Sveppir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sveppur)
Sveppir

Vísindaleg flokkun
Veldi: Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki: Sveppir (Fungi)
L., 1753
Skiptingar

Sveppir (fræðiheiti: Fungi) eru um margt sérstæðar lífverur og því flokkaðir í sitt eigið ríki, svepparíkið. Lengi vel voru þeir samt flokkaðir með plöntum enda við fyrstu sýn líkari þeim en dýrum. Grundvallarmunur er þó á sveppum og plöntum þar sem plöntur eru frumbjarga og með blaðgrænu til ljóstillífunar, en sveppir geta ekki ljóstillífað og myndað sína eigin næringu sjálfir, heldur eru rotverur og nærast á lífveruleifum svo sem dauðum plöntuhlutum og dýraleifum.[1] Þeir passa heldur ekki í hóp með dýrum vegna þess að þeir draga í sig næringu í stað þess að melta hana og þeir hafa frumuvegg. Tiltölulega stutt er síðan sveppir voru færðir úr plönturíkinu og í sitt eigið ríki.

Sveppir geta tekið yfir mjög stór svæði; það sem étið er af sveppnum, hatturinn (sveppaldinið), eru einungis kynfæri sveppþráðakerfis (mýslis) sem er ofan í jörðinni, stundum á margra hektara svæði. Sveppir eru margir fjölfruma og vaxa þræðirnir í endann, en ger er ágætt dæmi um einfruma svepp. Fléttur teljast til sveppa[2] en þær eru ólíkar öðrum sveppum að því leyti að þær eru sambýli svepps og þörunga eða baktería sem jafnframt gerir þær frumbjarga. Sumir sveppir tengjast einnig rótarendum plantna og mynda með þeim svepprót.

Á Íslandi eru yfir 550 tegundir kólfsveppa sem geta orðið það stórir að vel má sjá þá með berum augum, en nýjar sveppategundir greinast nánast á hverju ári.[3] Suma þeirra má borða en aðrir eru eitraðir. Þegar sveppir eru tíndir verður alltaf að ganga vel úr skugga um að um óeitraðar sveppategundir sé að ræða, að þeir séu bragðgóðir og óskemmdir. Í heiminum öllum eru rúmlega 2.000 sveppategundir ætar,[4] en það er aðeins lítill hluti þeirra 31.000 tegunda kólfsveppa og 33.000 tegunda asksveppa sem þekktar eru. Alls eru þekktar nálægt 148.000 tegundir sveppa í heiminum, en talið er líklegt að tegundir þeirra séu 2,2-3,8 milljónir talsins.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Á hverju og hvernig lifa sveppir?“. Vísindavefurinn.
  2. „Hver er munurinn á fléttum og skófum? Eru skófir fléttur?“. Vísindavefurinn.
  3. Helgi Hallgrímsson (2010). Sveppabókin: Íslenskir sveppir og sveppafræði. Reykjavík: Skrudda.
  4. Li, H., Tian, Y.; og fleiri (2021). „Reviewing the world's edible mushroom species: A new evidence‐based classification system“. Comprehensive Reviews in Food Science and Food Safety. 20 (2). doi:10.1111/1541-4337.12708.
  5. Hawksworth DL, Lücking R (júlí 2017). „Fungal Diversity Revisited: 2.2 to 3.8 Million Species“. Microbiology Spectrum. 5 (4): 79–95. doi:10.1128/microbiolspec.FUNK-0052-2016. ISBN 978-1-55581-957-6. PMID 28752818.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Helgi Hallgrímsson. (2010). Sveppabókin. Íslenskir sveppir og sveppafræði. Skrudda, Reykjavík.
  • Helgi Hallgrímsson. (1979). Sveppakverið. Garðyrkjufélag Íslands, Reykjavík.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.