Brighton & Hove Albion
Brighton & Hove Albion Football Club | |||
Fullt nafn | Brighton & Hove Albion Football Club | ||
Gælunafn/nöfn | Seagulls og Albion | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | BHA | ||
Stofnað | 1901 | ||
Leikvöllur | Falmer Stadium | ||
Stærð | 30.750 | ||
Stjórnarformaður | Tony Bloom | ||
Knattspyrnustjóri | Fabian Hürzeler | ||
Deild | Enska úrvalsdeildin | ||
2023-2024 | 11. sæti | ||
|
Brighton & Hove Albion Football Club er enskt knattspyrnulið frá Brighton og Hove í Austur-Sussex.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Brighton & Hove Albion var stofnað árið 1901, þá undir nafninu Brighton & Hove United en því var fljótlega breytt í núverandi mynd. Félaginu var ætlað að leysa af hólmi Brighton & Hove Rangers, sem orðið hafði gjaldþrota skömmu áður. Nýja félagið tók sæti Rangers-liðsins í Southern League, sem var öflug deildarkeppni rekin til hliðar við Ensku deildina. Brighton vann Southern League keppnistímabilið 1909-10.
Fyrstu fimm árin sem keppt var um Samfélagsskjöldinn (e. FA Community Shield) mættust þar sigurlið ensku deildarinnar og Southern League. Brighton vann sigur á Aston Villa árið 1910 og er því eina liðið í sögu keppninnar til að hafa orðið meistari án þess að vinna ensku deildarkeppnina eða bikarinn.
Ládeyða í neðri deildum
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1921 færði Brighton sig úr Southern League yfir í deildarkeppnina og hóf keppni í suðurhluta C-deildar þar sem liðið lék næstu áratugina. Vorið 1958 fór félagið í fyrsta sinn upp í næstefstu deild og hélst þar næstu misserin. Árin 1962 og 1963 féll liðið tvívegis niður um deild og var þá í fyrsta sinn í sögunni komið niður í D-deildina, sem stofnuð hafði verið nokkru fyrr. Dvölin þar var þó ekki nema eitt ár og vorið 1972 komst Brighton loks aftur í næstefstudeild. Við tók viðburðaríkur tími í sögu félagsins.
Árin með Mike Bamber
[breyta | breyta frumkóða]Athafnamaðurinn Mike Bamber festi kaup á Brighton árið 1972 og hélt um valdataumana í meira en áratug. Liðið féll niður úr B-deildinni eftir aðeins eitt keppnistímabil vorið 1973 en Bamber hugðist koma því strax aftur upp. Hann réð Brian Clough sem knattspyrnustjóra en hann var um þær mundir talinn efnilegasti stjóri Englands og hafði gert Derby County að meisturum. Ráðningin stóð ekki undir væntingum og varð Clough skammlífur í stjórastólnum.
Betur tókst til við ráðningu á gömlu landsliðskempunni Alan Mullery sem stýrði Brighton frá 1976 til 1981 og fór með liðið upp í efstu deild vorið 1979 í fyrsta sinn. Árin meðal þeirra bestu urðu fjögur og náði Brighton best þrettánda sæti. Leiktíðin 1982-83 varð mikil rússíbanareið þar sem liðið vann sigrá á bæði Manchester United og Arsenal en endaði þó í botnsætinu. Árið varð þó minnisstæðast fyrir frammistöðuna í bikarkeppninni þar sem liðið komst í fyrsta sinn í úrslitaleikinn og mætti þar Manchest United. Liðin skildu jöfn 2:2 þar sem Gordon Smith mistókst að tryggja Brighton frægan sigur þar sem hann misnotaði dauðafæri á síðustu andartökum framlengingarinnar. Nýr leikur fór fram og þar sigraði Manchester-liðið með fjórum mörkum gegn engu.
Eyðimerkurganga
[breyta | breyta frumkóða]Næstu ár eftir fallið úr efstu deild tók Brighton að sogast neðar og neðar í deildarkeppninni. Liðið flakkaði milli B-deildar og C-deildar og fór alla leið niður í D-deild þar sem það endaði árin 1997 og 1998 í næstneðsta sæti og var því nærri fallið úr deildarkeppninni. Á þessum árum neyddist félagið til að selja heimavöll sinn og leika leiki sína á heimavelli Gillingham víðs fjarri Brighton.
Um aldamótin tók að rofa til í fjármálunum og liðið fór að skríða upp deildirnar á nýjan leik. Það átti tvö ár í B-deildinni 2004-05 og 2005-06 og komst þangað aftur á árinu 2011. Eftir sex ára dvöl í næstefstu deild komst Brighton aftur í hóp þeirra bestu eftir að hafa náð öðru sæti í B-deildinni vorið 2017.
Frá 2017
[breyta | breyta frumkóða]Liðið hóf frumraun sína í ensku úrvalsdeildinni árið 2017.
Eftir að hafa naumlega sloppið við fall var Chris Hughton stjóri liðsins látinn fara eftir tímabilið 2018-2019 þegar liðið var 2 stigum frá fallsæti. Graham Potter sem þjálfaði Östersund í Svíþjóð tók við af honum og var frá 2019-2022.
Tímabilið 2022-2023 náði liðið sæti í evrópukeppni í fyrsta sinn.