Fara í innihald

Cooks-eyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Cookeyjar)
Cook Islands
Fáni Cooks-eyja Skjaldarmerki Cooks-eyja
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Te Atua Mou E
Staðsetning Cooks-eyja
Höfuðborg Avarúa
Opinbert tungumál enska, cooks-eysk maóríska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Konungsfulltrúi Tom Marsters
Forsætisráðherra Mark Brown
Samstarfsríki Nýja-Sjálands
 • Sjálfstjórn 4. ágúst, 1965 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

236,7 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2016)
 • Þéttleiki byggðar

17.459
42/km²
VLF (KMJ) áætl. 2010
 • Samtals 0,2441 millj. dala
 • Á mann 12.300 dalir
Gjaldmiðill nýsjálenskur dalur (NZD)
Tímabelti UTC -10
Þjóðarlén .ck
Landsnúmer +682

Cooks-eyjar eru eyríki í Suður-Kyrrahafi, með sjálfstjórn en í frjálsu sambandi við Nýja-Sjáland. Eyjarnar eru fimmtán talsins og samtals um 240 km² að stærð. Landhelgi þeirra nær yfir tæpar 2 milljónir ferkílómetra.[1] Eyjarnar heita eftir James Cook skipstjóra sem sá þær árið 1770. Þær voru gerðar að bresku verndarsvæði árið 1888, en árið 1900 var stjórn eyjanna færð undir Nýja-Sjáland.

Nýja-Sjáland fer með utanríkis- og varnarmál eyjanna í samráði við stjórn þeirra.[2] Síðustu ár hafa eyjarnar í vaxandi mæli tekið sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkismálum.[3] Cookseyingar hafa ríkisborgararétt á Nýja-Sjálandi auk Cooks-eyja, en Nýsjálendingar njóta ekki sömu réttinda á Cooks-eyjum. Cooks-eyjar hafa verið aðilar að Kyrrahafssambandinu frá 1980.

Helstu byggðirnar á Cooks-eyjum eru á Rarotonga, þar sem um 13.000 íbúar eru[4] og þar sem Alþjóðaflugvöllurinn á Rarotonga er. Fleiri Cookseyingar búa á Nýja-Sjálandi en Cooks-eyjum, en rúmlega 60.000 íbúa Nýja-Sjálands töldu sig vera Cookseyinga árið 2013.[5]

Ferðaþjónusta er höfuðatvinnuvegur eyjanna sem tóku á móti um 170.000 ferðamönnum árið 2018.[6] Aðrar útflutningsgreinar eru fjármálaþjónusta, perlur, sjávarfang og ávextir.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Cooks-eyjar eru í Suður-Kyrrahafi, norðaustan við Nýja-Sjáland, á milli Frönsku Pólýnesíu og Bandarísku Samóa. Helstu eyjarnar eru 15, en auk þeirra eru tvö rif. Eyjarnar eru dreifðar um 2,2 milljón ferkílómetra hafsvæði og skiptast í tvo meginhópa: Norður-Cooks-eyjar og Suður-Cooks-eyjar.

Norðureyjarnar eru eldri. Þær eru sokkin eldfjöll með kóröllum sem hafa myndað hringrif umhverfis toppinn. Loftslag er blanda af úthafsloftslagi og hitabeltisloftslagi. Frá mars til september eru eyjarnar í leið fellibylja. Þeir helstu síðustu ár eru Martin 1997 og Percy 2004 sem ollu miklu tjóni á eyjunum. Á eyjunum eru tvö vistsvæði: miðpólýnesísku hitabeltisrakaskógarnir og cookseysku hitabeltisrakaskógarnir.

Hópur Eyja Stærð
km²
Íbúar Þéttleiki
Norður Penrhyn 10 226 22,6
Norður Rakahanga 4 80 20,0
Norður Manihiki 5 213 42,6
Norður Pukapuka 1 444 444.0
Norður Tema-rif (sokkið) 0 0 -
Norður Nassau 1 78 78,0
Norður Suwarrow 0 0 0,0
Suður Palmerston 2 58 28,0
Suður Aitutaki 18 1.928 107,1
Suður Manuae 6 0 0,0
Suður Takutea 1 0 0,0
Suður Mitiaro 22 155 7,1
Suður Atiu 27 437 16,2
Suður Mauke 18 297 16,5
Suður Winslow-rif (sokkið) 0 0 -
Suður Rarotonga 67 13.044 194,7
Suður Mangaia 52 499 9,6
Alls Alls 237 17.459 73,7

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Á Cooks-eyjum eru eyjaráð á öllum byggðu eyjunum nema Nassau sem heyrir undir Pukapuka (Suwarrow, þar sem aðeins einn umsjónarmaður býr, er ekki talin með byggðum eyjum). Bæjarstjóri fer fyrir hverju ráði.

Ráðin á tíu ytri eyjunum eru:
Aitutaki (þar með talin hin óbyggða Manuae)
Atiu (þar á meðal hin óbyggða Takutea)
Mangaia
Manihiki
Ma'uke
Mitiaro
Palmerston
Penrhyn
Pukapuka (þar á meðal Nassau og Suwarrow)
Rakahanga

Neðsta stig stjórnsýslunnar eru þorpsnefndir. Nassau, sem heyrir undir Pukapuka, er með sérstakt eyjaráð sem hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðinu á Pukapuka.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Fisheries, Ecosystems and Biodiversity. Sea Around Us
  2. „Cook Islands push for independence from NZ“. Stuff.co.nz (enska). 30. maí 2015. Sótt 26. júlí 2020.
  3. „Cook Islands“. France in New Zealand. 13. mars, 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 27 júní 2015. Sótt 30. október, 2015. „Since 2001, the Cook Islands have complete sovereignty in managing their Foreign affairs according to the common declaration of 6 April 2001.“
  4. „Census 2016 - Cook Islands - Ministry of Finance and Economic Management“. www.mfem.gov.ck (bresk enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2017. Sótt 11. nóvember 2017.
  5. „2013 Census ethnic group profiles“. Statistics NZ. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. nóvember 2017. Sótt 11. nóvember 2017.
  6. „Cook Islands welcome more visitors“. Radio New Zealand. Febrúar 2019. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. september 2019.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.