Síðari iðnbyltingin

Síðari iðnbyltingin eða tæknibyltingin er tímaskeið í Iðnbyltingunni sem nær frá seinni hluta 19. aldar til fyrri heimstyrjaldarinnar. Þetta tímabil er talið hefjast með tækninýjungum í stálframleiðslu, uppgötvun Bessemers, sem gerðu það mögulegt að framleiða stál á mun ódýrari hátt en áður sem svo hafði mikil áhrif á fjöldaframleiðslu og færibandavinnu.
Á tímabilinu frá 1870 til 1914 urðu tækniframfarir byggðar á vísindalegri þekkingu, meðal annars í efnafræði. Stóriðja varð útbreidd í sumum tilvikum vegna þess að það var hagkvæmt að hafa stórar einingar, til dæmis geyma og katla. Á þessu tímabili eru lögð veitukerfi eins og rafkerfi, gaskerfi, holræsakerfi og símakerfi, útvarps- og fjarskiptakerfi, og voru þessi kerfi oft svo stór að það var ekki á færi frjáls markaðar að sjá um uppbyggingu þeirra heldur varð það hlutverk sveitarfélaga. Þetta tímabil einkenndist af útþenslu bæjarfélaga.
Næsta skref í byggingarefnum var stál. Hugvitsmaðurinn Henry Bessemer fékk röð einkaleyfa 1855-6 fyrir aðferð sína til framleiðslu stáls úr fosfórlausu járngrýti, og með betrumbótum Friedrich Siemens á framleiðsluferlinu og aðferð Sidney Gilchrist Thomas til að fjarlægja fosfór úr járngrýti var árið 1876 leiðin greið fyrir stórfellda stálframleiðslu, en þangað til höfðu menn þurft að reiða sig á ört dvínandi námur fosfórlauss járns til hennar.[1] Fyrir heimssýninguna í París 1889 hannaði Gustave Eiffel svo turn úr hinu nýja byggingarefni, Eiffelturninn.[2]
Einnig komu til sögunnar nýir orkugjafar, olía annars vegar og raforka framleidd með olíu eða virkjun vatnsfalla hins vegar. Hófst virkjun olíulinda 1859 í Bandaríkjunum, en rafallinn var fundinn upp 1870. Um miðbik nítjándu aldar og þar til skömmu eftir aldamótin 1900 komu einnig fram ritsími Samuel Morse, talsími Alexander Graham Bell, loftskeytatækni Guglielmo Marconi, vélfluga Wrightbræðra og loks færibandaframleiddir bílar Henry Ford.[3] Var þar með kominn vísir að tækniþróun tuttugustu aldar.
Tákn þessa tímabils er raforkan en fyrir rafvæðingu voru verksmiðjur iðnríkja knúnar vatns- og gufuorku og það hafði áhrif á staðsetningu iðjuvera. Í gamla kerfinu voru orkugjafar miðlægir og orkunni var dreift frá miðstöð til vélbúnaðar á dreif um verksmiðjurnar. Í verksmiðju með rafkerfi gat hver vél haft sinn eigin rafmótor og það gaf kost á ýmis konar endurskipulagningu og hagræðingu.