wembley.
Aukið leikjaálag í deild og í alþjóðakeppnum, auk minnkandi áhuga á bikarkeppninni, hefur orðið til þess að jafnt og þétt hefur verið fækkað þeim umferðum í keppninni þar sem gripið er til nýs leiks lið skilja jöfn, heldur hefur verið farið beint í framlengingu og vítaspyrnukeppni.
Segja má að valdasamþjöppun hafi átt sér stað í bikarnum líkt og á öðrum sviðum enskrar knattspyrnu á 21. öld. Manchesterliðin tvö, Liverpool, Arsenal og Chelsea hafa deilt með sér nær öllum titlunum. Á því eru þó tvær undantekningar: Portsmouth varð bikarmeistari 2008 og Wigan árið 2013. Í báðum tilvikum reyndust sigrarnir þó skammgóður vermir þar sem félögin lentu í miklum fjárhagsvandræðum og féllu niður um deildir beint í kjölfarið.