The Chicks

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dixie Chicks)
The Chicks
The Chicks í Austin, Texas árið 2006
The Chicks í Austin, Texas árið 2006
Upplýsingar
Önnur nöfnDixie Chicks
UppruniDallas, Texas, BNA
Ár1989–núverandi
Stefnur
Útgefandi
Meðlimir
Fyrri meðlimir
Vefsíðathechicks.com

The Chicks, áður kallaðar Dixie Chicks, eru bandarísk kántrí-sveit sem samanstendur af Martie Maguire, Emily Robison og aðalsöngkonunni Natalie Maines. Sveitin hefur selt 30,5 milljónir breiðskífa í Bandaríkjunum fram að ágúst 2009 sem gerir hana að mest seldu kvennasveit í landinu.[1]

Hljómsveitin var stofnuð í Dallas árið 1989 og samanstóð upphaflega af fjórum konum sem spiluðu bluegrass og kántrítónlist og unnu fyrir sér með því að spila á götum úti. Fyrstu 6 árin ferðuðust þær stöllur um og spiluðu á sveitasönghátíðum og á litlum tónlistarstöðum án þess að ná athygli stóru útgáfufyrirtækjanna. Eftir meðlimaskipti og örlitla breytingu á efnisskránni hlaut hljómsveitin athygli bæði á kántrí- og popptónlistarsviðinu með lögum á borð við „Wide Open Spaces“, „Cowboy Take Me Away“ og „Long Time Gone“. Konurnar urðu þekktar fyrir sjálfstæðan anda og umdeild ummæli um stjórnmál og stríðsrekstur.

Á tónleikum í London 10 dögum fyrir innrásina í Írak árið 2003 lét aðalsöngkonan Maines þau orð falla að þær „vildu ekkert með þetta stríð hafa, þetta ofbeldi, og við skömmumst okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna sé frá Texas“ (sem er heimafylki Dixie Chicks).[2] Ummælin þóttu dónaleg og óþjóðrækin. Almenningur var það óánægður, að hljómsveitinn missti helming af tónleikagestum í Bandaríkjunum, fengu send hótunarbréf og breiðskífur þeirra voru eyðilagðar í mótmælaskyni.[3]

Dixie Chicks hafa unnið 13 Grammy-verðlaun, þar af 5 árið 2007 - meðal annars breiðskífa ársins fyrir Taking The Long Way.

Saga hljómsveitarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Stofnun Dixie Chicks[breyta | breyta frumkóða]

Hljómsveitin Dixie Chicks var stofnuð 1989 af Laura Lynch á kontrabassa, gítarleikaranum Robin Lynn Macy og systrunum Martie og Emily Erwin. Nafn sveitarinnar var fengið úr laginu „Dixie Chicken“ samið af Lowell George, meðlim hljómsveitarinnar Little Feat.[4] Upphaflega spilaði sveitin sveitatónlist. Aðalsöngvarar voru Lynch og Macy. Maguire spilaði fyrst og fremst á fiðlu, mandólín og víólu á meðan sérsvið Robison voru fimmstrengja banjó og dóbró.

Árið 1990 borguðu Dixie Chicks fyrir framleiðsluna á fyrstu breiðskífu sinni, en hún hlaut heitið Thank Heavens for Dale Evans[5] eftir frumkvöðlinum og söngkonunni Dale Evans. Í lok árs kom jólaskífan Home on the Radar Range út með „Christmas Swing“ á A-hliðinni og „The Flip Side“ á bakhliðinni. Á þessum tíma klæddu hljómsveitarmeðlimir sig upp sem kúrekastelpur og þrátt fyrir að hafa komið fram á stærstu beinu útsendingu í Bandarísku útvarpi Grand Ole Opry[6] og útvarpsþætti Garrison Keillor, Riders In the Sky[7] hlaut hljómsveitin ekki mikla spilun í bandarísku útvarpi.

Breyttur tónlistarstíll[breyta | breyta frumkóða]

Dixie Chicks söfnuðu jafnt og þétt aðdáendahópi og voru valdar sem besta hljómsveit á tónlistarhátíðinni Telluride Bluegrass Festival. Þá komu þær fram sem upphitunarhljómsveit fyrir þekktari kántrístjörnur á borð við Garth Brooks, Reba McEntire og George Strait.[8]

Árið 1992 kom önnur sjálfstæða breiðskífa hljómsveitarinnar út en hún hlaut nafnið Little Ol' Cowgirl. Með henni fikraði sveitin sig nær nútímalegum kántríhljómi. Einnig réði sveitin til sín auka hljóðfæraleikara til að þróa hljómmeiri tónlist sem hentaði betur með stærri og nútímalegri útsetningum.

Á meðan Maguire og Robison veltu möguleikunum fyrir sér gátu stóru útgáfufyrirtækin ekki gert upp hug sinn hvort þau ættu að taka áhættuna á að gera samning við hljómsveit sem samanstóð einungis af konum. Nokkrir tónlistargagnrýnendur tóku þó eftir sveitinni:

„Sumir forstjórar útgáfufyrirtækja eiga eftir að reka sjálfa sig fljótlega því Dixie Chicks eru drottningar honky-tonk-stefnunnar. Ef tónleikarnir þeirra í Birchmere í síðustu viku var einhverskonar vísbending þá eiga þessar píur eftir að gera það gott; þrátt fyrir að ekkert stóru útgáfufyrirtækjanna hafi stokkið í djúpulaugina og gert við þær samning.“
 
— Eric Brace, The Washington Post 30. mars 1992[9]

Lynch, sem hafði verið neydd í hlutverk aðalsöngkonu á þriðju breiðskífu sveitarinnar, Shouldn't a Told You That sem kom út árið 1993, náði ekki að stækka áhangendaskara sveitarinnar út fyrir Texas og Nashville. Tveir meðlimir Dixie Chicks yfirgáfu sveitina, Lynn og Lynch. Lynn leist ekki á þá þróun sem var að verða í tónlist sveitarinnar.[10] Lynch vildi hins vegar eyða meiri tíma heima með dóttur sinni. Á þessum tíma kynnti stálstrengjagítarleikarinn Lloyd Maines hljómsveitina fyrir dóttur sinni, Natalie, sem var einnig upprennandi tónlistarmaður.[11] Natalie kom síðar í stað Lynch sem aðalsöngkona.[12]

Nýr umboðsmaður sveitarinnar, Simon Renshaw, náði tali af Scott Simon útgefanda og skrifaði undir þróunarsamning við Nashville-deild Sony Music Entertainment. Samningurinn var fullgiltur sumarið 1995.[11]

Nú breyttist ímynd sveitarinnar með mannabreytingum; þær skildu við kúrekaímyndina og sveitin tók upp hefðbundnara tónlistarútlit og höfðaði þannig til stærri hlustendahóps.[5] Renshaw sendi Blake Chancey til Austin til að vinna að upptökum með hljómsveitinni.

Núverandi Dixie Chicks[breyta | breyta frumkóða]

Velgengni með nýju söngkonunni[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Natalie Maines gekk í raðir sveitarinnar breyttist hljóðfæraskipan lítið, nema hvað Natalie lék ekki á kontrabassa. Þess í stað lék hún á kassa- og rafmagnsgítar en einnig á rafbassa eða lítinn gítar á tónleikum. Maguire, fiðluleikari Dixie Chicks sagði: „Hljómurinn er mjög upprunalegur en svo kom Natalie inn með rokk- og blúsáhrif. Það gaf okkur Emily tækifæri á að breyta til því við elskum þessar tónlistarstefnur en okkur fannst hljóðfærin okkar einskorða okkur.“[13]

Næsta árið kom Sony til Austin til að hlusta á hinar endurbættu Dixie Chicks og voru staðráðnir í að skrifa undir langtímasamning við hljómsveitina. Dixie Chicks voru valdar sem fyrsta nýja hljómsveitin hjá hinu nýstofnaða Monument Records. Smáskífan „I Can Love You Better“ var gefin út í október 1997 og komst í topp 10 á bandaríska kántrí-vinsældalistanum. Smáskífunni var fylgt eftir með breiðskífunni Wide Open Spaces og hún kom út 23. janúar 1998.[14] Breiðskífan Wide open spaces varð til þess að áheyrendafjöldi hljómsveitarinnar stækkaði; fyrst og fremst samanstóð hann af ungum konum sem gátu séð sjálfar sig í bæði hljómsveitarmeðlimum og textum þeirra.

Árið 1998 seldu Dixie Chicks fleiri geisladiska en allir aðrir kántrílistamenn samanlagt.[15] Árið 1999 hlaut sveitin verðlaun frá Country Music Association[16], Academy of Country Music og síðast en ekki síst sín fyrstu Grammy-verðlaun.

Áframhaldandi velgengni og tónleikaferðlög[breyta | breyta frumkóða]

Dixie Chicks gáfu út næstu breiðskífu sína, Fly, 31. ágúst 1999. Sú skífa fór beint inn í efsta sæti Billboard 200-vinsældalistans og seldist í meira en 10 milljón eintökum. Þannig urðu Dixie Chicks eina kántrí-hljómsveitin og eina kvennasveitin, í öllum geirum tónlistar, sem kom tveimur hljómplötum í röð í platínuverðlaun fyrir mikla sölu.[14] Vegna þessa góða gengis hafa hljómplötur sveitarinnar ítrekað komist inn á lista yfir 50 mest seldu plötur í sögu Bandaríkjanna, jafnvel hálfum áratug eftir að þær komu út.[17] Fly hlaut aftur Grammy-verðlaun og viðurkenningar frá Country Music Association og Academy of Country Music.[18] Hljómsveitin var aðalatriðið í fyrstu tónleikaferð sinni, Fly Tour.[19]

Ástæðurnar að velgengni Dixie Chicks voru margar: þær sömdu eða tóku þátt í að semja helming allra laganna á Wide Open Spaces og Fly; þær blönduðu saman bluegrass, meginstefnu kántrítónlistar, blús og poppi sem höfðaði til breiðari hóps en einnig höfðu þær breytt um framkomu: áður voru þær klæddar sem kúrekastelpur (cowgirls) með Lynch í farabroddi en voru nú klæddar nútímalegri fötum.[5]

Meðal laga plötunnar Fly, varð „Cowboy Take Me Away“ eitt af þekktustu lögum sveitarinnar. Hins vegar áttu tvö lög af plötunni þátt í því að útskúfa Dixie Chicks af listum útvarpsstöðva. Þetta voru „Sin Wagon“ þar sem orðið „dýnudans“ (e. mattress dancing) fór fyrir brjóstið á mörgum, og hins vegar „Goodbye Earl“. Goodbye Earl segir frá morði tveggja vinkvenna á ofbeldisfullum eiginmanni annarrar þeirra.[20] Eitthvað var um ósætti um slík lög en tríóið vildi þó ekkert eftir gefa.

Deilur við útgáfufyrirtækið[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa gefið út tvær feikilega vinsælar plötur flæktust Dixie Chicks inn í deilur við útgáfufyrirtækið þeirra, Sony. Deilurnar snérust um bókhaldssvik og að Sony hefði í að minnsta kosti 30 tilvikum undirborgað þeim um alls 4 milljónir Bandaríkjadala vegna höfundarlauna af plötunum þeirra frá síðustu þremur árum.[21] Sony stóð á sínu og Dixie Chicks gengu út úr samningnum. Þá kærði Sony hljómsveitina fyrir ólöglegt brot á samningi.[22] Dixie Chicks svöruðu með því að eyða 4,1 milljón Bandaríkjadala í eigin málaferli gegn Sony Music Entertainment 27. ágúst.[23] Við bættust svo kröfur frá söngvurunum Courtney Love, Aimee Mann og LeAnn Rimes gegn tónlistariðnaðinum.[24] Eftir margra mánaða samningaviðræður sættust Dixie Chicks á að höfða einkamál og fengu að launum eigin útgáfufyrirtæki, Open Wide Records, sem gaf þeim meiri stjórn, betri samning og auknar tekjur, en Sony var áfram ábyrgur fyrir markaðssetningu og dreifingu breiðskífanna.[15][25]

„Ég held að engin okkar hafi nokkurn tímann treyst Nashville. Þegar þú ert í þeim bæ skynjarðu að allir eru að tala um alla aðra. Allir vona að hinir eigi eftir að mistakast.“
 
— Martie Maguire, í The Los Angeles Times, 21. mars 2006.[26]

Áframhaldandi velgengni með öðru hljóði í skrokknum[breyta | breyta frumkóða]

Á meðan Dixie Chicks útkljáðu mál sín við Sony komu þær stöllur fram í sjónvarpssendingunni America: A Tribute to Heroes eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Þar fluttu þær lagið „I Believe In Love“ sem síðar átti eftir að koma út á næstu plötu sveitarinnar, Home. Sú plata var gefin út undir útgáfufyrirtæki þeirra, Open Wide Records og dreift af Sony. Hljómsveitin var án pressu frá Sony við gerð plötunnar og meðlimir sveitarinnar sömdu lög sem stóðu þeim nærri. Lögin sem þær sömdu ekki sjálfar voru fengin frá höfundum sem lögðu ekki eins mikið upp úr eigin frægð og frama.[27] Útkoman var sem áður segir Home, sjálfstætt unnin af Lloyd Maines og stúlkunum. Platan kom út 27. ágúst 2002.[14] Þessi plata samanstendur af hraðari bluegrass-skotnum ballöðum en er að finna á fyrri plötum sveitarinnar. Platan vann tvö Grammy-verðlaun, en náði ekki demantssölu eins og hinar tvör plöturnar. Natalie Maines sagði seinna: „Mig langar að skoða heimsmetabækurnar og sjá hversu mörg feðgin hafa unnið Grammy-verðlaun saman.“[28]

Í sjónvarpinu 2002[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2002 voru tvær stórar umfjallanir um Dixie Chicks í sjónvarpi. Annars vegar An Evening with the Dixie Chicks sem voru órafmagnaðir tónleikar sem að mestu leyti samanstóðu af efni af Home. Hins vegar var það umfjöllun Country Music Television, 40 Greatest Women of Country Music, sem taldi upp 40 áhrifríkustu konur innan kántrítónlistar. Dixie Chicks voru í 13. sæti af 30 og voru „valdar af hundruðum tónlistarmanna, tónlistarsagnfræðinga, tónlistarblaðamanna og atvinnumanna í tónlistariðnaði - litið var á alla þá þætti sem gera frábærann tónlistarmann að því sem hann er.“[29]

Top of the World[breyta | breyta frumkóða]

Natalie Maines og Emily Robison á tónleikum í Royal Albert Hall í London í september 2003

Hljómsveitin fór í tónleikaferðalag, sem þær kölluðu Top of the World eftir samnefndu lagi eftir Patty Griffin, til að kynna plötuna. Þetta var hápunktur í tónlistarferli Dixie Chicks og að lokum var tónleikaferðalagið tekið upp og gefið út í tvennu lagi: annars vegar sem breiðskífa (Top of the World Tour: Live) og hins vegar sem DVD-diskur en hvort tveggja kom út árið 2003.[25] Hljómsveitin lék einnig í útvarpsþættinum Grand Ole Opry. Þar á meðal var lagið „Landslide“ eftir Fleetwood Mac sem Dixie Chicks tóku síðar upp sem tónlistarmyndband og höfundur lagsins, Stevie Nicks, söng það með þeim á VH1-tónleikunum Divas Live í Las Vegas. Í byrjun árs 2003 spiluðu þær einnig „Star Spangled Banner“ á Super Bowl XXXVII.

Pólítískar deilur[breyta | breyta frumkóða]

Ummæli um George Bush og stríðið í Írak[breyta | breyta frumkóða]

Á miðjum tónleikum í Lundúnum sagði Natalie Maines meðal annars: „Bara svo þið vitið það, þá skömmumst við okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna skuli vera frá Texas“.[30] Ummælin þóttu fyrir utan alla ramma sem að kántrítónlist setur sér. Slík gagnrýni þekktist ekki í kántrítónlist, en var aftur á móti þekkt í popptónlist og víðar.[31] Aukinheldur keypti almenningur ekki lengur plötur hljómsveitarinnar. Í kjölfarið sagði Mains þann 12. mars að henni fyndist forsetinn hunsa skoðanir Bandaríkjamanna [32], en dró tveimur dögum síðar þessi ummæli tilbaka með afsökunarbeiðni. „Sem áhyggjufullur Bandaríkjamaður vil ég biðja Bush forseta afsökunar því ummæli mín voru dónaleg [...] Við erum núna í Evrópu og upplifum mikla andstöðu gegn stríði Bandaríkjamanna.“[33]

Þó svo að sumir hafi verið vonsviknir yfir því að Maines skyldi biðjast afsökunar, héldu aðrir áfram baráttu sinni gegn hljómsveitinni. Þá var helst verið að láta reiðina bitna á fyrri plötum sveitarinnar.[34] Bruce Springsteen og Madonna fundu bæði fyrir þörf hjá sér að styðja hljómsveitina og tjáningarfrelsi hennar.[35][36]

Barist á móti[breyta | breyta frumkóða]

Dixie Chicks á tónleikum í Madison Square Garden en þeir voru hluti af Top of the World-tónleikaferðalaginu

24. apríl 2003 ýttu Dixie Chicks kynningarherferð úr vör til að kynna stöðu sína. Í viðtali við sjónvarpskonuna Diane Sawyer sagðist Maines vera stolt af upphaflegum ummælum sínum. Hljómsveitarmeðlimir sátu einnig naktar fyrir á forsíðu Entertainment Weekly sem kom út 2. maí en á líkama þeirra höfðu verið skrifuð ýmis orð sem höfðu með fjaðrafokið að gera, s.s. „Dixie-hórur“, „stoltir Bandaríkjamenn“, „friður“, „þegiði!“ og fleiri.[37]

Bush forseti svaraði ummælum hljómsveitarinnar í viðtali við Tom Brokaw 24. apríl með orðunum: „Dixie Chicks er frjálst að tjá hug sinn. [...] Mér er í raun sama hvað Dixie Chicks sögðu.“[38]

Ummæli Bush breyttu ekki skoðun Bandaríkjamanna, því í undirbúningi tónleikaferðalags hljómsveitarinnar um Bandaríkin fengu þær hótunarbréf sem leiddi til þess að málmleitarhlið voru sett upp á tónleikarstöðum.[39] Engin atvik komu þó upp á fyrstu tónleikunum[40], en það breyttist fyrir tónleikana í Dallas. Fyrir tónleikana fékk hljómsveitin hótunarbréf, og fékk lögreglufylgd til og frá tónleikastaðnum.[41]

6. maí var tveimur útvarpsmönnum vikið úr starfi sínu í útvarpsstöð í Kólóradó fyrir að spila lög með Dixie Chicks.[42]

Hljómsveitin hélt áfram að berjast gegn óréttlæti í sinn garð, með því að koma fram og ánöfnuðu fé til atburða sem skipulagðir voru til að berjast gegn ríkisstjórn George Bush. Þær gáfu alls 10 þúsund dollara til að hanna hluta af Rock the Vote-vefsíðunni í því skyni að auka hlutfall ungra kvenna sem skrá sig til að kjósa í kosningum í Bandaríkjunum.[43] Hljómsveitin tók jafnframt þátt, haustið 2003, í sjónvarpsauglýsingu fyrir styrktaraðila sinn Lipton. Auglýsingin var ádeila á það að fyrirtækið lenti í álitsnekkjum vegna deilna þeirra.

Í viðtali við þýska tímaritið Der Spiegel í september 2003 sagði Martie Maguire meðal annars: „Okkur finnst við ekki vera hluti af kántrívettvanginum lengur, það getur ekki verið heimavettvangur okkar lengur.“ Hún nefndi meðal ástæðna lélegan stuðning frá kántrístjörnum og það að þeim hefði verið illa tekið á ACM-verðlaunahátíðinni 2003.[44]

Fyrir deiluna neitaði hljómsveitin að taka þátt í National Celebrity Cabinet of the Red Cross, sem er hefðbundna leiðin fyrir fólk í skemmtanabransanum til að styðja Rauða krossinn.[45] Árið 2003 neitaði Bandaríkjadeild Rauða krossins að setja nafn sitt við tónleikaferð sveitarinnar, gegn milljón dollara framlagi frá hljómsveitinnni. Slík tengsl myndu brjóta tvær mikilvægustu reglur þeirra, óhlutdrægni og hlutleysi.[46] Stelpurnar sungu lagið „I Hope“ árið 2005 í Shelter from the Storm: A Concert for the Gulf Coast-sjónvarpssendingunni í september 2005. Ágóði af sölunni rann til Habitat For Humanity og í sjóð American Federation of Musicians sem ætlaður var til að styrkja hamfarasvæðin við Mexíkóflóa; í stað þess að styrkja Rauða krossinn.[47]

Í október 2004 tóku Dixie Chicks þátt í Vote for Change-ferðalaginu og komu fram á tónleikum sem vefsíðan MoveOn.org skipulagði í barátturíkjunum (swing states). Á tónleikum sem hljómsveitin lék með James Taylor gekk allt eins og í sögu en á öðrum tónleikum kom í ljós óöryggi hjá Natalie Maines um framtíð Dixie Chicks.[40][48]

Árið 2005 slóust Maguire, Robison og Maines í hóp 31 annarra listamanna, meðal annars Dolly Parton, Christina Aguilera, Yoko Ono og Mandy Moore, og studdu ástarsambönd af öllum gerðum; hvort sem litið var til kynhneigðar eða kynsemdar (e. gender identity). Saman gáfu listamennirnir út tveggjadiska breiðskífu, Love Rocks, en á þeirri plötu var lagið „I Belive In Love“ (af Home).[49]

Endurkoma[breyta | breyta frumkóða]

Mikið var fjallað um það hvernig nýju breiðskífunni yrði tekið af kaupendum. Taking the Long Way kom í búðir og netverslanir 22. maí 2006. Breiðskífan náði gullsölu strax í fyrstu vikunni þrátt fyrir litla útvarpsspilun á þeim svæðum sem höfðu eitt sinn fyrirlitið þær. Dixie Chicks urður fyrsta kvennahljómsveitin sem komu þremur breiðskífum beint í fyrsta sæti vinsældalistans.[50]

Hljómsveitin ákvað við tökur plötunnar að vilja minni og ákveðnari aðdáendahóp. Mörg af lögunum á breiðskífunni fjalla óbeint um deilurnar í kringum Dixie Chicks. Maguire dró jafnframt síðar tilbaka afsökunarbeiðni sína til Bush forseta. „Ég baðst afsökunar á því að vanvirða forsetaembættið en ég ber ei lengur þær tilfinningar. Mér finnst hann ekki eiga skilið neina virðingu.“[51]

Lögin „Not Ready to Make Nice“ og „Everybody Knows“ voru að mestu hundsuð af bandarískum kántríútvarpsstöðvum og komust ekki í efstu 35 sætin á Hot Country Songs-vinsældalistanum. Emily Robinsson tjáði sig um lítinn stuðning frá öðrum kántrílistamönnum og skildi ekki alla þessa föðurlandsást sem er svo sterk í Bandaríkjunum.[52] Í Evrópu urðu lögin tvö hins vegar mjög vinsæl á kántríútvarpsstöðvum og komust hæst í 13. og 11. sæti. Hvort lagið um sig var meira en 20 vikur á evrópska kántrívinsældalistanum.[53]

Tónlistarferðalag breiðskífunar kallaðist Accidents & Accusations Tour. Mikið seldist af miðum í Kanada og sumsstaðar í norðausturhluta Bandaríkjanna. Salan var hins vegar léleg á öðrum stöðum.[54] Í ágúst var nýtt tónleikaskipulag kynnt og var þá meiri áhersla lögð á tónleika í Kanada úr því að platan var komin í fimmfalda platínusölu þar í landi.[55] Þegar hljómsveitin hélt tónleika í Shepherds Bush Empire, sama stað og „deilurnar“ hófust, gantaðist Maines með að hún vildi segja eitthvað sem áheyrendur hefðu ekki heyrt áður. Þess í stað sagði hún: „Bara svo þið vitið það; þá skömmumst við okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna skuli vera frá Texas“. Áheyrendur svöruðu með hlátri og lófataki.[56]

Hljómsveitin var svo tilnefnd sem „Besta söngsveitin“ á verðlaunahátíð Country Music Association en tapaði fyrir Rascal Flatts.[57]

Shut Up and Sing[breyta | breyta frumkóða]

Heimildamyndin Dixie Chicks: Shut Up and Sing var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto 2006. Heiti myndarinnar var tekið úr texta „Not Ready to Make Nice“. Í myndinni er fylgst með Dixie Chicks um þriggja ára skeið frá því á tónleikunum í London þegar uppþotin í kringum þær byrjuðu. Í henni er fjallað um tónlistarlíf sem og einkalíf kvennana en einnig deilurnar sem spunnust í kringum þær.[58]

Auglýsingu um kvikmyndina var hafnað af NBC 27. október 2006 og var vísað í að reglur um að ekki ætti að auglýsa „almennar deilur“. Auglýsingunni var einnig hafnað af CW. Minni samstarfsfélög allra fimm stóru fjölmiðlanna í Bandaríkjunum, NBC og CW þar á meðal, ráku kynningarherferðir fyrir myndina í New York og Los Angeles, en myndin var frumsýnd í þeim borgum þennan dag.[59] Dreifingaraðili myndarinnar, Harvey Weinstein, sagði: „Það er sorglegt að segja það að hræðslustigið í samfélaginu okkar er orðið svo hátt að mynd um hóp hugrakkra tónlistarmanna, sem voru settar á svartan lista fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt, sé nú sett á svartan lista í Bandaríkjunum.“[59]

Í kjölfarið[breyta | breyta frumkóða]

Í september 2007 kom Maines fram í heimildamyndinni Peter Seeger: The Power of Song sem PBS-sjónvarpsstöðin sendi. Hún sagði að Peter Seeger væri „lifandi testamenti fyrstu bandarísku stjórnarskrárbreytingarinnar“ [þar sem fjallað er um tjáningarfrelsi].[60]

Á útifundi í Little Rock í Arkansas í desember 2007 sagðist Maines styðja svokallað West Memphis-þríeyki sem samanstóð af þremur mönnum sem voru sakfelldir árið 1993 fyrir þrefalt morð. Margir telja mennina þrjá saklausa.[61] Maines vitnaði í nýlegt mál þar sem bent var á Terry Hobbs, stjúpföður eins fórnarlambsins, sem mögulegan morðingja.[61] Í nóvember 2008 kærði Hobbs Maines og Dixie Chicks fyrir meiðyrði í sinn garð.[62] 2. desember 2009 felldi hæstaréttardómari málið gegn Dixie Chicks niður.[63]

Í apríl 2008 stóð til að Dixie Chicks og Toby Keith myndu koma saman og auglýsa herferðina „We“ sem Al Gore stóð fyrir. Við það var svo hætt þegar ekki fannst laus tími hjá báðum aðilum.[64]

Nafnabreyting[breyta | breyta frumkóða]

Þann 25. júní árið 2020 stytti hljómsveitin nafn sitt úr „Dixie Chicks“ í einfaldlega „The Chicks“ vegna gagnrýni um að orðið Dixie bæri með sér skírskotun til þrælahalds í Bandaríkjunum. Orðið Dixie er upphaflega dregið af Mason–Dixon-línunni, sem markaði skilin á milli fylkja Bandaríkjanna þar sem þrælahald var leyft og bannað fyrir Þrælastríðið, en hefur síðan þá einnig orðið gælunafn fyrir suðurríki Bandaríkjanna almennt.[65] Meðlimir hljómsveitarinnar sögðust hafa valið „þetta asnalega nafn“ þegar þær voru táningar og að þær hefðu ætlað sér að breyta því í mörg ár. Ástæðan fyrir því að þær hefðu gert það núna var að þær höfðu séð að fáni Suðurríkjasambandsins var kallaður „Dixie-hakakrossinn“ á samfélagsmiðlum í júní 2020.[66] Hljómsveitin fékk leyfi frá nýsjálenska dúettinum The Chicks fyrir því að nota nýja nafnið.[67][68]

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

Breiðskífur[breyta | breyta frumkóða]

Með Robin Lynn Macy:

Með Laura Lynch:

Með Natalie Maines:

Smáskífur sem komust í Topp 5[breyta | breyta frumkóða]

Ár Lag Sæti
US Country US CAN Country
1997 „I Can Love You Better“ 7 77 3
1998 There's Your Trouble 1 36 3
Wide Open Spaces 1 41 1
1999 You Were Mine 1 34 3
„Tonight the Heartache's on Me“ 6 46 4
„Ready to Run“ 2 39 3
Cowboy Take Me Away 1 27 1
2000 Goodbye Earl 13 19 5
Without You 1 31
2001 „If I Fall You're Going Down With Me“ 3 38
2002 Long Time Gone 2 7
Landslide 2 7
2003 Travelin' Soldier 1 25
2006 Not Ready to Make Nice 36 4 17
The Long Way Around 5

Verðlaun[breyta | breyta frumkóða]

Academy of Country Music Awards[breyta | breyta frumkóða]

  • 2001: Flytjandi ársins
  • 2001: Besta söngsveit árins
  • 2001: Tónlistarmyndband ársins - „Goodbye Earl
  • 2000: Breiðskífa ársins - Fly
  • 2000: Besti dúett eða hljómsveit ársins
  • 1999: Breiðskífa ársins - Wide Open Spaces
  • 1999: Besti dúett eða hljómsveit ársins
  • 1999: Besti nýi dúett eða hljómsveit ársins

American Music Awards[breyta | breyta frumkóða]

  • 2003: Besta kántrísveit, dúett eða hópur
  • 2003: Besta kántríbreiðskífa - Home
  • 2001: Besta kántrísveit, dúett eða hópur
  • 1999: Besti nýi kántríflytjandi

Billboard Music Awards[breyta | breyta frumkóða]

  • 2000: Kántríflytjandi ársins
  • 2000: Besti flytjandi ársins (kántrískífa)
  • 2000: Kántrídúett eða flytjandi ársins
  • 2000: Kántríbreiðskífa ársins - Fly
  • 1999: Kántríflytjandi ársins
  • 1999: Besti flytjandi ársins (kántrískífa)
  • 1999: Kántrídúett eða flytjandi ársins

Country Music Association Awards[breyta | breyta frumkóða]

  • 2002: Söngsveit ársins
  • 2000: Breiðskífa ársins - Fly
  • 2000: Flytjandi ársins
  • 2000: Söngsveit ársins
  • 2000: Tónlistarmyndband ársins - „Goodbye Earl
  • 1999: Smáskífa ársins - „Wide Open Spaces
  • 1999: Söngsveit ársins
  • 1999: Tónlistarmyndband ársins - „Wide Open Spaces
  • 1998: Horizon-verðlaunin
  • 1998: Söngsveit ársins

Country Music Association Flameworthy Awards[breyta | breyta frumkóða]

  • 2002: Video Visionary-verðlaunin

Grammy-verðlaunin[breyta | breyta frumkóða]

Juno-verðlaunin[breyta | breyta frumkóða]

  • 2007: Alþjóðleg breiðskífa ársins - Taking the Long Way[70]

MTV-verðlaunin Rock the Vote[breyta | breyta frumkóða]

  • 2004: Patrick Lippert-verðlaunin fyrir „að verja tjáningarfrelsið“.

People's Choice Awards[breyta | breyta frumkóða]

  • 2002: Uppáhalds hljómsveit

Frönsku kántrítónlistarverðlaunin[breyta | breyta frumkóða]

  • 2002: Besta myndband - „I Believe In Love“

Önnur verðlaun[breyta | breyta frumkóða]

  • 2006: ACLU „Bill of Rights“-verðlaunin[71]

Tónleikaferðlög[breyta | breyta frumkóða]

Sem upphitunarsveit[breyta | breyta frumkóða]

Styrktartónleikar[breyta | breyta frumkóða]

Tónlistarhátíðir[breyta | breyta frumkóða]

Tónleikaferðlög sem aðalsveit[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „RIAA Official Assessment Site“. Sótt 2008.
  2. Kvikmyndin Dixie Chicks: Shut up and Sing
  3. „Dixie Chicks 'Shut Up and Sing' in Toronto“. MSNBC. Sótt 10. ágúst 2006.
  4. Tarnow, Noah. „Dixie Chicks“. Rolling Stone Magazine. 12. janúar (801) (1998): 37.
  5. 5,0 5,1 5,2 Ankeny, Jason. „Dixie Chicks Biography“. Sótt 31. desember 2009.
  6. „Dixie Chicks Fans Net“. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. desember 2003. Sótt 31. desember 2009.
  7. Clark, Renee (1. mars 1992). „Can the Dixie Chicks make it in the big time?“. Dallas Life Magazine (Local Heroes) Dallas Morning News. Sótt 23. mars 2008.
  8. „Past Festival Performers“. Telluride Bluegrass. Sótt 29. október 2010.
  9. Brace, Eric (30. mars 1992). „Dixie Chicks“. The Washington Post. Sótt 28. mars 2008.
  10. „Dixie Chicks Biography“. 8 Note Online. Sótt 10. febrúar 2008.
  11. 11,0 11,1 Willonsky, Robert (23. nóvember 1995). „Red hot“. Dallas Observer. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. júní 2011. Sótt 31. desember 2009.
  12. Dickerson, James L. (2000). Dixie Chicks: Down-Home and Backstage. Taylor Trade Publishing Dallas, Texas. ISBN 0-87833-189-1.
  13. Malkin, Nina. „Martie Maguire“. Sótt 31. desember 2007.
  14. 14,0 14,1 14,2 „Official Dixie Chicks Site“. Sótt 31. desember 2009.
  15. 15,0 15,1 „Dixie Chicks Biography“. Elle Magazine.com. Sótt 30. maí 2008.
  16. „Dixie Chicks Riding High“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2012. Sótt 31. desember 2009.
  17. Willman, Chris (2005). Rednecks & Bluenecks: The Politics of Country Music. ISBN 1595580174.
  18. „Couples Shine At Country Awards“. Sótt 3. febrúar 2008.
  19. „The Dixie Chicks - "The Fly Tour". Sótt 29. október 2010.
  20. „Girls' Power: The triple CMA winners tell EW Online about mattress dancing and other fun facts of life“. 23. september 1999.
  21. „Dixie Chicks sue Sony for $4m“. BBC News. 29. ágúst 2001. Sótt 26. júní 2008.
  22. „Sony sues Dixie Chicks for Breach of Contract“. Sótt 13. júní 2008.
  23. „Fly girls“. Entertainment Weekly. 18. júní 2002. Sótt 29. október 2010.
  24. The Boston Globe 7. október 2001
  25. 25,0 25,1 Leggett, Steve. „All-Music Guide writer“. Sótt 9. mars 2008.
  26. Flippo, Chet (25. maí 2006). „CMT News Nashville Skyline: Dixie Chicks, Dixie Chicks, Dixie Chicks“.
  27. Gillian Flynn og Josh Young. „Face the music“. Sótt 29. október 2010.
  28. Newcomer Jones stuns Grammys BBC
  29. „CMT´s 40 Greatest Women of Country music“. Sótt 29. október 2010.
  30. „Shut Up And Sing: Dixie Chicks' Big Grammy Win Caps Comeback From Backlash Over Anti-War Stance“. Democracy Now!. 2007. Sótt 24. febrúar 2007.
  31. Don Cusic and Peter Szatmary O'er the Land of the Free and the Home of Country Music síðu 3
  32. „Upset About Bush Remark, Radio Stations Dump Dixie Chicks - Entertainment News Story - WCVB Boston“. Sótt 17. júní 2008.
  33. „Dixie Chicks singer apologizes for Bush comment“. CNN. 14. mars 2003. Sótt 2007.
  34. „Dixies dropped over Bush remark“. BBC News. 20. mars 2003. Sótt 30. október 2006.
  35. Havrilesky, Heather. „The Madonna video you can't see on MTV“. Sótt 16. júní 2008.
  36. „Springsteen backs under-fire Dixies“. British Broadcasting Corporation. 28. apríl 2003. Sótt 29. október 2010.
  37. Campbell, Duncan (2003). "'Dixie sluts' fight on with naked defiance" Guardian Unlimited . Retrieved 2006-04-13.
  38. „Dixie Chicks, They´re back and this time they´re really angry“. 25. mars 2006. Sótt 29. október 2010.
  39. „Dixie Chicks 'get death threats'. BBC News. 24. apríl 2003. Sótt 2. mars 2009.
  40. 40,0 40,1 Boucher, Geoff (2004). „Once burned, but not shy“. Los Angeles Times.
  41. „Dixie Chicks recall death threat“. MSNBC. 11. maí 2006. Sótt 2. mars 2009.
  42. „2 DJs suspended for playing Dixie Chicks“. Gazette. Sótt 29. október 2010.
  43. Devenish, Colin (20. september 2003). "Gute Mädchen, böse Mädchen" (þýska). Speigel. Sótt 29. október 2010.
  44. Lewis, Randy (26. september 2003). „The Chicks talk, music fans listen“. Los Angeles Times.
  45. „Myths and Legends about the American Red Cross“. American Red Cross. Sótt 13. febrúar 2009.
  46. Tarradell, Mario (23. júlí 2006). „Hit album eases the sting of country music's barbs for outcast Dixie Chicks“. The Providence Journal. Sótt 2. apríl 2009.
  47. „New Dixie Chicks recording, "I Hope," available as digital download on Tuesday, September 27th“. DixieChicks.com. 26. september 2005. Sótt 18. maí 2009.
  48. Silverman, Stephen M. (4. september 2004). „Springsteen, Stipe Hop On Kerry Bandwagon“. People.
  49. „HRC, Centaur Entertainment to Release 'Love Rocks' CD Feb. 8“. 28. janúar 2005. Sótt 25. maí 2008.
  50. „Dixie Chicks New Album, Taking The Long Way, Debuts At #1 On Billboard Top 200“. Columbia Records. 31. maí 2006.
  51. Tryangiel, Josh (29. maí 2006). „In The Line of Fire“. Time.
  52. Sweeting, Adam (14. júní 2006). „How the Chicks survived their scrap with Bush“. The Daily Telegraph.
  53. „European CMA“.
  54. „Radio, promoter each blames other for cut in Chicks tour“. Houston Chronicle. 15. ágúst 2006.
  55. „Chicks Magnet“. The Washington Post. 19. júní 2006.
  56. Heimildamyndin Dixie Chicks: Shut Up and Sing; í Shepherds Bush, London
  57. „Winners and nominations Vocal group“. CMA Awards.
  58. Koepke, Melora (2. nóvember 2006). „High Notes“. Hour. Sótt 7. apríl 2007.
  59. 59,0 59,1 „NBC rejects TV ads for Dixie Chicks film“. China Daily. 29. október 2006.
  60. Burr, Ty (28. september 2007). „A full, if incomplete, look at life of Pete Seeger“. The Boston Globe.
  61. 61,0 61,1 „Beyond a Reasonable Doubt?“. People. 21. janúar 2008. Sótt 29. október 2010.
  62. Finn, Natalie (4. desember 2008). „Natalie Maines, Fellow Dixie Chicks Courted for Libel“. E! Online. Sótt 7. desember 2008.
  63. „Lawsuit against Dixie Chicks dismissed“. 6. desember 2009.
  64. J. Freedom du Lac (31. desember 2008). „Talk Talk: Toby Keith Unplugged“. The Washington Post.
  65. Amanda Petrusich (13. júlí 2020). „Why the Chicks Dropped Their "Dixie". The New Yorker.
  66. Willman, Chris (8. júlí 2020). „Ex-Dixie Chicks Explain Shortening 'Stupid' Name: 'We Wanted to Change It Years Ago'. Variety. Sótt 8. júlí 2020.
  67. Willman, Chris (25. júní 2020). „Dixie Chicks Officially Change Name to 'The Chicks'. Variety.
  68. Burgham, Lydia (26. júní 2020). „Kiwi band The Chicks on sharing name with The Dixie Chicks“. The New Zealand Herald. Sótt 27. júní 2020.
  69. Home var einnig valin besti upptökupakki en það er veitt upptökustjóra.
  70. „Dixie Chicks, George Canyon Win Juno Awards“. CMT News. 2. apríl 2007. Sótt 13. febrúar 2009.
  71. „Dixie Chicks: It Didn't Take 'Courage' to Stand Up for Free Speech“. ACLU. 14. febrúar 2007.
  72. Concerts and Tours Geymt 26 október 2011 í Wayback MachineHonor earth
  73. „Official Rock the Vote website“. Sótt 19. ágúst 2008.
  74. „Dixie Chicks“. Sótt 24. janúar 2010.
  75. „About - Lilith Fair“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júlí 2010. Sótt 24. janúar 2010.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]