Fara í innihald

Haraldur Guðinason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Haraldur konungur á fálkaveiðum. Mynd af Bayeux-reflinum.

Haraldur Guðinason (um 102214. október 1066) eða Haraldur 2. var síðasti engilsaxneski konungur Englands. Konungstíð hans var stutt, frá 6. janúar 1066 þar til hann féll í orrustunni við Hastings um haustið.

Ætt og uppruni

[breyta | breyta frumkóða]

Haraldur var sonur Guðina jarls af Wessex og konu hans Gyðu Þorkelsdóttur. Á meðal systkina hans voru Tósti jarl og Edit af Wessex, kona Játvarðar konungs góða. Haraldur varð jarl af Austur-Anglíu eftir að systir hans varð drottning. Hann fylgdi föður sínum í útlegð 1051 en þeir sneru aftur ári síðar. Þegar Guðini dó 1053 varð Haraldur jarl af Wessex, sem þá náði yfir syðsta þriðjung Englands, og því næstvaldamesti maður landsins á eftir konunginum.

Játvarður góði sneri aftur úr 25 ára útlegð í Normandí árið 1042. Hann þótti flytja með sér normönnsk áhrif og margir engilsaxneskir höfðingjar settu sig á móti þeim. Guðini var áður leiðtogi þeirra og nú tók Haraldur við. Hann gat sér góðan orðstír í átökum við Gruffydd ap Llywelyn af Gwynedd, prins af Wales, og lauk baráttu þeirra með því að Gruffydd féll fyrir eigin mönnum eftir að hafa beðið ósigur í orrustu 1063.

Konungur Englands

[breyta | breyta frumkóða]
Mynt sem Haraldur lét slá 1066.

Tósti jarl, bróðir Haraldar, hækkaði skatta í jarldæmi sínu árið 1065 og gerðu Norðymbrar uppreisn gegn honum. Haraldur studdi þá gegn bróður sínum og setti hann af. Við það jók hann líkur sínar á að erfa kóngsríkið, en Játvarður góði var barnlaus. Hins vegar klofnaði fjölskylda hans í tvennt og Tósti gerði bandalag við Harald harðráða Noregskonung.

Játvarður konungur veiktist í árslok 1065 og féll í dá án þess að hafa útnefnt arftaka sinn. Hann dó 5. janúar 1066 en komst að sögn áður til meðvitundar snöggvast og fól Haraldi að sjá um drottninguna og konungsríkið - eftir því sem segir í Heimskringlu heyrði þó enginn orð konungs nema Haraldur sjálfur. Á Bayeux-reflinum sést Játvarður á banabeði benda á mann sem talið er að eigi að vera Haraldur. Fjöldi aðalsmanna var samankominn í Westminster til að halda þrettándagleði og var Haraldur valinn konungur daginn eftir lát Eðvarðs og var hann svo krýndur sama dag.

Þegar Vilhjálmi hertoga af Normandí bárust fréttir af konungskjörinu hóf hann að undirbúa innrás. Fyrst í stað gekk honum illa að fá stuðning en eftir að honum tókst að sannfæra menn um að Haraldur hefði svarið við helgan dóm að styðja tilkall sitt til ríkis en gengið á bak orða sinna fékk hann blessun kirkjunnar og margir aðalsmenn gengu til liðs við hann. Haraldur hafði njósn af fyrirætlunum hans og safnaði saman varnarliði á eynni Wight en vindáttir voru óhagstæðar og ekkert bólaði á Normönnum. Þann 8. september sendi Haraldur lið sitt heim og sneri aftur til London.

Orrustan við Stafnfurðubryggju

[breyta | breyta frumkóða]

Sama dag og Haraldur hélt af stað til London lenti Haraldur harðráði Noregskonungur skipum sínum í mynni árinnar Tyne. Tósti bróðir Haraldar var með honum. Þeir unnu sigur á sveitum jarlanna af Mersíu og Norðymbralandi þann 20. september en nokkrum dögum síðar kom Haraldur Guðinason skálmandi norður í land með her sinn og vann sigur á liði Haraldar og Tósta við Stafnfurðubryggju 25. september.

Haraldur konungur var sagður glæsimenni, sterkur, hugdjarfur og málsnjall, og hefur eftirfarandi frásögn Snorra Sturlusonar verið nefnd sem dæmi um það: Í Heimskringlu segir frá því að fyrir bardagann riðu tuttugu riddarar úr liði Englendinga fyrir her Norðmanna og spurðu eftir Tósta jarli, en hann gaf sig fram.

Þá mælti einn riddari: „Haraldur bróðir þinn sendi þér kveðju og þau orð með að þú skyldir hafa grið og Norðimbraland allt, og heldur en eigi viljir þú til hans hneigjast, þá vill hann gefa þér þriðjung ríkis alls með sér.“

Þá svarar jarl: „Þá er nokkuð annað boðið en ófriður og svívirðing sem í vetur. Hefði þá verið þetta boðið þá væri margur maður sá á lífi er nú er dauður og betur mundi þá standa ríki í Englandi. Nú tek eg þenna kost, hvað vill hann þá bjóða Haraldi konungi Sigurðarsyni fyrir sitt starf?“

Þá mælti riddarinn: „Sagt hefir hann þar nokkuð frá hvers hann mun honum unna af Englandi. Sjö fóta rúm eða því lengra sem hann er hærri en aðrir menn.“

Þá segir jarl: „Farið nú og segið Haraldi konungi að hann búist til orustu. Annað skal satt að segja með Norðmönnum en það að Tósti jarl fari frá Haraldi konungi Sigurðarsyni og í óvinaflokk hans þá er hann skyldi berjast í Englandi vestur. Heldur skulum vér allir taka eitt ráð, deyja með sæmd eða fá England með sigri.“

Þá riðu aftur riddarar.

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson við jarl: „Hver var þessi hinn málsnjalli maður?“

Þá segir jarl: „Það var Haraldur konungur Guðinason.“

 
— Haralds saga Sigurðssonar

Orrustan við Hastings

[breyta | breyta frumkóða]
Fall Haraldar eins og það er sýnt á Bayeux-reflinum.

Haraldur fékk ekki að njóta sigursins lengi. Floti Vilhjálms, sem lét úr höfn 12. september, varð afturreka vegna óveðurs, en hélt aftur af stað þann 27. september og lenti við strönd Austur-Sussex daginn eftir. Her Vilhjálms var líklega um 7000 menn. Þegar Haraldur frétti af innrásinni var bardaganum við Stafnfurðubryggju naumast lokið, en hann varð að hraða sér eins og hann gat með menn sína nærri 400 kílómetra leið suður til Sussex. Þar kom til orrustu við Hastings 14. október. Hún stóð í 9 klukkustundir og var lengi tvísýn, en loks féll Haraldur konungur og brast þá flótti í lið hans. Sagan segir að konungur hafi fengið ör í augað og er dauði hans einnig sýndur þannig á Bayeux-reflinum en þar kann þó að vera um seinni tíma viðbót að ræða.

Fylgikona Haraldar um tuttugu ára skeið var Edit, sem kölluð var svanaháls, og áttu þau saman sex börn sem talin voru skilgetin, enda leit almenningur á þau sem hjón þótt kirkjan gerði það ekki. Samkvæmt einni heimild var Haraldur um tíma heitbundinn Adelizu eða Alís, barnungri dóttur Vilhjálms sigurvegara, en ef það er rétt varð ekkert af brúðkaupi. En í ársbyrjun 1066, um sama leyti og Haraldur varð konungur, giftist hann Edit af Mersíu (Ealdgyth), ekkju velska prinsins Gruffydd ap Llywelyn, sem hann hafði barist við nokkrum árum áður. Hún var þunguð þegar Haraldur féll og mun hafa alið tvíbura í nóvember 1066. Þeir hétu Haraldur og Úlfur og er talið að þeir hafi verið í útlegð frá Englandi alla ævi. Edit drottning hefur líklega einnig farið úr landi.

Tveir eldri synir Haraldar, Guðini og Magnús, gerðu árangurslausar innrásartilraunir í England nokkrum sinnum. Systir þeirra, Gyða af Englandi, giftist Valdimar 2. stórhertoga af Kænugarði. Á meðal afkomenda þeirra var Ísabella af Frakklandi, kona Játvarðar 2., og settust því afkomendur Haraldar í enska hásætið um síðir.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Harold Godwinson“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. október 2010.
  • „Haralds saga Sigurðssonar“.


Fyrirrennari:
Játvarður góði
Konungur Englands
(1066 – 1066)
Eftirmaður:
Játgeir Ætheling