Kleópatra 7.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kleópatra)
Þessi grein fjallar um forn-egypsku drottninguna Kleópötru. Einnig er til íslenska kvenmansnafnið Kleópatra.
Brjóstmynd sem talin er vera af Kleópötru

Kleópatra 7. Fílópator (janúar 69 f.Kr. – 12. ágúst 30 f.Kr.) var drottning og faraó Egyptalands hins forna, síðust af ætt Ptolemaja og þar með síðasti helleníski þjóðhöfðingi Egyptalands. Þótt fleiri drottningar Egypta hafi heitið Kleópatra, er hún sú sem almennt er átt við þegar minnst er á Kleópötru.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Leiðin til valda[breyta | breyta frumkóða]

Kleópatra var af ætt Ptolemaja sem tóku við stjórn Egyptalands eftir andlát Alexanders mikla. Faðir hennar var Ptolemajos 12. og móðir hennar er talin hafa verið Kleópatra 5.. Foreldrar hennar voru náskyldir enda var löng hefð fyrir skyldleikaræktun á meðal stjórnenda Egyptalands.

Kleópatra varð meðstjórnandi í Egyptalandi með föður sínum árið 55 f.Kr., þegar hún var 14 ára gömul. Faðir Kleópötru lést árið 51 f.Kr. og varð þá bróðir hennar, Ptolemajos 13., meðstjórnandi með henni. Samkvæmt egypskri hefð gengu systkinin í hjónaband. Kleopatra hafði þó ekki í hyggju að deila völdum með bróður sínum og innan nokkurra mánaða hætti hún að nota nafn hans á opinberum skjölum og á myntum. Eftir þetta átti Kleópatra í deilum við bróður sinn og stuðningsmenn hans og laut hún að lokum í lægra haldi og fór í felur.

Samband við Júlíus Caesar[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Júlíus Caesar kom til Egyptalands árið 48 f.Kr. er sagt að hún hafi látið smygla sér í upprúlluðu teppi framhjá vörðum bróður síns, svo hún kæmist á fund Caesars. Caesar hafði komið á hæla Pompeiusar sem flúði þangað eftir orrustuna við Farsalos. Ptolemajos 13. lét taka Pompeius af lífi og ætlaði með því að vinna stuðning Caesars en það snerist í höndum hans því Caesar varð reiður við þetta og tók völdin í Alexandríu. Fljótlega hófu Caesar og Kleópatra ástarsamband og eignuðust soninn Caesarion. Caesar sigraði orrustu gegn Ptolemajosi 13., sem drukknaði í Níl, og gerði Kleópötru aftur að faraó yfir Egyptalandi. Annar bróðir hennar Ptolemajos 14. var þá gerður að meðstjórnanda hennar og þau gengu í hjónaband. Kleópatra og Caesar voru þó ennþá elskendur og fóru saman til Rómar árið 46 f.Kr. Kleópatra var í Róm þegar Caesar var myrtur 15. mars árið 44 f.Kr. en sneri þá aftur til Egyptalands. Stuttu síðar lést Ptolemajos 14., að sögn eftir að Kleópatra lét eitra fyrir honum. Hún gerði þá hinn þriggja ára Caesarion að meðstjórnanda sínum, sem Ptolemajos 15.

Kleópatra og Marcus Antonius[breyta | breyta frumkóða]

Antonius og Kleópatra, málverk frá 19. öld eftir Lawrence Alma-Tadema

Kleópatra hitti Marcus Antonius árið 41 f.Kr., en hann var þá einn af valdamestu mönnum í Róm ásamt Octavíanusi. Þau urðu fljótlega elskendur og deildu völdum í Egyptalandi og austurhluta Rómaveldis. Árið 40 f.Kr. fæddi Kleópatra tvíbura þeirra Antoniusar, Alexander Helios og Kleópötru Selenu. Næstu fjögur árin var Antonius í herferðum í Armeníu og Parþíu en sneri svo aftur til Alexandríu og giftist Kleópötru, þó hann væri enn giftur Octavíu, systur Octavíanusar. Þau eignuðust eitt barn til viðbótar, soninn Ptolemajos Fíladelfus. Árið 34 f.Kr. skiptu þau yfirráðasvæðum sínum, Egyptalandi og austurhluta Rómaveldis, á milli barna sinna þriggja og Caesarions og lýstu þau konunga og drottningu yfir mismunandi landsvæðum. Rómverjar voru almennt hneykslaðir á þessu og fékk Octavíanus þá rómverska öldungaráðið til að lýsa yfir stríði á hendur Kleópötru og Antoniusi. Þau mættu Octavíanusi í orrustunni við Actium, árið 31 f.Kr., síðustu stóru sjóorrustu fornaldar, en biðu lægri hlut fyrir honum. Árið eftir réðist Octavíanus (síðar Ágústus keisari), lögmætur erfingi Caesars, inn í Egyptaland og þeir rómversku hermenn sem Antonius hafði enn á að skipa yfirgáfu hann og fóru yfir til Octavíanusar. Í kjölfarið frömdu bæði Antonius og Kleópatra sjálfsmorð. Flestar fornar heimildir segja að hún hafi látið eitraðan snák bíta sig, þann 12. ágúst árið 30 f.Kr. Að Kleópötru látinni innlimaði Octavíanus Egyptaland inn í Rómaveldi.

Arfleifð Kleópötru[breyta | breyta frumkóða]

Kleópatra er almennt álitin hafa verið síðasti faraó Egyptalands hins forna þó Caesarion hafi reyndar verið hylltur sem arftaki hennar, en var hann tekinn af lífi nokkrum dögum síðar að fyrirskipan Octavíanusar. Hún er ein þekktasta kona fornaldar og hefur verið mönnum hugleikin alla tíð frá andláti sínu. Fornir sagnaritarar nefna flestir að fegurð Kleópötru hafi verið annáluð en að það hafi þó ekki síður verið gáfur hennar og persónuleiki sem heilluðu menn.

Fjölmargir listamenn, leikritaskáld og kvikmyndagerðarmenn hafa fengið innblástur af ævi Kleópötru. Þekkt dæmi eru leikritin Antonius og Kleópatra eftir William Shakespeare og Caesar og Kleópatra eftir George Bernard Shaw og kvikmyndin Cleopatra frá árinu 1963, þar sem Elizabeth Taylor fór með hlutverk Kleópötru.