Old Carthusians F.C.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Old Carthusians F.C. er enskt knattspyrnulið skipað leikmönnum sem útskrifast hafa úr Charterhouse School í Surrey. Félagið var stofnað árið 1876 og kom talsvert við sögu knattspyrnuíþróttarinnar í árdaga hennar áður en atvinnumennska ruddi sér til rúms. Í seinni tíð keppir félagið einkum við önnur lið útskrifaðra stúdenta.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Charterhouse-heimavistarskólinn var einn margra drengjaskóla í Englandi þar sem fótbolti var leikinn um miðja nítjándu öld og voru fulltrúar skólans í hópi stofnenda Enska knattspyrnusambandsins árið 1863. Gamlir nemendur skólans höfðu m.a. komið að því að stofna knattspyrnufélagið Stoke-on-Trent F.C. sem síðar varð Stoke City.

Árið 1876 var Old Carthusians F.C. stofnað og var frá upphafi skipað gömlum nemendum úr Charterhouse-skólanum. Liðið tók fyrst þátt í Ensku bikarkeppninni leiktíðina 1879-80. Strax árið eftir vann félagið sinn fyrsta og eina bikarmeistaratitil eftir 3:0 sigur á Old Etonians í úrslitum. Tveimur árum síðar komst liðið í undanúrslit keppninnar en tapaði þar fyrir Blackburn Olympic í sögulegum leik, sem talinn hefur verið marka upphafið að sigri verkamannaliðanna í norðrinu á yfirstéttarliðum gömlu einkaskólanna.

Ágreiningur um atvinnumennsku leiddi nálega til klofnings innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Stofnuð var sérstök bikarkeppni áhugamanna og voru Old Carthusians sigursælir í henni fyrstu árin. Þegar Enska deildarkeppnin var stofnsett árið 1888 voru aðildarfélögin atvinnumannalið úr norðrinu, Old Carthusians sýndu áhuga á þátttöku en ekkert varð úr því.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Bikarmeistarar

  • (1) 1880-81