Fara í innihald

Bluegrass

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bluegrass er tónlistarstefna og undirtegund kántrítónlistar sem er mest áberandi í Bandaríkjunum. Hún á rætur sínar að rekja til þjóðlagatónlistar í Skotlandi og Englandi. Margt hefur sett svip sinn á tónlistarstefnuna, til dæmis svartir þrælar í Bandaríkjunum, sem komu þangað með banjóið og átti það eftir að vera eitt mikilvægasta hljóðfærið í bluegrass-tónlist ásamt öðrum órafmögnuðum strengjahljóðfærum eins og mandólíni, fiðlu og gítar. Innflytjendur frá Skotlandi og Englandi komu með fiðlu í farteskinu þegar þau komu til Appalachia sem er svæði austarlega í Bandaríkjunum. Mörg af frægustu lögum stefnunnar má rekja beint til Bretlandseyja.

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðfærin sem setja svip sinn á tónlistarstefnunni eru af mörgum toga en helst má nefna banjó, mandólín, gítar, kontrabassi og munnharpa einstaka sinnum. Banjóið er hljóðfæri með fjórum eða fimm strengjum og á rætur sínar að rekja til nokkurra hljóðfæra frá Afríku. Svartir þrælar í Bandaríkjunum sameinuðu hugmyndina af banjóinu úr hljóðfærum síns heimalands. Banjóið er ekki einungis spilað á í bluegrass-tónlist, en einnig í kántrítónlist og þjóðlagatónlist, sérstaklega írskri.

Mandólín er hluti af lútufjölskyldunni sem á uppruna sinn að rekja til Ítalíu. Hljóðfærið er strengjahljóðfæri sem er annað hvort plokkað eða slegið á. Strengirnir koma oftast í fjórum pörum á nútíma mandólíni. Mörg afbrigði eru til af mandólíni og má þar t.d. nefna banjó-mandólín.

Fiðla er fjögurra strengja hljóðfæri sem má rekja alla leið aftur til níundu aldar. Fiðlan er með háa rödd og er þekktust í klassískri tónlist ásamt því að setja svip sinn á margar aðrar tónlistar stefnur eins og bluegrass. Kontrabassi er í sömu fjölskyldu og fiðlan en er með dýpri rödd. Kontrabassinn er þekktastur í klassískri tónlist en hefur einnig verið áberandi í stefnum eins og djass, rokkabillí og bluegrass.

Munnharpa er lítið hljóðfæri sem hefur sett sinn svip á blús og kántrítónlist og einnig verið áberandi í rokki og djassi. Hljóðfærið lýsir sér þannig að blásið er í gegnum holur og blásturinn hreyfir við kopar eða brons fjöðrum sem titra og gefa frá sér einkennandi harmoníuhljóm munnhörpunnar. Einkennandi söngur bluegrass-stefnunnar er oftast harmónía tveggja, þriggja eða fjögurra raddna.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Frá árunum 1930-1940 voru tónlistarmenn byrjaðir að mynda bluegrass-stefnuna. Bill Monroe er oft nefndur „faðir bluegrass-tónlistar“ en hann stofnaði hljómsveitina Blue Grass Boys þar sem hann söng og spilaði á mandólín og Earl Scruggs spilaði á banjó. Earl Scruggs var frumkvöðull í banjóleik og algengasta aðferð banjóspilara í bluegrass-tónlist kennd við Earl Scruggs. Aðferðin er þriggja fingra plokkun sem er hraðari en það sem áður þekktist og gaf þessi aðferð tónlistinni meiri hraða og kraft. Tæknin sem hann notar er kölluð Scruggs-hljómurinn. Aðrar þekktar hljómsveitir af þessari fyrstu kynslóð voru Foggy Mountain Boys, The Timberliners og Lonesome Pine Fiddlers.

Upp úr 1960 var annar hljómur að myndast í bluegrass-tónlist. Hljómurinn þróaðist og varð hlustendavænni og byrjaði að smitast yfir í aðrar tónlistarstefnur eins og djass og rokk. Framsækið bluegrass leit dagsins ljós með hjálp hljómsveita eins og The Kentucky Colonels og The Dillards. Meðlimur hljómsveitarinnar Grateful Dead, Jerry Garcia sem spilaði á banjó í hljómsveitinni Old and In the Way hjálpaði bluegrass-áhrifum að koma sér inn í rokktónlist þar sem Grateful Dead áttu eftir að vera stór hluti af rokksögu Bandaríkjanna.

Um 1980 var mikil gróska í upptökutækni og voru gæði upptakna farin bætast. Meira varð að plötugerð í bluegrass-heiminum en áður var meira gert úr lifandi tónlist. Rafmagnshljóðfæri ruddu sér veginn inn í stefnuna en aðallega þá rafmagnsbassi í staðinn fyrir hinn hefðbundna kontrabassa. Þótt tækninni hefði farið mikið fram þá var vinsælasta hljómsveit þessa áratugs hin hefðbunda bluegrass-hljómsveit The Johnsons Mountain Boys vinsælust og hún tileinkaði sér ekki nýju hefðinnar.

Bluegrass-tónlist nær í dag til stærri hóps hlustenda en áður fyrr og má því þakka að kántrítónlist er ein vinsælasta stefna Bandaríkjanna og hafa vinælar kántrístjörnur tekið upp sínar bluegreass-plötur, má þar nefna Dolly Parton, Patty Loveless og Allison Krauss.

Árið 2000 kom út mynd Coen-bræðra O Brother, Where Art Thou? og innihélt hún kántrí- og bluegrass-lög. Kvikmyndin og platan með tónlistinni úr myndinni vöktu mikla lukku og hirti platan Grammy-verðlaun fyrir vikið.

Bluegrass-stefnur[breyta | breyta frumkóða]

Hefðbundið bluegrass[breyta | breyta frumkóða]

Einfaldasta mynd nútímabluegrass. Hljóðfæraskipan er í hefðbundnu lagi og er eingöngu notast við órafmögnuð hljóðfæri. Þótt hljóðfæraskipan sé hefðbundin þá mega hljóðfæraleikarar nýta nútímatækni og aðferðir. Lögin eru oftast eins einföld og hægt er og eru textanir ekki undantekning.

Framsækið bluegrass[breyta | breyta frumkóða]

Í þessari stefnu er notast við rafmögnuð hljóðfæri og tækni. Framsækið bluegrass lög eru mjög skyld rokki og jazzi. Þótt framsækna bluegrassið sé öðruvísi og á næstum engan máta hefðbundið þá er hægt að rekja það til fyrstu bluegrass hljómsveitanna. Þegar Earl Scruggs spilaði á banjó í Foggy Mountain Boys þá voru miklar gripa og taktbeytingar sem framsæknu bluegrass hljóðfæraleikarar tileinkuðu sér seinna meir.

Gospel-bluegrass[breyta | breyta frumkóða]

Gospel-bluegrass hefur oft verið nefnd þriðja bluegrass-undirtegundin því margir tónlistamenn tileinkuðu sér hana helst þá Bill Monroe („faðir bluegrass“). Textanir voru trúarlegir og lögin róleg, mikil innlifun var í söngnum.

Aðrar stefnur[breyta | breyta frumkóða]

New grass eins og það er kallað er bluegrass blandað við pönk tónlist. Nútímabragur er í stefnunni og heyrist það á söngnum og hljóðfæraskipan því oftast er gítar í forgang í staðinn fyrir fiðluna eða banjóið og mikill og hraður trommur heyrist í bakgrunn. Nýhefðbundið bluegrass stefnan er nýlega byrjuð að myndast og er einkennandi fyrir stefnuna að hafa bara einn söngvara. Hljómsveitir sem má nefna innan stefnunnar eru The Grascals og Cherryholmes.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Britannica:Bluegrass“. Sótt 2012.
  • „Bluegrassmuseum:Historyofbluegrass“. Sótt 8. mars 2012.
  • „Folksmusic:Bluegrasshistory“. Sótt 8. mars 2012.
  • „Ibma:AboutBluegrass“. Sótt 11. mars 2012.
  • „Beanblossom:Bluegrassmusic“. Sótt 11. mars 2012.
  • Bob Artis (1975). Bluegrass : from the lonesome wail of a mountain love song to the hammering drive of the Scuggs-style banjo, the story of an American musical tradition. Hawthorn Books. ISBN 0-8015-0758-8.
  • Carl Fleischhauer og Neil V. Rosenberg (2001). Bluegrass odyssey : a documentary in pictures and words, 1966-86. Urbana : University of Illinois Press. ISBN 0252026152.