Fara í innihald

Botnþörungar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kafari við í þaraskóg í Kaliforníu.

Botnþörungar eru þörungar sem vaxa í fjörum og á landgrunni, þar njörva þeir sig við botn, grjót, klappir, kletta eða aðra þörunga. Festingar eru þrennskonar; þykkildisleg flaga, sprotar eins og þöngulhaus þaranna er, eða með rætlingum. Þörungar eru yfirleitt mjúkir og sveigjanlegir, fyrir utan kalkþörunga. Sumir þörungar eru lítið annað en næfurþunn himna en aðrir bera uppi þykkar blöðrur. Enn aðrir eru örfínir þræðir, skorpur á steinum og dýrum eða að þeir mynda kúlur.[1]

Botnþörungar eru jafnan flokkaðir í þrjá meginhópa; grænþörunga, brúnþörunga og rauðþörunga. Grænþörungar skera sig frá hinum að því leyti að þeir hafa dreifst meira í ferskvatni og á landi en hinir hópar þörunga, en brún- og rauðþörungar eru svo til eingöngu sæbúar.[1]

Lýsing og flokkun[breyta | breyta frumkóða]

Litadýrð botnþörunga er mikil og mest er hún við stórstraumsfjörumörk. Áður voru þörungar flokkaðir nær eingöngu eftir litarefnum í græna, brúna og rauða, bláa og gula þörunga m.a. Liturinn hefur vissulega enn gildi við greiningu og flokkun stórþörunga en mið er tekið af fleiru. Lögun stórþörunga er margvísleg og er yfirleitt mjög frábrugðin landplöntum.[1]

Grænþörungar[breyta | breyta frumkóða]

Grænþörungar (fylking: Chlorophyta) eru að stórum hluta í ferskvatni. Einungis um 10% þeirra eru sæþörungar og stór hluti þeirra einfrumungar.[2] Önnur algeng form þeirra eru skorpur, himnur og ýmsir þræðir sem mynda strá eða skúfa.[1] Grænþörungar eru langfjölskrúðugasti þörungahópurinn í heiminum og telur um 8000 tegundir.[3]

Brúnþörungar[breyta | breyta frumkóða]

Söl, algengur matarþörungur.

Brúnþörungar (fylking: Heterokontophyta, flokkur: Phaeophyta) telur um 1500 tegundir sem lifa nánast allar í sjó. Brúnþörungar eru oft ríkjandi frumframleiðendur við grýttar fjörur á tempruðum- og kuldabeltum.[2] Þessir þörungar eru margvíslegir og lögun þeirra fjölþætt. Mikið ber oft á þeim vegna þess hve stórvaxnar tegundir eru og einstaklingarnir margir. Blaðka þeirra er brjósk- eða leðurkennd og verða þarategundir stærstar, og mynda stundum stóra þaraskóga. Þari og þang eru íslensk heiti yfir nokkrar tegundir brúnþörunga. Þykkir brúnþörungar með greinótta blöðku sem festa sig með flögu kallast einu nafni þang. Ef blaðkan, sem stundum er rifin í ræmur, situr á enda stilks og festan er þöngulhaus þá kallast þörungurinn þari.[1]

Rauðþörungar[breyta | breyta frumkóða]

Rauðþörungar (fylking: Rhodophyta), líkt og brúnþörungar, finnast nær eingöngu í sjó og telur fylkingin um 5000-5500 tegundir.[3] Fáir þeirra vaxa ofarlega í fjörum, en þegar neðar dregur ber meira á þeim. Þeir eru algengir á grunnsævi og ná lengst niður í djúpin af stórþörungunum.[1] Rauðþörungar hafa löngum verið eftirsótt fæða um allan heim og þekkja Íslendingar þar af best sölina (Palmaria palmata), sem hefur á seinni tímum verið eini þörungurinn sem hafður eru til matar hér á landi.[4]

Vöxtur og æxlun[breyta | breyta frumkóða]

Sæþörungar mynda lífræn efni úr sjónum með orku frá sólarljósi. Vöxtur er misjafn eftir tegundum og fer fram á ýmsum stöðum. Þá er þekkt að sumir vaxa út frá endum greina, aðrir á jaðri blöðku eða á mörkum stilks og blöðku.[1]

Aldur þörunga er mismunandi, ýmsir stórþörungar verða gamlir og margir metrar á lengd. Lífskeið sumra grænþörunga er hins vegar aðeins brot úr sumri, á meðan vitað er að sumir brúnþörungar, eins og klóþang, geta orðið meira en 30 ára gamlir.[1]

Fjölgun þörunga er mismunandi eftir þeim ógrynni af tegundum og ættkvíslum er fyrirfinnast. Einföldust er æxlun þangtegunda þar sem einn ættliður myndar einstakling, ekki ólíkt okfrumu eins og hjá manninum. Hjá mörgum tegundum eru hins vegar tveir eða þrír ættliðir með í æxlunarferlinu, það síðarnefnda flóknasta fjölgunaraðferðin. Kynbeð eru „blóm“ eða æxlunarfæri sumra brúnþörunga, sem myndast á ákveðnum tímum árs, bólgna og springa út.[1]

Nytjar[breyta | breyta frumkóða]

Skipta má nýtingu þörunga í heiminum í tvo töluvert ólíka póla. Annars vegar er Asíu-markaðurinn, þar sem um er að ræða hlutfallslega verðmikið hráefni sem kemur aðallega frá ræktun eða eldi. Það er nýtt með tiltölulega einfaldri en mannfrekri verkun sem fæða til manneldis. Hinn pólinn er svo vestræn iðnríki, þar sem tæknilega flóknar aðferðir eru notaðar við framleiðslu á verðmætum lífefnum úr ódýru hráefni. Þessi efni eru svo notuð á margvíslegan hátt í iðnaði. Á seinni árum hefur þessi skipting þó orðið óljósari milli hins vestræna og þess austræna.[5]

Nori, ristaður þari til að nota í sushi rétti.

Þörungar til manneldis[breyta | breyta frumkóða]

Elstu heimildir um nytjar matþörunga koma frá Kína og eru yfir 2000 ára gamlar. Elstu skráðu heimildir í Evrópu eru hins vegar frá Íslandi. Neysla þeirra er þó aðallega bundin við Asíu þó hefð sé fyrir neyslu þörunga hjá þjóðum eins og Frökkum, Írum, Englendingum og Íslendingum.[5] Þaraát hefur verið að aukast í vestrænum heimi t.d. vegna sívaxandi vinsælda austurlenskra rétta eins og sushi.[6]

Kvoðuefni úr þörungum[breyta | breyta frumkóða]

Kvoðuefni (e. phycocolloids), sem einnig eru kölluð seigju- eða bindiefni, finnast í miklum mæli í þörungum. Til kvoðuefna teljast fjölsykrur algíns, agars og karragínans. Þessi efni geta bundið vatn, myndað hlaup og jafnað saman ólíka vökvafasa. Notkun er margvísleg og má þar nefna í matvælaiðnaði, læknisfræði og líftækni.[2]

Þörungamjöl[breyta | breyta frumkóða]

Mjöl er unnið úr þangi, sem er hópur innan brúnþörunga. Mesta framleiðslan er í Noregi, Íslandi og Frakklandi og er aðallega notast við klóþang. Mjölið er m.a. nýtt sem skepnufóður, áburður og í algínvinnslu.[5]

Áburður[breyta | breyta frumkóða]

Þörungaáburður er talinn auka uppskeru, frostþol, upptöku næringar úr jarðvegi, sjúkdómaþol o.fl., og þykir mjög góður fyrir grænmetis- og garðrækt. Hann er að mestu unninn úr þara og þangi, mest í Noregi, Frakklandi, Englandi og Bandaríkjunum.[5]

Lífvirk efni[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir á þörungum hafa þegar leitt til nýrra lyfja sem draga úr vexti krabbameinsfrumna, örvera, sveppa og fjölgun veira, ásamt lyfja sem draga úr bólgum. Þá er talið að sumir þörungar búi yfir miklu af ýmsum sérhæfðum lífvirkum efnum, svo sem efnum með lyfjavirkni. Einnig má vinna úr þeim ýmis næringarefni líkt og fæðubótarefni og litarefni.[7]

Aðrar nytjar[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar aðrar nytjar er hægt að hafa af botnþörungum, svo sem í snyrtivöruiðnaði og sem mengunarvörn. Tilraunir hafa verið gerðar með brennslu eða gerjun þörunga til framleiðslu á metangasi, lífrænum efnum og fleiru.[5] Möguleikar með hráefnið eru vissulega margir og margt ókannað, t.d. á sviði sjávarlíftækni.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Guðmundur Páll Ólafsson (1995). Ströndin - í náttúru Íslands. Reykjavík: Mál og menning.
  2. 2,0 2,1 2,2 Castro, P. og Huber, M.E. (2005). Marine Biology (5. útgáfa). New York, NY: McGraw-Hill.
  3. 3,0 3,1 Van den Hoek, C., Mann, D.G. og Jahns, H.M. (1995). Algae: an Introduction to Phycology. Cambridge, UK: University Press.
  4. Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík: Mál og menning.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 Gunnar Ólafsson (1994). Hagnýting þörunga - möguleikar Íslendinga. Akureyri: Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Háskólinn á Akureyri.
  6. Merill, J.E. (1993). Development of nori markets in the western world. Journal of Applied Phycology 5, 149-154.[1][óvirkur tengill]
  7. 7,0 7,1 Hjörleifur Einarsson (2003). Öndvegissetur í sjávarlíftækni. Akureyri: Iðnaðar og viðskiptaráðuneytið, Matvælasetur UNAK, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu