Fallowfield Stadium

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Fallowfield Stadium var íþróttaleikvangur í Manchester. Hann var tekinn í notkun árið 1892 af frjálsíþróttafélagi í borginni, en var einkum notaður til hjólreiðakeppna, auk þess að hýsa fáeina landsleiki í rúbbí. Háskólinn í Manchester eignaðist völlinn á sjöunda áratugnum og notaði til íþróttaiðkana en hann var rifinn árið 1994.

Þekktastur er Fallowfield Stadium líklega fyrir að hýsa úrslitaleik bikarkeppninnar í knattspyrnu árið 1893. Var það einungis í annað sinn sem leikið hafði verið til úrslita í keppninni utan Lundúna. Wolverhampton Wanderers og Everton mættust í úrslitaleik þessum að viðstöddum 45 þúsund manns. Það var um þrefaldur áætlaður áhorfendafjöldi vallarins og fyrir vikið sá meirihluti áhorfenda ekkert af leiknum sem Wolves unnu 1:0.