Fara í innihald

Émile Durkheim

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Émile Durkheim

Émile Durkheim (15. apríl 185815. nóvember 1917) var franskur félagsfræðingur og mannfræðingur sem átti stóran þátt í því að gera félagsfræði að viðurkenndri fræðigrein. Hann rannsakaði samfélög manna m.a. út frá glæpum, sjálfsmorðum, trúarbrögðum og menntun. Hann gerði fyrstur manna skýran greinarmun á annars vegar einstaklingshegðun og hinsvegar hóphegðun. Durkheim er stundum nefndur faðir félagsfræðinnar.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Émile fæddist í Épinal, litlum bæ í norð-austurhluta Frakklands. Hann var af gyðingsættum og voru bæði faðir hans og afi rabbínar. Sjálfur var hann, í það minnsta eftir að hann komst til ára, trúleysingi.

Émile sýndi námi sínu lítinn áhuga og útskrifaðist í heimspeki með lága einkunn. Á meðan að á náminu stóð las hann verk Auguste Comtes og Herbert Spencers. Á þessum tíma var félagsfræði ekki til sem sjálfstæð fræðigrein.

Þar sem hann taldi sig ekki geta fengið kennarastöðu í París fluttist Émile til Bordeaux 1887 þar sem hann kenndi við kennaraháskóla. Þá birti hann sína fyrstu bók um verkaskiptingu í samfélaginu og áhrif hennar 1893. Tveimur árum síðar kom út eftir hann bók um félagsfræði, Reglur um félagsfræðilega aðferð, þar sem hann mæltist m.a. til þess að notaðar séu vísindalegar aðferðir við úrvinnslu félagsfræði. Þá stofnaði hann fyrstu félagsfræðideild í evrópskum háskóla í háskólanum í Bourdeaux. Stuttu síðar stofnaði hann, L'Année Sociologique, fyrsta tímarit tileinkað félagsfræði.

Árið 1897 birti hann bók um ítarlegar rannsóknir sínar á sjálfsmorðum (sjá neðar). Hann missti son sinn í fyrri heimsstyrjöldinni og lést af völdum hjartaáfalls 1917.

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Ásamt Herberti Spencer innleiddi hann svokallaða virknihyggju. Afstaða þeirra var sú að samfélagið samanstæði af hlutum sem þjónuðu hver sínum tilgangi og mynduðu heild. Jafnframt taldi hann fullvíst að virkni hvers þessara hluta ákvarðaðist af undirliggjandi regluverki heildarinnar. Meðal þeirra verkfæra sem varpað gátu ljósi á eðli samfélagsins voru það sem Durkheim nefndi félagslegar staðreyndir.

Í rannsóknum sínum á tíðni sjálfsmorða dró Émile þá skynsömu ályktun að hún væri ekki bundin við sálfræði einstaklinga heldur ákveðin félagsfræðileg skilyrði. Þetta höfðu aðrir sýnt fram á og mátt sjá á þeirri staðreynd tíðni sjálfsmorða hélst ekki í hendur við hlutfall geðsjúkra og tók ekki miklum sveiflum vegna staðbundinna aðstæðna. Með framúrstefnulegri beitingu tölfræði gat Émile sýnt fram á að helsti áhættuhópurinn væri sá sem væri hvað minnst félagsleg virkni einhleypir, (hvítir) mótmælendatrúar karlmenn. Minni sjálfsmorðstíðni væri hjá giftum mönnum og minni hjá kaþólikkum og enn minni hjá gyðingum. Þ.a.l. taldi hann að fólk fremdi sjálfsmorð ef það einangraðist frá samfélaginu og nefndi hann slíkt ferli siðrof.

Émile leit svo á að það væri hlutverk hans að reyna að ráða bót á meinum samfélagsins. Hann hafði sér í lagi áhuga á hvers kyns reglum sem samfélagið setti um leyfilega hegðun þegna þess. Til þess rannsakaði hann þróun hegningarlaga annars vegar í hinum nýju borgarsamfélögum - sem skapast höfðu með þéttbýlismynduninni sem fygldi iðnvæðinguninni - og hins vegar í smærri og frumstæðari samfélögum sveitanna. Hann komst m.a. að þeirri niðurstöðu að borgarsamfélögum mætti lýsa sem lífrænum andstætt vélrænum samfélögum strjálbýlis. Með því átti hann við að í frumstæðari samfélögum var samfélagið samleitnara. Við alvarlegri brotum var gjarnan grimmilegum, líkamlegum refsingum beitt. Hver einstaklingur var álitinn fastur hluti af samfélaginu og ekki álitið æskilegt að vikið yrði frá venjum innan þess. Þéttbýlissamfélögum nútímans taldi hann einkennast af verkaskiptingu eða sérhæfingu, þar með væri ekki jafn traust bönd sem tengdu einstaklinga. Í slíku samfélagi er fólk umburðarlyndara hvort gagnvart öðru.

Bækur[breyta | breyta frumkóða]

  • Durkheim, The Division of Labor in Society, (1893) The Free Press reprint 1997, ISBN 0-684-83638-6
  • Durkheim, Rules of Sociological Method, (1895) The Free Press 1982, ISBN 0-02-907940-3
  • Durkheim, On the Normality of Crime, (1895)
  • Durkheim, Suicide, (1897), The Free Press reprint 1997, ISBN 0-684-83632-7
  • Durkheim, The Elementary Forms of the Religious Life, (1912, English translation by Joseph Swain: 1915) The Free Press, 1965. ISBN 0-02-908010-X, new translation by Karen E. Fields 1995, ISBN 0-02-907937-3
  • Durkheim, Professional Ethics and Civic Morals, (1955) English translation by Cornelia Brookfield 1992, ISBN 0-415-06225-X

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvað geturðu sagt mér um Émile Durkheim?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað er það sem mannfræðingar kalla fúnksjónalisma?“. Vísindavefurinn.
  • The Émile Durkheim Archive
  • Emile Durkheim.com
  Þetta æviágrip sem tengist Frakklandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.