Enska knattspyrnusambandið
Enska knattspyrnusambandið (Enska: The Football Association eða The FA) er heildarsamtök enskra knattspyrnufélaga, hefur yfirumsjón með skipulagi fótboltans í landinu og heldur úti landsliðum Englands. Það var stofnað árið 1863, að miklu leyti með það að markmiði að samræma reglur íþróttarinnar og er því elsta knattspyrnusamband heimsins. Bikarkeppni Enska knattspyrnusambandsins, sem stofnuð var árið 1871, er elsta samfellda knattspyrnukeppni veraldar. Sambandið á aðild að alþjóðasamtökunum FIFA og UEFA, auk þess að vera aðili að Bresku Ólympíunefndinni.
Samskiptin við Alþjóðaknattspyrnusambandið
[breyta | breyta frumkóða]Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, var stofnað árið 1904 án þátttöku knattspyrnusambandanna frá Bretlandseyjum. Eftir nokkrar samningaviðræður féllust bresku löndin á að ganga inn ári síðar, en sambúðin var alla tíð erfið. Eftir fyrri heimsstyrjöldina gengu bresku knattspyrnusamböndin úr FIFA á nýjan leik til að mótmæla því að löndin sem töpuðu stríðinu fengju að halda aðild sinni. Sú afstaða mildaðist eftir því sem leið frá stríðinu og árið 1924 gengu samböndin á ný til liðs við FIFA.
Aftur reyndist FIFA-aðildin skammlíf og komu nú til deilur um áhugamennsku eða atvinnumennsku í greininni. Breska Ólympíunefndin hafði barist harðlega gegn því að heimilað væri að greiða íþróttamönnum fyrir vinnutap sem hlytist af þátttöku þeirra á Ólympíuleikunum. Álitu Bretar að þar væri í raun um að ræða atvinnumennsku í dulargervi. Árið 1928 samþykkti FIFA tillögu Svisslendinga um að heimila slíkar greiðslur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í mótmælaskyni sagði Enska knattspyrnusambandið sig úr FIFA og tóku Englendingar því ekki þátt í fyrstu þremur heimsmeistarakeppnunum.
Árið 1946 gekk Enska knattspyrnusambandið á ný til liðs við FIFA. Gerðu Englendingar þegar að kröfu sinni að Japan og Þýskalandi yrði vikið úr sambandinu og var fallist á þau skilyrði. Englendingar tóku því þátt í sinni fyrstu heimsmeistarakeppni í Brasilíu árið 1950. Þrír af níu forsetum FIFA hafa komið úr röðum Enska knattspyrnusambandsins.