Fara í innihald

Fugl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fuglategund)
Fuglar
Flotmeisa, Parus major
Flotmeisa, Parus major
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Undirfylking: Hryggdýr (Vertebrata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Linnaeus, 1758
Ættbálkar
Margir - sjá grein.

Fuglar (fræðiheiti: Aves) eru tvífætt hryggdýr með heitt blóð sem verpa eggjum með harðri skurn, tannlausan gogg, framlimi sem hafa ummyndast í vængi, hreistur sem hefur ummyndast í fjaðrir, hröð efnaskipti og létta og sterka beinagrind með hol bein. Fuglar lifa um allan heim. Stærð fugla nær frá örsmáum kólibrífuglum að risavöxnum strútum og emúum. Um 10.000 núlifandi tegundir fugla eru þekktar, auk um hundrað útdauðra tegunda. Um helmingur núlifandi fuglategunda eru spörfuglar. Vængir fugla eru mjög ólíkir eftir tegundum. Einu vænglausu fuglarnir sem þekktir eru eru útdauðu tegundirnar móafugl og fílafugl. Vængir hafa gert fuglum kleift að fljúga þótt sumar tegundir, eins og strútfuglar og mörgæsir, hafi síðar misst þennan hæfileika. Sumar tegundir fugla, eins og sjófuglar og vatnafuglar, hafa þróað hæfileika til að synda og kafa í vatni. Fuglar eru innbyrðis ólíkir og nærast ýmist á blómasafa, jurtum, fræjum, skordýrum, fiski, hræjum eða öðrum fuglum. Flestir fuglar eru dagdýr, en sumir, eins og uglan, eru næturdýr eða rökkurdýr. Margar tegundir fugla eru farfuglar og ferðast eftir árstíðum langan veg milli ólíkra heimkynna meðan aðrir eyða nær öllum tíma sínum á hafi úti. Sumir geta haldist á flugi dögum saman og jafnvel sofið á flugi.

Fuglar eru næstu afkomendur risaeðla og eru tæknilega séð fiðraðar kjöteðlur. Samkvæmt upprunaflokkun teljast þeir því til eðla, og næstu núlifandi ættingjar þeirra eru krókódílar. Fuglar þróuðust út frá eðlufuglum eins og ögli (Archaeopteryx) sem komu fyrst fram í Kína fyrir 160 milljón árum. Samkvæmt erfðarannsóknum þróuðust nútímafuglar einhvern tíma á mið- eða síðkrítartímabilinu. Tegundasprenging fugla átti sér stað í kringum krítar-paleógen-fjöldaútdauðann fyrir 66 milljón árum þegar allar aðrar risaeðlur, þar á meðal flugeðlur, dóu út.[1]

Margar tegundir fugla eru félagsdýr sem miðla þekkingu milli kynslóða. Fuglar eiga samskipti með merkjagjöf, köllum og fuglasöng. Sumar tegundir vinna saman að hreiðurgerð, útungun og uppeldi unganna, eiga samstarf um veiðar og hópast saman til að verjast rándýrum. Langflestar tegundir fugla eru einkvænisdýr á mökunartímabilinu, en sjaldnar í mörg tímabil eða ævilangt. Sumar tegundir eru fjölkvænisdýr og nokkrar eru fjölverisdýr. Fuglar eiga afkvæmi með því að verpa eggjum sem eru frjóvguð í líkama kvenfuglsins með kynæxlun. Oftast verpa fuglar í hreiður og unga eggjunum út með því að liggja á þeim. Flestar tegundir fugla sinna ungunum og mata þá í einhvern tíma eftir útungun.

Margar tegundir fugla eru nýttar sem fæða fyrir menn eða hráefni í ýmis konar framleiðslu, bæði sem húsdýr og villibráð, og gefa af sér egg, kjöt og fiður. Söngfuglar, páfagaukar og fleiri tegundir eru vinsæl gæludýr. Gúanó (úrgangur sjófugla) er nýtt sem áburður. Fuglar koma víða við í menningu, listum, trúarbrögðum og daglegu lífi fólks. Um 120 til 130 tegundir hafa dáið út vegna athafna mannsins síðan á 17. öld, og einhver hundruð þar á undan. Í dag er talið að um 1.200 fuglategundir séu í hættu á að deyja út, og eru því tilefni verndunaraðgerða. Fuglaskoðun er vinsæl afþreying og hluti af náttúruferðamennsku.

Ættbálkar fugla

[breyta | breyta frumkóða]

Skyldleikatré fugla byggt á Braun & Kimball (2021).[2]

Aves
Palaeognathae

Strútar (Struthioniformes)

Nandúar (Rheiformes)

Snípustrútar (Apterygiformes)

Tínamúar (Tinamiformes)

Kasúar (Casuariiformes)

Neognathae
Galloanserae

Hænsnfuglar (Galliformes)

Gásfuglar (Anseriformes)

Neoaves
Mirandornithes

Flæmingjar (Phoenicopteriformes)

Goðar (Podicipediformes)

Columbimorphae

Dúfnafuglar (Columbiformes)

Mesitornithiformes

Pterocliformes

Passerea

Otidiformes

Gaukfuglar (Cuculiformes)

Dofrar (Musophagiformes)

Tranfuglar (Gruiformes)

Strandfuglar (Charadriiformes)

Opisthocomiformes

Strisores

Húmgapar (Caprimulgiformes)

Vanescaves

Nyctibiiformes

Steatornithiformes

Podargiformes

Daedalornithes

Aegotheliformes

Þytfuglar (Apodiformes)

Phaethoquornithes
Eurypygimorphae

Phaethontiformes

Eurypygiformes

Aequornithes

Brúsar (Gaviiformes)[3]

Austrodyptornithes

Pípunefir (Procellariiformes)

Bægsliskafarar (Sphenisciformes)

Storkfuglar (Ciconiiformes)

Árfetar (Suliformes)

Pelíkanfuglar (Pelecaniformes)

(Ardeae)
Telluraves
Accipitrimorphae

Hrævar (Cathartiformes)

Haukungar (Accipitriformes)

Uglur (Strigiformes)

Coraciimorphae

Músfuglar (Coliiformes)

Cavitaves

Doðafuglar (Leptosomiformes)

Þrúgfuglar (Trogoniformes)

Picocoraciae

Bucerotiformes

Picodynastornithes

Meitilfuglar (Coraciiformes)

Spætufuglar (Piciformes)

Australaves

Snáktrönur (Cariamiformes)

Eufalconimorphae

Fálkungar (Falconiformes)

Psittacopasserae

Páfagaukar (Psittaciformes)

Spörfuglar (Passeriformes)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Crouch, N.M.A. (2022) Interpreting the fossil record and the origination of birds. bioRxiv, doi: https://doi.org/10.1101/2022.05.19.492716
  2. Braun, E. L.; Kimball, R. T. (2021). „Data types and the phylogeny of Neoaves“. Birds. 2 (1): 1–22. doi:10.3390/birds2010001.
  3. Boyd, John (2007). NEORNITHES: 46 Orders (PDF). John Boyd's website. Sótt 30. desember 2017.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]