Fara í innihald

Joseph McCarthy

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Joseph McCarthy
McCarthy árið 1954.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Wisconsin
Í embætti
3. janúar 1947 – 2. maí 1957
ForveriRobert M. La Follette Jr.
EftirmaðurWilliam Proxmire
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. nóvember 1908
Grand Chute, Wisconsin, Bandaríkjunum
Látinn2. maí 1957 (48 ára) Bethesda, Maryland, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiJean Kerr (g. 1953)
Börn1
HáskóliMarquette-háskóli
Undirskrift

Joseph Raymond McCarthy (14. nóvember 1908 – 2. maí 1957) var bandarískur stjórnmálamaður sem var öldungadeildarþingmaður Repúblikana fyrir Wisconsin frá 1947 til dauðadags. Á sjötta áratugnum, þegar spennan jókst í kalda stríðinu og stór hluti bandarískrar alþýðu óttaðist vélabrögð kommúnista innan Bandaríkjanna, var McCarthy einn sýnilegasti talsmaður öfgakenndrar baráttu gegn kommúnismanum. McCarthy vakti athygli með yfirlýsingum sínum um að fjöldi kommúnista og útsendara Sovétríkjanna hefðu tekið sér bólfestu í ríkisstjórn, háskólum, kvikmyndaiðnaði og öðrum afkimum bandarísks samfélags. Að endingu leiddu ærumeiðingarherferðir hans til þess að hann var vítaður fyrir óþinglega framkomu af öldungadeildinni. Hugtakið McCarthyismi var fundið upp árið 1950 og notað til að vísa til ofstækisfullrar framkomu andkommúnista. Í dag er hugtakið enn notað og vísar yfirleitt til lýðskrums, glannalegra og illa ígrundaðra ásakana og persónuárása á þjóðrækni pólitískra andstæðinga.[1]

McCarthy fæddist í bænum Grand Chute í Wisconsin og gekk í bandaríska sjóherinn árið 1942. Hann gat sér góðan orðstír í seinni heimsstyrjöldinni og var orðinn majór undir lok stríðsins. McCarthy var kjörinn á öldungadeild Bandaríkjaþings árið 1946. Hann vakti litla athygli fyrstu þrjú árin sín á þingi en hann varð skyndilega þjóðþekktur í febrúar árið 1950 þegar hann lýsti því yfir í ræðu að hann hefði undir höndum lista af „meðlimum Kommúnistaflokksins og meðlimum í njósnarahring“ sem störfuðu í innanríkisráðuneyti Bandaríkjastjórnar.[2]

Næstu árin hélt McCarthy áfram að lýsa því yfir að kommúnistar hefðu tekið yfir innanríkisráðuneytið, ríkisstjórn Harry S. Truman, bandaríska ríkismiðla og bandaríska herinn. Hann vændi einnig ýmsa stjórnmálamenn innan og utan ríkisstjórnarinnar um að vera kommúnistar, hliðhollir kommúnistum, ótrúir Bandaríkjunum eða um kynferðisafbrot.[3] Á þessum tíma lágu samkynhneigðir menn undir höggi í opinberum stöðum í Bandaríkjunum, ekki einungis því samkynhneigð var ólögleg, heldur þar sem talið var að samkynhneigðir væru berskjaldaðir fyrir fjárkúgun af hálfu erlendra útsendara.

Árið 1954 fór McCarthy fyrir yfirheyrslum til að uppræta kommúnista innan hersins. Þessar yfirheyrslur, sem fengu mikla fjölmiðlaumfjöllun, auk sjálfsmorðs Lesters C. Hunt, öldungadeildarþingmanns Wyoming, sem McCarthy hafði áður átt í deilum við, leiddu til þess að stuðningur við McCarthy skrapp saman og vinsældir hans döluðu.[4] Þann 2. desember 1954 kaus öldungadeildin að bóka vítur á hendur McCarthy fyrir óþinglega framkomu með 67 atkvæðum gegn 22. McCarthy hafði glatað mestöllum áhrifum sínum en hann hélt áfram að tala gegn kommúnisma og sósíalisma þar til hann lést, aðeins 48 ára, í sjúkrahúsi í Maryland þann 2. maí 1957. Á dánarvottorði hans stóð að hann hefði látist úr lifrarbólgu.[5] Ekki hafði áður verið tilkynnt að McCarthy ætti við alvarleg veikindi að stríða.[6] Sumir ævisöguritarar McCarthy telja að lifrarbólgan hafi versnað eða komið til vegna alkóhólisma.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Onion, Rebecca, We’re Never Going to Get Our “Have You No Sense of Decency, Sir?” Moment, Slate, 26. júlí 2018
  2. „Communists in Government Service, McCarthy Says“. United States Senate History Website. Sótt 9. mars 2007.
  3. McDaniel, Rodger E. (2013). Dying for Joe McCarthy's Sins: The Suicide of Wyoming Senator Lester Hunt. Cody, WY: WordsWorth Press.
  4. McDaniel, Rodger. Dying for Joe McCarthy's Sins
  5. McCarthy's death certificate
  6. Ted Lewis (3. maí 1957). „Joseph McCarthy, the controversial senator, dies at 48 in 1957“. New York Daily News. Sótt 30. september 2018. Reprinted 1. maí 2016
  7. See, for example:Oshinsky, David M. (2005) [1983]. A Conspiracy So Immense: The World of Joe McCarthy. New York: Free Press. bls. 503–504.; Reeves, Thomas C. (1982). The Life and Times of Joe McCarthy: A Biography. New York: Stein and Day. bls. 669–671.; Herman, Arthur (2000). Joseph McCarthy: Reexamining the Life and Legacy of America's Most Hated Senator. New York: Free Press. bls. 302–303.