Efnahagsleg hnattvæðing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Efnahagsleg hnattvæðing er sú tegund hnattvæðingar sem snýr að efnahagslegum þáttum samfélagsins. Með hugtakinu er fyrst og fremst átt við aukna samþættingu hagkerfa á heimsvísu, þannig að þau verða háðari hvoru öðru og efnahagslegar hindranir þeirra á milli minnka til muna. Þetta ferli fer gjarnan fram samhliða iðnvæðingu og auknum tækniframförum, sérstaklega hvað varðar samgöngur og samskipti. Efnahagsleg hnattvæðing er aðgreind frá félagslegri, stjórnmálalegri og menningarlegri hnattvæðingu.[1]

Efnahagslegri hnattvæðingu er gjarnan skipt í fimm tímabil og er hún fyrst talin hafa hafist fyrir alvöru á 18. öld, í kjölfar iðnbyltingarinnar.

Efnahagsleg hnattvæðing[breyta | breyta frumkóða]

Efnahagsleg hnattvæðing er hagfræðilegt og félagsfræðilegt ferli sem á við um að hagkerfi heimsins breytist og þróist á þann hátt að þau verði háðari hvoru öðru. Efnahagslegum hindrunum er rutt úr vegi, milliríkjaviðskipti aukast og markaðir verða samleitari. Þetta gerist fyrst og fremst fyrir tilstilli iðnvæðingar, en efnahagsleg hnattvæðing hófst fyrir alvöru á 19. öld í kjölfar iðnbyltingarinnar, og vegna aukinna alþjóðlegra viðskipta á vörum og þjónustu, og aukins fjármagnsflæðis á milli landa. Tækniframfarir gegna einnig mikilvægum þætti í að stuðla að efnahagslegri hnattvæðingu, þar sem kostnaður við samgöngur verður lægri og greiðara upplýsingaflæði verður á milli landa.[2][3][4]

Fjármálamarkaðir eru sérstaklega mikilvægir þegar hnattvæðing er skoðuð útfrá sjónarhorni hagfræðinnar. Með efnahagslegri hnattvæðingu þenjast fjármálamarkaðir tiltekinna ríkja út og gagnkvæm samþætting þeirra á milli á sér stað. Þessu fylgir óhjákvæmilega breyting á lagalegri umgjörð fjármálamarkaða. Úr þessu verður til alþjóðlegur fjármagnsmarkaður, en hlutverk hans í efnahagslífi iðnríkja er orðið gríðarstórt nú á dögum, sérstaklega á Vesturlöndum. Alþjóðlegur fjármagnsmarkaður varð fyrst til í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu á 19. öld, en varð fyrir bakslagi á millistríðsárunum. Á síðari hluta 20. aldar blés aftur lífi í alþjóðlegan fjármálamarkað og hefur hann stækkað ætíð síðan og náð út um allan heim. Bandaríski hagfræðingurinn Hyman Minsky var frumkvöðull í að rannsaka fjármálamarkaði með hliðsjón af efnahagslegri hnattvæðingu. Það ferli sem hann lýsir, þar sem fjármálamarkaðir fá meira vægi og fylgja þróun samþættingar á alþjóðavísu, hefur einnig verið kallað „fjármálavæðing.“[5][6][7]

Tímaskeið efahagslegrar hnattvæðingar[breyta | breyta frumkóða]

Landafundatímabilið: Kristófer Kólumbus finnur Ameríku.

Efnahagslegri hnattvæðingu er yfirleitt skipt í fimm mismunandi tímaskeið, eða „bylgjur“[8][9]

Adam Smith

Fyrsta tímaskeiðið – Landafundatímabilið (15. öld – 18. öld)[breyta | breyta frumkóða]

Skiptar skoðanir eru meðal sagnfræðinga um hvenær efnahagsleg hnattvæðing hófst fyrir alvöru, en gjarnan er talið að hnattvæðing eigi upphaf sitt að rekja til ársins 1492 þegar Kristófer Kólumbus fann Ameríku og landafundatímabilið hófst. Klassíski hagfræðingurinn Adam Smith var einn sá fyrsti til að skrifa um efnahagslega hnattvæðingu, og hugmyndin um að hún hafi byrjað með landafundatímabilinu er tileinkuð honum.[10][11] Síðar hafa fleiri fræðimenn rakið upphaf hnattvæðingar enn lengra aftur tímann, og benda t.d. á ýmsar fornar verslanaleiðir eins og Silkiveginn, og önnur alþjóðleg viðskipti í fornöld, máli sínu til stuðnings.[12]

Hinsvegar eru margir sagnfræðingar nú á dögum, sem sérhæfa sig í hagsögu, sammála um að þrátt fyrir að félagsleg og menningarleg hnattvæðing hafi vissulega átt sér stað á landafundatímabilinu, og að alþjóðleg viðskipti hafi vaxið á þessum tíma, þá hafi markaðir ekki samþæst (e. market integration) og vöruverð í mismunandi löndum varð ekki samleitara (e. price convergence). Þessi tvö skilyrði eru nauðsynleg fyrir efnahagslega hnattvæðingu.[13][14] Þó er talið að tímabilið frá 15. öld fram á 18. öld hafi verið mikilvægur undanfari efnahagslegrar hnattvæðingar, m.a. vegna aukinna milliríkjaviðskipta og opnunar sigilingaleiða um heimshöfin.[15]

Annað tímaskeiðið – 19. öldin[breyta | breyta frumkóða]

Eiginleg efnahagsleg hnattvæðing hófst ekki fyrr en á öðrum áratug 19. aldar, í kjölfar fyrri iðnbyltingarinnar á Bretlandi.[16] Fordæmislaus vöxtur á milliríkjaviðskiptum varð á 19. öldinni, en á árunum 1800-1899 jukust milliríkjaviðskipti að meðaltali um 3,85% á ári, á meðan þau höfðu aukist að meðaltali um 1,06% á ári á árunum 1500-1799.[17]

Tækniframfarir og uppfinningar á borð við gufuvélina urðu til þess að stórbæta samgöngur á 19. öldinni. Járnbrautarlestir og gufuskip greiddu leiðina fyrir aukin viðskipti og efnahagslega hnattvæðingu.

Auknu alþjóðaviðskiptin á 19. öld voru ólík þeirri efnahagslegu starfsemi sem hafði tíðkast á öldum áður. Á landafundatímbilinu hafði fámennur hópur aðalsmanna og auðkýfinga hagnast á flest öllum milliríkjaviðskiptum, sem og nýlendustefnu heimsveldanna, en þá var aðallega verslað með lúxusvörur eins og tóbak og sykur. Á 19. öld var byrjað að versla með iðnaðarvörur og almennan varning. Verð í mismunandi löndum varð samleitara, og heimsmarkaðsverð á nauðsynjavörum fór að lækka til muna. Þetta leiddi til bættra lífsskilyrða og mikils hagvaxtar, og fór saman við iðnvæðinguna sem þá var að eiga sér stað. Í seinni iðnbyltingunni varð síðan gríðarlegur vöxtur í iðnaði, einkum stóriðju, og stórfyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur komu fyrst fram á sjónarsviðið.[18][19]

Þróunina á 19. öld má m.a. skýra með Heckschser-Ohlin líkaninu. Það er stærðfræðilegt líkan sem byggir á kenningu David Ricardo um hlutfallslega yfirburði, og segir að lönd hneigist til að flytja út vörur sem eru framleiddar með þeim framleiðsluþáttum sem gnægð er af í landinu, á meðan þau flytja inn vörur sem eru framleiddar með þeim framleiðsluþáttum sem skortur er á í því tiltekna landi.[20][21][22]

Stóriðja um aldamótin 1900.

Iðnvæðingin og miklar tækniframfarir og uppfinningar á borð við gufuvélina, stuðluðu að bættum samgöngutækjum. Járnbrautarteinar fyrir járnbrautarlestar voru lagðir um þvert öll Bandaríkin og Evrópu, og stór gufuskip tóku við af seglskipum.[23] Þessar tækniframfarir spöruðu samgöngutíma og leiddu til stórlækkaðs ferðakostnaðar, en það var einn mikilvægasti þátturinn í að auka alþjóðleg viðskipti á 19. öld. Annar mikilvægur þáttur var sá að sjórán hurftu nánast alfarið á 19. öldinni vegna sterkara ríkisvalds og aukinnar löggæslu, en sjórán höfðu hindrað viðskipti um úthöfin verulega á öldum áður.[24] [25] Auðveldara varð að versla við Austur-Asíu, og lönd eins og Kína, Kórea, Tæland, Indland og Indónesía fóru að verða virkir þátttakendur í heimshagkerfinu ásamt Vesturlöndum.[26]

Á 19. öld var einnig alþjóðlegt peningakerfi fyrst sett á laggirnar, þar sem stuðst var við gullfótinn og ríki fylgdu stefnu um frjáls viðskipti.[27][28]

Efnahagsleg hnattvæðing hófst því ekki fyrir alvöru fyrr en á 19. öldinni. Þá átti sér fyrst stað veruleg samþætting á mörkuðum mismunandi landa (e. economic integration) og verð varð samleitara (e. price convergence) ásamt því að heimsmarkaðsverð á ýmsum nauðsynjavörum lækkaði. Samþætting varð á öllum helstu framleiðsluþáttunum, þar sem vinnuafl flutti í stórum stíl milli landa, einkum frá Evrópu til Norður-Ameríku. Stöðugur vöxtur í alþjóðaviðskiptum, og framþróun í efnahagslegri hnattvæðingu, varði fram á 20. öldina og fram til fyrri heimsstyrjaldarinnar.[29][30]

Þriðja tímaskeiðið – Millistríðsárin (1918 – 1939)[breyta | breyta frumkóða]

Hrunið á Wall Street 1929.

Á fyrsta áratug 20. aldarinnar óx heimshagkerfið sem aldrei fyrr. Alþjóðleg fyrirtæki voru drifkraftur efnahagslegrar hnattvæðingar og framleiddu efnhagsleg gæði fyrir alþjóðlegan markað með vinnuafli og fjármagni hvaðan af úr heiminum. Alþjóðaviðskipti og fjárfestingar jukust í takt við fjármálavæðingu heimshagkerfisins. Lífsskilyrði fóru batnandi og ákveðin lönd fóru að rísa upp úr fátækt.[31][32] Tækniframfarir og frekari iðnvæðing breyttu framleiðsluskilyrðum, þannig að framleiðsla varð skilvirkari og ódýrari. Byrjað var að fjöldaframleiða hluti sem ekki var hægt að fjöldaframleiða áður, t.d. bíla. Þetta stuðlaði að frekari efnahagslegri hnattvæðingu og fjármálavæðingu, en farið var að versla með hlutabréf í stórfyrirtækjum í stórum stíl.[33][34]

Fyrri heimsstyrjöldin (1914-1918) markaði þáttaskil í þróun alþjóðlegra viðskipta og efnahagslegrar hnattvæðingar. Verulega drógst úr milliríkjaviðskiptum í kjölfar stríðsins og mörg lönd fóru að fylgja verndar- og einangrunarstefnu. Markaðir mismunandi ríkja urðu sundurleitari og efnahagsleg hnattvæðing varð fyrir bakslagi.[35] Vöxtur varð á 3. áratugnum og miklar mikilvægar efnahagslegar umbreytingar áttu sér stað þar sem neysla jókst til muna. En þróunin varð aftur fyrir hnekkjum með kreppunni miklu sem skall á árið 1929. Kreppan var verulegt áfall fyrir alþjóðlega fjármálakerfið, og það náði sér ekki aftur í fyrra horf fyrr en á 6. áratugnum. Millistríðsárin voru tími mikilla pólitískra átaka og viðskiptadeilna, sem enduðu að lokum með seinni heimsstyrjöldinni (1939-1945).[36][37]

Fjórða tímaskeiðið – Eftirstríðssárin (1945 – 1973)[breyta | breyta frumkóða]

Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar ákváðu leiðtogar Bandamanna að endurtaka ekki harmleik millistríðsáranna. Lögð var áhersla á efnahagslega uppbyggingu í kjölfar stríðsins.[38] Það efnahagskerfi sem rekið var á heimsvísu á eftirstríðsárunum er gjarnan kennt við Bretton Woods ráðstefnuna sem haldin var að sigurveldunum árið 1944. Alþjóðlegum stofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðabankann og hinn „Almenni samningur um tolla og viðskipti,“ eða GATT (sem seinna varð að Alþjóðaviðskiptastofnuninni), var komið á laggirnar til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Bandaríkin tóku að sér leiðtogahlutverkið og unnu náið saman með hinum Vesturlöndunum, meðal annars með því að veita þeim Marshallaðstoðina til að hjálpa til við uppbyggingu í kjölfar stríðsins. Bretton Woods-kerfið átti að stuðla að heilbrigðri efnahagsstarfsemi og hagvexti, minnka og halda atvinnuleysi í skefjum og skapa stöðugleika í verðlagi. Lögð var áhersla á frjáls viðskipti, afnám hafta, lækkun og/eða afnám tolla (m.a. í gegnum GATT) og stöðuga gjaldmiðla á grundvelli fastgengisstefnu og gullfótarins (en það var einungis Bandaríkjadalur sem studdist við gullfótinn lengst af í Bretton Woods-kerfinu). Mikið var um fjárfestingar á milli landa.[39]

Bretton Woods-kerfið bar árangur og fordæmislaus hagvöxtur var á eftirstríðssárunum þar sem lífskjör bötnuðu til muna.[40] Efnhagsleg hnattvæðing á tímum Bretton Woods-kerfisins var bersýnileg, sérstaklega á sjötta og sjöunda áratugnum, í auknum alþjóðaviðskiptum og milliríkjafjárfestingum.[41][42]

Þrátt fyrir þessa þróun varð takmörkuð samþætting á fjármálamörkuðum á eftirstríðsárunum. Mikil tortryggni var ennþá til staðar í garð fjármálaviðskipta, vegna reynslunnar af kreppunni miklu, og alþjóðlegur fjármagnsmarkaður eins og sá sem hafði verið á 19. öld varð ekki aftur til fyrr en á 8. áratugnum.[43][44]

Bretton Woods-kerfið er sagt hafa liðið undir lok í upphafi 8. áratugarins þegar Richard Nixon Bandaríkjaforseti ákvað að taka Bandaríkjadalinn af gullfætinum árið 1971, og gengi gjaldmiðilsins féll í kjölfarið. Þá fylgdu einnig olíukreppur árin 1973 og 1979 sem leiddu til hækkandi olíuverðs og verulegra efnahagslegra þrenginga. Svokölluð kreppuverðbólga tók við þar sem atvinnuleysi og verðbólga ruku upp úr öllu valdi samtímis. 8. áratugurinn markaði þannig tímamót í sögu efnahagslegrar hnattvæðingar.[45]

Fimmta tímaskeiðið – Þróun seinustu áratuga (1973-)[breyta | breyta frumkóða]

Evrópska efnahagssvæðið.

Hagvöxtur eftir árið 1973 hefur verið talsvert minni en hann var á eftirstríðsárunum 1945-1973.[46] Fljótandi gengisstefna var tekin upp í flestum löndum og alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn þandist út vegna tilstilli tækninýjunga, þar sem tölvur voru farnar að sjá um flesta útreikninga og spara pappírsvinnu. Fjármálavæðing hófst á ný og heldur áfram fram til dagsins í dag. Afreglun (e. deregulation), aukin einkavæðing og frjálslyndar efnahagsstefnur Ronald Reagan í Bandaríkjunum og Margrétar Thatcher á Bretlandi, stuðluðu að frekari stækkun og samþættingu fjármálamarkaða á 9. áratugnum og fram á 10. áratuginn.[47][48]

Á árunum 1979 til 1985 fór að draga úr atvinnuleysinu og verðbólgunni sem hafði geyst í kjölfar olíukreppunnar, og samþætting hagkerfa hófst á ný með miklum krafti, og efnahagsleg hnattvæðing náði sögulegu hámarki í kjölfarið. Milliríkjaviðskipti náðu sögulegum hæðum og víðsvegar var tekin upp stefna um frjálst flæði fjármagns, og um fjórfrelsi á Evrópska efnahagssvæðinu. Vinnuafl fór aftur að flytjast í stórum stíl á milli landa eins og það hafði áður gert á 19. öld, og heldur þessi þróun áfram til dagsins í dag. Samþætting heimshagkerfisins og verðsamleitni hefur aldrei verið jafn mikil og nú.[49][50]

Skipting hnattvæðingar í tímaskeið[breyta | breyta frumkóða]

Hvernig hátta á skiptingu hnattvæðingar í tímaskeið er umdeilt meðal fræðimanna.[51][52] Félagsfræðingar og stjórnmálafræðingar skipta hnattvæðingu gjarnan í þrjú tímabil,[53] en sagnfræðingar og hagfræðingar í fimm.[54][55][56] Þá er verið að taka mið af félagslegri, stjórnmálalegri og menningarlegri hnattvæðingu annars vegar, og efnahagslegri hnattvæðingu hins vegar, en þessi tvö ferli eru ólík.

Þegar hnattvæðingu er skipt upp í þrjár bylgjur þá er fyrsta bylgjan gjarnan kennd við landafundatímabilið og sögð vara yfir árin 1450-1850; önnur bylgjan er kennd við heimsvaldatímabil Evrópuríkja á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugstu (1850-1945); og sú þriðja er sögð vera eftirstríðsárin fram til dagsins í dag (1945-).[57]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
 2. Baylis, Smith & Owens, 2011, bls. 21.
 3. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
 4. Shangquan, 2000, bls. 1-2.
 5. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
 6. Minsky, 1986.
 7. Minsky, 1996.
 8. Bordo, Eichengreen, & Irwin, 1999.
 9. O'Rourke & Williamson, 2002.
 10. The Economist, 2013.
 11. Smith, 1776.
 12. O'Rourke og Williamson, 2002, bls. 23.
 13. Magnús Sveinn Helgason, 2014, 1. þáttur: Fríverslun og gull - Fæðing heimshagkerfisins á 19. öld.
 14. O'Rourke og Williamson, 2002.
 15. O'Rourke og Williamson, 2002, bls. 45.
 16. O'Rourke og Williamson, 2002, bls. 34.
 17. O'Rourke og Williamson, 2004, bls. 112.
 18. Frieden, 2006, bls. 54.
 19. O'Rourke & Williamson, 2002, bls. 23-35.
 20. Bordo, Eichengreen & Irwin, 1999.
 21. Frieden, 2006, bls. 77-79.
 22. O'Rourke & Williamson, 2002, bls. 23-35.
 23. O'Rourke & Williamson, 2002, bls. 36.
 24. Bordo, Eichengreen & Irwin, 1999.
 25. O'Rourke & Williamson, 2002.
 26. O'Rourke & Williamson, 2002, bls. 37.
 27. Bordo, Eichengreen & Irwin, 1999.
 28. O'Rourke & Williamson, 2002.
 29. Magnús Sveinn Helgason, 2014, 1. þáttur: Fríverslun og gull - Fæðing heimshagkerfisins á 19. öld.
 30. O'Rourke & Williamson, 2002, bls. 34.
 31. Frieden, 2006, bls. 54.
 32. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 2. þáttur: Tollamúrar og haftakerfi - Hrun heimshagkerfisins á millistríðsárunum.
 33. Frieden, 2006, bls. 61 - 63.
 34. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 2. þáttur: Tollamúrar og haftakerfi - Hrun heimshagkerfisins á millistríðsárunum.
 35. Frieden, 2006, bls. 129.
 36. Frieden, 2006, bls. 139-140, 173 og 195.
 37. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 2. þáttur: Tollamúrar og haftakerfi - Hrun heimshagkerfisins á millistríðsárunum.
 38. Frieden, 2006, bls. 195.
 39. Frieden, 2006, bls. 279 og 287-290.
 40. Frieden, 2006, bls. 281.
 41. Frieden, 2006, bls. 291-293.
 42. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 4. þáttur: Aftur til framtíðar og endalok sögunnar.
 43. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 9. þáttur: Fjármálabyltingar og kauphallarhrun.
 44. Magnús Sveinn Helgason, 2014, 3. þáttur: Bretton Woods og gullaldarskeið dollarans.
 45. Frieden, 2006, bls. 359-360.
 46. Frieden, 2006, bls. 363-364.
 47. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 9. þáttur: Fjármálabyltingar og kauphallarhrun.
 48. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 4. þáttur: Aftur til framtíðar og endalok sögunnar.
 49. Frieden, 2006, bls. 385.
 50. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 5. þáttur: Heitir peningar, og hnattvæðing á tímum alþjóðlegra fjármagnsmarkaða.
 51. Bordo, Eichengreen, & Irwin, 1999.
 52. O'Rourke & Williamson, 2002, bls. 23.
 53. Baylis, Smith & Owens, 2011, bls. 23-48.
 54. Bordo, Eichengreen, & Irwin, 1999.
 55. Frieden, 2006.
 56. O'Rourke & Williamson, 2002.
 57. Baylis, Smith & Owens, 2011, bls. 23-48.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Bordo, M. D., Eichengreen, B., & Irwin, D. A. (1999). „Is Globalization Today Really Different than Globalization a Hunderd Years Ago?“ Í S. Collins & R. Lawrence (ritsj.), Brookings Trade Policy Forum. Washington, DC: Brookings Institution.
 • Frieden, J. A (2006). Global capitalism: Its fall and rise in the twentieth century. New York: W.W. Norton.
 • Baylis, J., Smith, S. & Owens, P (2011). The Globalization of World Politics: An introduction to international relations. New York: Oxford University Press.
 • Magnús Sveinn Helgason. (2013). „Fjármalabyltingar og kauphallarhrun“. Útvarpsþáttur á RÚV. Sótt 10. maí 2015.
 • Magnús Sveinn Helgason. (2014). „Gull, pund og kauphallarhrun“. Útvarpsþáttur á RÚV. Sótt 10. maí 2015.
 • Minsky, Hyman P (1986). Stabilizing an Unstable Economy. New Haven, CT: Yale University Press.
 • Minsky, Hyman P. (1996). “Uncertainty and the Institutional Structure of Capitalist Economies.” Working Paper 155. Annandale-on-Hudson, NY: Levy Economics Institute of Bard College.
 • O'Rourke, K. H. & Williamson, J. G. „When did globalisation begin?“. European Review of Economic History. (6) (2002): bls. 23-50. Cambridge University Press.
 • O'Rourke, K. H. & Williamson, J. G. „Once more: When did globalisation begin?“. European Review of Economic History. (8) (2004): bls. 109-117. Cambridge University Press.
 • Shangquan, G. (2000). „Economic globalization: trends, risks and risk prevention.“ Economic & Social Affairs. CDP Backround Paper, (1). United Nations: New York. Soðað þann 14. maí 2015.
 • Smith, Adam (1776). An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations. London: W. Strahan & T. Cadell.
 • The Economist. (2013, 23. september). Economic history: When did globalization start? Skoðað þann 26. maí 2015.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]