Fara í innihald

Innsbruck

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Innsbruck
Staðsetning
Innsbruck er staðsett í Austurríki
Innsbruck
Grundvallarupplýsingar
Sambandsland: Tírol
Stærð: 104,91 km²
Íbúafjöldi: 126.851 (1. janúar 2015)
Þéttleiki: 1.187/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 574 m
Vefsíða: http://www.innsbruck.at

Innsbruck er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Tírol. Íbúar eru 127 þúsund (1. janúar 2015) og er Innsbruck því fimmta stærsta borg Austurríkis. Borgin er mikill skíðabær og eru vetraríþróttir mjög áberandi þar.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Innsbruck liggur við ána Inn í Ölpunum og liggur í Inndalnum. Fjöll einskorða borgina á tvenna vegu. Að norðan eru það Karwendelfjöllin sem ná inn til Þýskalands. Nokkur góð skíðasvæði eru í kringum Innsbruck. Næstu stærri borgir eru Bolzano á Ítalíu til suðurs (115 km), München í Þýskalandi til norðurs (145 km) og Salzburg til norðausturs (170 km). Svissnesku landamærin eru 160 km til vesturs.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Innsbruck sýnir tvo brúarsporða og göngugólf með fjórtán plönkum. Bakgrunnurinn er rauður. Hér er um gömlu brúna yfir Inn að ræða. Oddar brúarsporðana eiga að tákna öldu- og ísbrjótana. Brúin sjálf er frá miðri 12. öld en brúin sem skjaldarmerki og innsigli kom fyrst fram 1267. Núverandi form er frá 1325 en núverandi litir eru frá 1547. Eftir síðasta ártal hefur merkinu ekki verið breytt.

Innsbruck merkir brúin yfir Inn (-bruck = brú, sbr. Brücke á nútímaþýsku).

Saga Innsbrucks

[breyta | breyta frumkóða]
Endurnýjuð brú yfir ána Inn

Á tímum Rómverja var þjóðvegur lagður frá Verona til Ágsborgar um Brennerskarð. Til að tryggja öryggi vegfarenda, var reist herstöð þar sem í dag er Innsbruck. Um 600 e.Kr. var virki þetta eyðilagt af germönum. Innsbruck myndaðist ekki sem þorp fyrr en 1133 er greifarnir af Andechs í Bæjaralandi stofnuðu þar markað og reistu brú yfir ána Inn. Heitið Innsbruck kom fyrst við skjöl 1187. Bærinn hlaut borgarréttindi fyrir 1205 (nákvæm dagsetning ókunn) og lifðu borgarbúar mikið á tollum, enda var Innsbruck á fjölfarinni leið frá Ítalíu til Bæjaralands. Leiðin í gegnum Brennerskarð var þá meðal bestu reiðvega í Ölpunum á þeim tíma.

Greifaaðsetur

[breyta | breyta frumkóða]
Innsbruck 1495. Málverk eftir Albrecht Dürer.

1420 gerði hertoginn Friðrik IV Innsbruck að aðsetri sínu og risu við það margar þekktar byggingar. Síðla á 15. öld dvaldi Maximilian, keisari þýska ríkisins, oft í Innsbruck. Við það risu enn fleiri merkar byggingar. Þar á meðal vopnahúsið, sem var meðal þeirra merkustu í Evrópu. Siðaskiptin náðu sér ekki á strik í Innsbruck. Kaþólska kirkjan hélst sterk og fengu jesúítar að stofna Latínuskóla þar í borg 1562 en hann er elsti framhaldsskóli vesturhluta Austurríkis. 1665 dó tírólska lína Habsborgarættarinnar út. Við það varð Innsbruck ekki lengur greifaaðsetur og breyttist borgarlífið mikið í kjölfarið. Höfuðborg héraðsins Tírol var Merano, sem þá tilheyrði Habsborgarveldinu. Árið 1669 stofnaði Leopold I keisari háskóla í Innsbruck. Honum var tvisvar lokað næstu aldir en í bæði skiptin opnaður á ný.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]

1849 tók Innsbruck aftur við af Merano sem höfuðborg Tírols. 1858 fékk borgin járnbrautartengingu á línunni Kufstein – München. Níu árum síðar var keyrði járnbraut í fyrsta sinn yfir Brennerskarð til suðurs. Í kjölfarið varð Innsbruck að vinsælli ferðamannaborg, enda náttúrufegurð mikil í fjöllunum. 1918 hertóku Ítalir borgina eftir tap Þýskalands og Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri og héldu henni í sex ár. Í heimstyrjöldinni síðari gerðu bandamenn 22 sinnum loftárásir á Innsbruck. Í stríðslok 1945 var Innsbruck ein af fáum austurrísku borgum sem gáfust bardagalaust upp fyrir bandamönnum. Það var bandarísk herdeild sem hertók borgina 3. maí. Um sumarið tóku Frakkar við, enda lá borgin á franska hernámssvæðinu. 1955 varð Austurríki aftur lýðveldi og hurfu Frakkar þá úr borginni. Innsbruck varð aftur að höfuðborg Tírols. Tvisvar eftir þetta hefur Innsbruck verið vettvangur vetrarólympíuleikanna, fyrst 1964 og svo 1976. Árið 1988 sótti Jóhannes Páll páfi II borgina heim.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Skíðastökkpallurinn Bergisel

Innsbruck er mikil skíðaborg. Síðan 1952 fer þar eitt helsta skíðastökkmót Evrópu fram. 1964 og 1976 fóru vetrarólympíuleikarnir fram í borginni. 2012 fara þar fram vetrarólympíuleikar unglinga. Í borginni fór fram HM í íshokkí 2005. Ein mesta snjóbrettakeppni Evrópu, Air & Style, er haldin árlega í Innsbruck síðan 1993. Af öðrum íþróttum má nefna að í Innsbruck fór fram EM í blaki 2011 (ásamt Vín, Prag og Liberec), HM í ruðningi (ásamt Vín og Graz) og var ásamt öðrum borgum þátttakandi í EM í knattspyrnu 2008 og EM í handbolta 2010. Af félagsíþróttum er fótbolti, handbolti og ruðningur mjög fyrirferðamiklar í borginni.

Innsbruck viðheldur vinabæjartengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Sigurboginn er eitt helsta kennileiti Innsbruck
  • Dómkirkjan í Innsbruck er kaþólska aðalkirkjan í miðborginni. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær hún var reist en „kirkja við torgið“ (ecclesia in foro) er nefnd í heimildum 1181. Dómkirkjan kemur fyrst við skjöl svo öruggt sé 1270 og kallast þá Kirkja heilags Jakobs. Eitt þekktasta listaverk kirkjunnar er Maríumynd eftir Lucas Cranach eldri frá 1650 en myndin ein olli því að fjöldi fólks flykktist sem pílagrímar til kirkjunnar næstu aldir. Árið 1689 stórskemmdist kirkjan í jarðskjálfta og var lagfærð og endurbætt 1717-1724 í barokkstíl. 1944 skemmdist kirkjan á ný í loftárásum seinna stríðsins. 1964 varð Innsbruck að biskupsdæmi og var því kirkjan að dómkirkju.
  • Hofkirche er einnig kölluð Fransiskanakirkjan eða Svartramannakirkjan. Hún er kaþólsk og stendur í miðborginni. Kirkjan var hugmynd keisarans Maximilians I, sem vildi vera vera grafinn í Tírol, sem hann tók ástfóstri á. Maximilian lét útbúa 40 stórar bronsstyttur af meðlimum fjölskyldu sinnar, verndara kristninnar og ýmsum ríkjandi furstum, til að þær yrðu settar upp í kirkjunni. Þegar til kom var Maximilian hins vegar grafinn í Wiener Neustadt að eigin beiðni. Hofkirkja var reist af barnabarni Maximilians, keisaranum Ferdinand I, á árunum 1553-63 og voru stytturnar þá settar upp þar. Orgelið er frá 1580 og er stærsta endurreisnarorgel Austurríkis og með eldri kirkjuorgelum landsins. 1655 flutti Kristín, drottning Svíþjóðar, til Austurríkis og lét formlega skíra sig til kaþólsku kirkjunnar í Hofkirche. Í kirkjunni er Andreas Hofer grafinn, þjóðhetja Tírol, en líkamsleifar hans voru settar í kirkjuna 1823.
  • Goldenes Dachl (Gullna þakið) er fagurt hús í miðborginni og er einkennisbygging borgarinnar. Húsið var reist 1420 sem aðsetur fyrir furstana. 1497-1500 var hinum fögru svölum og gullna þakinu bætt við. Þakið er gert úr 2.657 gullhúðuðum koparplötum og glitrar á því. Auk þess eru freskur á ytri múrum. Þær sýna keisarann Maximilian (sem reyndar lét reisa svalirnar og þakið), konur hans, hirðfífl, dansara og skjaldarmerki. 1996 var safn innréttað í húsinu.
  • Hofburg er kastali í miðborginni og var aðalaðsetur furstanna eftir lok miðalda. Það var Sigmundur greifi af Tírol sem lét reisa bygginguna, en keisarinn Maximilian I lét stækka hana verulega og skreyta. María Teresía lét færa kastalann í rókókóbúning. Hún var tvisvar í Innsbruck. Í síðara skiptið var hún mætt á giftingu sonar síns, Leopolds II, í þessum kastala. Meðan brúðkaupið stóð yfir lést eiginmaður hennar. Herberginu sem hann lést í var breytt í kapellu. Kastalinn er að hluta opinn almenningi.
  • Sigurboginn er meðal þekktustu bygginga Innsbruck. Hann var reistur 1765 af tilefni brúðkaups erkihertogans Leopolds (sonar Maríu Teresíu) og spænsku prinsessunnar Maríu Lúdóvíku. Boginn er gerður úr grjóti sem var tekið úr gamla borgarmúrnum eða borgarhliðum. Myndefnið á sigurboganum tengist Habsborgarættinnni. Þar sem eiginmaður Maríu Teresíu lést í brúðkaupinu var sogarmyndefni bætt við í boganum. Boginn stendur við Maria-Theresien-Strasse og er akvegur í gegnum hann.