Geðklofi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Geðklofi er alvarlegur geðsjúkdómur sem felur í sér breytingu á hugsun, hegðun og tilfinningum. Algengi geðklofa er 0,6 - 1% og sjúkdómurinn er jafn algengur hjá báðum kynjum. Þessar tölur merkja að nálægt 50 milljónum manna þjáist af geðklofa í heiminum. Sjúkdómurinn kemur vanalega fyrr fram hjá körlum, jafnvel á unglingsaldri. Fyrstu einkenni geðklofa geta haft dramatísk áhrif á aðstandendur geðklofans þar sem þau geta vikið algerlega frá fyrri persónuleika einstaklingsins. Fólk sem þjáist af geðklofa upplifir oft hræðilegar ofskynjanir og ranghugmyndir, svo sem að einhver sé að reyna að drepa það. Tal geðklofasjúklinga er oft samhengislaust. Einnig geta líkamseinkenni þeirra verið flöt og svipt öllum tilfinningum. Einkennin gera það oft að verkum að annað fólk hræðist geðklofa og fordómar í garð geðklofa eru miklir.

Oft er hægt að halda sjúkdómnum niðri en flestir þeirra sem greinast með geðklofa þjást þó af honum ævilangt, þó svo að nokkur hluti nái fullum bata.

Upprunalegt nafn sjúkdómsins merkir "splundraður hugur" og vísar til alvarlegrar röskunar á hugsunum sem eru helsta einkenni geðklofa. Íslenska nafn sjúkdómsins, geðklofi, veldur oft misskilningi. Algengt er að fólk telji geðklofa fela í sér einhvers konar breytingu á huganum, að einstaklingar sem þjást af geðklofa hafi klofinn huga og geti þannig jafnvel verið margir persónuleikar í einu. Sá sjúkdómur sem fólk á þar við kallast dissociative identity disorder. Sá sjúkdómur á enda afskaplega fátt sameiginlegt með geðklofa þar sem geðklofi felur langt í frá í sér að einstaklingurinn þrói með sér einhvern annan persónuleika. Rannsóknir manna á sjúkdóminum beinast í æ ríkari mæli að magni dópamíns í heila og því hvort orsök sjúkdómsins liggi þar. Lyf sem breyta upptöku dópamíns í heila minnka einkenni geðklofa. Einkenni geðklofa eru flokkuð í jákvæð og neikvæð einkenni

Saga geðklofa[breyta | breyta frumkóða]

Frásagnir af geðklofa má finna allt til ársins 2000 fyrir Krist. Það var hins vegar Emil Kraepelin sem fyrst skilgreindi geðklofa. Upprunalegt heiti sjúkdómsins var dementia praecox, sem þýða má sem snemmær vitglöp. Ástæða nafngiftarinnar var sú að Kraepelin beindi rannsóknum sínum helst að ungu fólki sem þjáðist af geðklofa fremur en eldra.

Það var svo Eugene Bleuler sem fyrstur kom fram með hugtakið geðklofi og var hugmyndin sú að vísa í skort á samvirkni milli hugsanaferlis og skynjunar. Bleuler var einnig fyrstur til að lýsa sumum einkennum geðklofa sem neikvæðum.

Einkenni geðklofa[breyta | breyta frumkóða]

Einkennum geðklofa er skipt í jákvæð og neikvæð einkenni. Ástæða skiptingarinnar hefur ekkert að gera með það hvort einkennin séu jákvæð fyrir einstaklinginn eða ekki heldur er ástæðan sú að lyfjameðferð gagnast mun betur fyrir einstaklinga sem helst þjást af jákvæðum einkennum heldur en þeirra sem helst þjást af neikvæðum og batahorfur þeirra einstaklinga, svo sem viðbragð við lyfjagjöf, eru mun betri en þeirra sem helst þjást af neikvæðum einkennum.

Jákvæð einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Jákvæð einkenni fela í sér frávik eða truflun frá eðlilegri virkni, svo sem ofskynjanir (enska: hallucinations), ranghugmyndir (enska: delusions), undarlegt og ruglingslegt tal sem og neikvæð einkenni (tilfinningadeyfð og sinnuleysi). Ofsóknarbrjálæði, félagsleg hlédrægni, trúarleg þráhyggja og hugmyndir um eigið ágæti eru algengar. Eftirfarandi eru dæmi um helstu jákvæð einkenni geðklofa:

Ofskynjanir: Ofskynjanir geta falið í sér heyrnar-, sjón- eða snertiofskynjanir. Það að heyra raddir sem aðrir heyra ekki er eitt algengasta einkenni geðklofa. Efni þeirra getur verið mismunandi, allt frá athugasemdum til þess að vara einstaklinginn við öðru fólki, atburðum eða stöðum ásamt því að skipa einstaklingnum að gera eitthvað. Geðklofar geta heyrt margar mismunandi raddir og þær geta verið frá fólki sem þeir þekkja sem og frá upphugsuðum einstaklingum. Rannsóknir á heila geðklofa, framkvæmdar með PET skanna, sýna að þegar einstaklingur með geðklofa heyrir ímyndaðar raddir þá eru sömu svæði heilans virk og þegar hann heyrir raunverulegt tal.

Ranghugmyndir: Ranghugmyndir eru undarlegar hugmyndir sem víkja frá fyrra hugsanamynstri einstaklingsins og ómóttækileika fyrir upplýsingum sem gefa annað til kynna en það sem einstaklingurinn telur. Ranghugmyndir eiga sér þannig ekki neina raunverulega ástæðu eða sönnun. Ranghugmyndir geta verið mismunandi. Einstaklingurinn getur talið að einhver vilji drepa sig, eða þá að hann getur talið að hann sé í raun og veru einhver frægur.

Truflun á hugsunum: Truflun á hugsunum felur í sér hugsanir sem víkja frá því sem eðililegt getur talist. Hugsanir geta komið og farið skyndilega, að því er virðist án allra tengsla. Einbeitingarskortur getur verið algengur, upp að því marki að einstalingurinn getur ekki haldið athygli sinni á neinu nema í skamma stund. Einnig geta geðklofar átt í vandræðum með að gera sér grein fyrir því hvað er viðeigandi við ákveðnar aðstæður. Allt þetta gerir samtal við geðklofann erfitt og veldur oft félagslegri einangrun.

Neikvæð einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Neikvæð einkenni eru skortur á hreyfigetu eða framkomu, áhrif á athygli og einbeitingu, minni og nám og geta falið í sér félagslega hlédrægni, skerta hreyfigetu og skort á tilfinningum og frumkvæði eða framtakssemi. Oft er einkennum lýst þannig að þau séu flöt eða sljó. Andlit geðklofa geta verið svipbrigðalaus, rödd hans getur verið eintóna og líkamstjáning hans að því er virðist án allra tilfinninga. Skortur á áhuga, frumkvæði og framtakssemi getur valdið því að geðklofinn geri ekki neitt dögunum saman.

Þrátt fyrir að meðferðaraðilar eigi auðvelt að greina á milli geðklofa og multiple personality disorder eiga þeir oft erfitt með að aðgreina hann frá öðrum geðsjúkdómum. Það ræðst af því að einkenni geðklofa skarast oft við einkenni annarra geðsjúkdóma, og þá sérstaklega persónuleikaraskanir eða áráttu-þráhyggjuröskun. Psychotísk einkenni geðklofa geta sést í öðrum röskunum, svo sem geðhæð og vímuefnamisnotkun og neikvæð einkenni eru mörg hver einnig dæmigerð einkenni þunglyndis.

Hugtakið schizoaffective disorder er notað þegar einstaklingur þjáist af þeim hugsanaröskunum sem tengjast geðklofa ásamt persónuleikaröskun, sem fylgja tvískautaröskun eða þunglyndi. Öfugt við flesta aðra sjúkdóma snúa sjúklingar með geðklofa ekki til venjulegs ástands þar sem þeir geta tekið upp fulla virkni sína án þess að þurfa að nota lyf.

Flokkar geðklofa[breyta | breyta frumkóða]

Geðklofi er flokkaður í fimm undirflokka:

1. Stjarfageðklofi (e. catatonic)[breyta | breyta frumkóða]

Þessi flokkur einkennist af truflun á hreyfingu. Sjúklingurinn er hreyfingalaus og bregst ekki við áreiti frá umhverfinu, svo sem leiðbeiningum annarra. Auk þess getur stjarfageðklofi sýnt skyndilega kippi. Stjarfageðklofi getur einnig falið í sér að viðkomandi er kyrr í sömu stöðu í langan tíma. Eitt einkenni sem stundum sést er vaxhreyfanleiki þar sem hægt er að móta stöðu einstaklingsins eftir eigin höfði. Stjarfageðklofi einkennist þannig af líkamlegum einkennum.

2. Ofsóknargeðklofi (e. paranoid)[breyta | breyta frumkóða]

Ofsóknargeðklofi er algengari meðal karlmanna en kvenna og upphaf hans er oftast þegar einstaklingurinn er 15 til 34 ára. Ofsóknargeðklofar þjást stöðugt af tilfinningu um að fylgst sé með þeim, þeir séu eltir eða jafnvel ofsóttir. Ofsóknargeðklofar þróa með sér ranghugmyndir þar sem þeir þurfa að verja sig gegn þeim sem ofsækja þá. Í þó nokkrum tilfellum þarf að leggja inn ofsóknargeðklofa.

Það er engin lækning til við ofsóknargeðklofa en hægt er að halda honum niðri og draga úr eða koma í veg fyrir ranghugmyndir með lyfjum. Algengt vandamál er að ofsóknargeðklofar neiti að taka lyfin sín sem veldur því að þeir falla aftur í sama farið. Orsakir ofsóknargeðklofa eru ekki ljósar en talið er að sjúkdómurinn gangi í erfðir. Streita veldur ekki ofsóknargeðklofa en hún hefur áhrif á þróun og alvarleika hans.

Áður en sjúkdómurinn brýst að fullu fram eru einkenni hans oft ljós fjölskyldumeðlimum geðklofans. Meðal algengra einkenna eru ráðaleysi, taugaveiklun, undarleg hegðun, afskiptaleysi og reiði.

3. Óreiðugeðklofi (e. disorganized)[breyta | breyta frumkóða]

Óreiðugeðklofi einkennist af samhengislausu tali, ofskynjunum og ranghugmyndum, undarlegri hegðun, félagslegri einangrun og litlum tilfinningum. Ofskynjanirnar og ranghugmyndirnar geta haft þema en ólíkt því sem á sér stað í ofsóknargeðklofa eru þær yfirleitt samhengislausar. Hegðun þeirra með óreiðugeðklofa er oft lýst sem heimskulegri eða barnalegri. Sjúkdómurinn kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 25 ára aldur. Þunglyndi eða psychosis í fjölskyldu er talið auka líkur á því að barn greinist síðar með óreiðugeðklofa.

4. Ósundurgreindur geðklofi (e. undifferentiated)[breyta | breyta frumkóða]

Í ósundurgreindum geðklofa uppfyllir einstaklingurinn skilgreiningu fyrir geðklofa en fellur þó ekki í þrjá áðurnefnda flokka eða getur mögulega fallið í fleiri en einn án þess að hægt sé að gera á milli þeirra. Nauðsynlegt er að reyna að staðsetja sjúklinga í einhverjum þriggja flokkanna áður en þeir eru skilgreindir með ósundurgreindan geðklofa.

5. Residual geðklofi[breyta | breyta frumkóða]

Þá hefur einstaklingurinn verið skilgreindur með geðklofa en er laus við psychotísk einkenni. Einstaklingar í þessum hópi sýna hins vegar oft áfram einhver einkenni svo sem félagslega einangrun og litlar tilfinningar.

Orsakir geðklofa[breyta | breyta frumkóða]

Það er engin ein ástæða geðklofa. Flestir sjúkdómar eru tilkomnir vegna margra þátta, svo sem erfðafræðilegra, atferlis- og umhverfisþátta og það sama gildir um geðklofa. Talið er að einstaklingar hafa í sér nokkurs konar "auðveldleika" fyrir geðklofa, það er að genafræðilegar ástæður liggi að baki geðklofa. Þó er talið að eitthvað þurfi til að kveikja geðklofann, það er að segja, eitthvað utanaðkomandi þarf að hafa áhrif á einstaklinginn og koma geðklofanum þannig af stað. Þetta getur falið í sér atburði, svo sem dauðsfall ættingja eða ástarsorg eða eitthvað annað. Meðferð við geðklofa byggir á því að minnka einkenni sjúkdómsins og gera þeim sem af honum þjást það kleift að lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi.

Arfgengi[breyta | breyta frumkóða]

Geðklofi er algengur í sumum fjölskyldum. Ættingjar geðklofa eru frekar í hættu á að fá geðklofa en þeir sem ekki eiga ættingja með geðklofa og hættan er meiri eftir því sem einstaklingarnir eru líkari hvor öðrum genalega. Ef annar eineggja tvíbura hefur geðklofa eru 40 - 50% líkur á því að hinn hafi einnig geðklofa. Ef annað foreldri þjáist af geðklofa eru um 10% líkur á að barnið hafi einnig geðklofa. Eins og áður segir er algengi geðklofa um eða innan við 1%. Rannsóknir á einstaklingum sem ekki hafa verið aldir upp hjá raunverulegum foreldrum benda einnig til þess að orsökin sé genafræðileg en ekki uppeldisleg. Sú staðreynd að börn geðklofa eru jafn líklegt til að fá geðklofa hvort sem þau alast upp hjá fósturforeldrum eða raunverulegum foreldrum styður þá kenningu enn fremur. Genarannsóknir gefa til kynna að mörg gen leiki hlutverk í geðklofa. Rannsóknir hafa helst beinst að litningum 13 og 6 en þeir hafa ekki verið staðfestir.

Taugafræði[breyta | breyta frumkóða]

Sú kenning hefur komið fram að geðklofi sé taugafræðilegur sjúkdómur þar sem þróun heilans á meðgöngu valdi sjúkdóminum. Það að sjúkdómurinn komi ekki fram fyrr en eftir kynþroska er þá meðal annars útskýrt með því að taugakerfi líkamans nái á einhverjum tíma ekki að valda þeirri streitu sem oft er til staðar í lífinu. Til stuðnings þessari kenningu hefur verið sýnt fram á það að vandamál við meðgöngu og fæðingu auki líkurnar á geðklofa tvö- til þrefalt og því meiri, eða fleiri, sem vandamálin eru því meiri líkur eru á að barnið fái geðklofa.

Veirusýking mæðra á meðgöngu hefur einnig verið tengd geðklofa. Það er áhugavert að fleiri börn fæðast með geðklofa seint um vetur eða á vori en á öðrum árstímum. Veirusýkingar eru enda algengari á veturna og rennir það stoðum undir kenninguna. Fræðimenn eru hins vegar flestir á því máli að veirusýking mæðra á meðgöngu sé aðeins ein möguleg orsök geðklofa og sé ábyrg fyrir litlum hluta hjá þeim sem greinast með geðklofa.

Formgerð heila sumra geðklofa virðist frábrugðin venjulegum heila og á það jafnt við um konur og karla. Rannsóknir hafa sýnt að þriðja heilahol geðklofasjúklinga er oft óeðlilega stórt og stærðina er ekki hægt að skýra með þáttum eins og aldri eða meðferð. Ástæðan er talin vera vegna einhvers sem gerist á fósturskeiði barnsins en hvað er ekki vitað. Þar sem aukin stærð virðist hafa komið fram þegar einkenni geðklofans koma fyrst í ljós er víst að stækkað heilahvel er ekki afleiðing sjúkdómsins. Athuga verður hins vegar að þessi afbrigðileiki heilauppbyggingar er ekki til staðar hjá öllum geðklofasjúklingum, heldur benda rannsóknir til þess að hún verði aðeins hjá um þriðjungi þeirra. Að sama skapi á hún sér einnig stað hjá einstaklingum sem ekki þjást af geðklofa. Sumir rannsakendur halda því enn fremur fram að hún sé aðallega tengd neikvæðum einkennum geðklofa en sú tilgáta hefur ekki verið sönnuð. Rannsóknir á þessari óvanalegu heilabyggingu líða að nokkru leyti fyrir það að aðeins er hægt að skoða heila geðklofa gaumgæfilega eftir að þeir deyja og því er ekki hægt að rannsaka hana á sama tíma og hegðun og hugsunum geðklofans er könnuð. Ný tækni í heilaskönnun ætti hins vegar að geta varpað mun betra ljósi á þetta atriði sem og önnur.

Taugaboðefni[breyta | breyta frumkóða]

GABA[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir hafa leitt í ljós litla virkni ákveðinna heilafrumna sem sjá um að framleiða boðefni, sérstaklega gammasýru (GABA) og hafa m.a. það hlutverk að hamla virkni annarra heilafrumna. Gammasýran tengist stjórnun á móttöku skynupplýsinga heilans. Rannsóknir hafa sýnt að magn þessara taugaboðefna hjá geðklofum er óeðlilega lágt. Því er talið að þessi taugaboðefni geri það að verkum að heili geðklofa bregðist við of mörgum áreitum í umhverfinu og hafi ekki hæfileikann til að útiloka skynáreiti sem ekki eru endilega nauðsynleg honum.

Dópamínkenningin[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir hafa leitt í ljós að geðklofi tengist of miklu magni dópamíns í taugamótum (þ.e. þar sem tveir taugungar mætast og senda boð á milli). Dópamín eykur næmi taugunga í heila fyrir áreiti. Aukið næmi fyrir utanaðkomandi áreitum kemur að gagni fyrir einstaklinga þegar þeir þurfa að taka vel eftir umhverfinu, svo sem þegar hætta steðjar að þeim. Fyrir geðklofa þá eykur dópamínmagn á truflun þeirra. Geðrofslyf verka með því að bindast viðtökum fyrir dópamín og óvirkja þá svo dópamín verkar ekki á viðtakann. Með þessu má minnka jákvæði einkenni sjúkdómsins, þ.e. ofskynjanir. Lyf sem verka andstætt við geðrofslyf, til dæmis örvandi efni eins og amfetamín, kalla mörg fram jákvæði einkenni sjúkdómsins, einu nafni nefnd geðrof. Lyfið getur jafnvel ýtt undir geðklofalík einkenni hjá fólki sem ekki þjáist af geðklofa.

Meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Lyfjameðferð[breyta | breyta frumkóða]

Lyf hafa verið gefin við geðklofa síðan á sjötta áratugnum og þau hafa til muna bætt líf einstaklinga með geðklofa. Lyfin minnka í flestum tilfellum sturlunar einkenni geðklofa og bæta til muna virkni meirihluta þeirra sem þjást af geðklofa. Lyf lækna þó ekki geðklofa heldur einungis halda þau honum í flestum tilfellum niðri og þá sérstaklega jákvæðum einkennum hans. Lyf við geðklofa hafa hins vegar sýnt takmarkaða virkni á neikvæð einkenni geðklofa.

Í auknum mæli er farið að gefa lyf í sprautuformi, sem hafa mun lengri virkni en lyf í töfluformi og gera það að verkum að einstaklingurinn þarf ekki að taka lyfin sín daglega. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem margir geðklofar eiga það til að hætta á lyfjum upp á sitt einsdæmi á einhverjum tíma. Lyfjarannsóknir beinast ekki hvað síst að því að auka líftíma þessara lyfja (þannig að hægt sé að gefa þau sjaldnar með sömu virkni) og að minnka aukaverkanir þeirra. Í dag eru margvíslega aðferðir notaðar til að minna geðklofa á lyf og að fylgjast með lyfjatöku þeirra. Pillubox þar sem hver dagur er merktur eru algeng, lyf eru oft gefin með máltíðum og tæki sem láta vita hvenær eigi að taka lyf eru einnig algeng.

Ekkert lyf við geðklofa er laust við aukaverkanir þó vissulega séu þær mismiklar eftir lyfjum. Sumar eru tiltölulega meinlausar á meðan aðrar eru alvarlegri. Dæmi um aukaverkanir eru þreyta, eirðarleysi, þyngdaraukning, vöðvakippir og titringur og óskýr sjón. Flest þessara einkenna hverfa ef skammtur er minnkaður eða ef breytt er um lyf. Dæmi um lyf með alvarlega aukaverkun er lyfið clozaril, sem veldur minnkun hvítra blóðkorna í blóði þess sem tekur lyfið og sem merkir að fylgjast þarf vel með sjúklingnum. Annað langtíma einkenni lyfja við geðklofa er Tardive dyskinesia (TD) sem felur í sér ósjálfráðar taugahreyfingar, oftast kringum og í munni. Tardive dyskinesia á sér stað hjá 15 - 20% þeirra geðklofa sem fengið hafa eldri lyf við geðklofa í mörg ár en getur einnig komið fram hjá þeim sem taka ný lyf við geðklofa, þrátt fyrir að líkurnar til þess séu mun minni. Einkenni tardive dyskinesia eru í flestum tilfellum mild og í sumum tilfellum verður sjúklingurinn sjálfur ekki einu sinni var við þau.

Þar sem þunglyndi er algengur fylgifiskur geðklofa þá þurfa margir geðklofar einnig að taka þunglyndislyf. Að sjálfsögðu þarf að gáta þau lyf sem geðklofar taka og velja þunglyndislyf út frá því. Lyf við geðklofa eru ekki líkleg til að verða ávanabindandi.

Sá misskilningur er oft ríkjandi að lyf við geðklofa séu einhvers konar "spennitreyja hugans", það er að þau séu notuð til að ná sjúklingnum hálfvegis út úr heiminum. Vissulega má nota lyf við geðklofa á þann hátt en aðeins ef farið er yfir venjulegan skammt. Markmið lyfjanna er að sjálfsögðu að hjálpa geðklofasjúklingnum en ekki að kýla þá kalda með lyfjum. Mismunandi er hversu lengi lyfjameðferð varir. Sumir þurfa aðeins lyf í skamman tíma á meðan aðrir þurfa að taka lyf alla ævi.

Algengt er að geðklofar hætti að taka lyfin sín og geta ástæðurnar fyrir því verið margar. Stundum telja sjúklingar ástand sitt ekki það alvarlegt að þeir þurfi að taka lyf. Fyrir kemur að fjölskyldumeðlimir gera sér ekki grein fyrir sjúkdómnum og ráðleggja mönnum að hætta að taka lyfin. Stundum fylgjast læknar ekki nægjanlega vel með því að lyfjagöf sé fylgt eftir eða þá að þeir hlusta ekki nægjanlega vel á kvartanir sjúklingsins og óskir um að prófa ný lyf. Einnig kemur fyrir að geðklofar telji aukaverkanir alvarlegri en sjúkdóminn sjálfan og hætta þess vegna á lyfjunum. Þar sem misnotkun vímuefna er nokkuð algeng hjá geðklofum er einnig algengt að þau trufli virkni lyfjanna.

Sálfræðilegar meðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Lyf við geðklofa eru nauðsynleg til að minnka einkenni sjúkdómsins en hafa gefið misgóða raun við að kljást við þá hegðun sem fylgir sjúkdóminum. Þrátt fyrir að einkenni geðklofa séu í lágmarki eiga margir geðklofar einstaklega erfitt með samskipti og mynda sambönd við aðra, sýna áhuga á hlutum og sjá um sjálfan sig. Þar sem geðklofi kemur oftast fram á þeim árum sem eru mjög mikilvæg í lífi og mótun einstaklingsins, svo sem þegar hann er í námi, eru geðklofar oft í verri aðstöðu en aðrir þegar kemur að vinnumarkaðinum. Því bætist skortur á menntun og reynslu í atvinnulífinu oft við aðra þætti. Það er í þessum atriðum sem sálfræðileg meðferð kemur ekki hvað síst að gagni. Að sama skapi kemur sálfræðileg meðferð að litlum notum við alvarleg einkenni sjúkdómsins (svo sem ranghugmyndir og ofskynjanir) en getur verið gagnleg við sum vægari einkenni hans. Eins og með aðra sjúkdóma bjóða sálfræðingar upp á mismunandi meðferðarform. Hér verður minnst á þau helstu og sem hafa gefið hvað bestu raunina:

Endurhæfing[breyta | breyta frumkóða]

Með endurhæfingu er lögð áhersla á félagslega og verklega þætti til að hjálpa sjúklingum að yfirvinna vandamál sem tengjast þessum sviðum. Endurhæfingaráætlanir geta falið í sér ráðleggingar um störf, starfsnám, lausnir við vandamálum, notkun samgangna og kennslu í því að fara með peninga. Í stuttu máli, flest það sem er nauðsynlegt til að lifa sjálfstæðu lífi meðal fólks utan hins verndaða umhverfis sjúkrahúsa.

Einstaklingsbundnar meðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Einstaklingsbundin meðferð byggir á reglulegum samtölum sjúklings og meðferðaraðila, hvort heldur geðlæknis, sálfræðings eða félagsráðgjafa. Meðferðin getur beinst að vandamálum í lífi sjúklingsins, reynslu hans, hugsunum, tilfinningum eða samböndum. Markmið meðferðarinnar er að einstaklingurinn nái að skilja frekar sjálfan sig og vandamál sín. Rannsóknir sýna að meðferðir sem byggja á stuðningi við sjúklinginn og sem beinast að vandamálum hans gefa góða raun fyrir geðklofa. Einna algengust meðferða er hugræn atferlismeðferð. Mikilvægt er þó að muna að þess háttar meðferð kemur ekki í staðinn fyrir lyfjameðferðir heldur eru góð viðbót eftir og á meðan lyfjameðferð hefur verið beitt.

Fjölskyldumeðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Geðklofar eru oft settir í umsjá fjölskyldu sinnar eftir að hafa útskrifast af sjúkrahúsum og því er mikilvægt að fjölskyldumeðlimir læri allt það sem þeir geta um sjúkdóminn og hvaða vandamálum hann veldur. Mikilvægt er að fjölskyldumeðlimir læri það hvernig minnka megi líkurnar á því að sjúklingnum hraki aftur, svo sem með því að gera sér grein fyrir þeim stuðningi sem þeim sjálfum býðst sem og hættunni á því að einstaklingurinn hætti að taka lyfin sín. Kennsla í því hvernig best er að leysa vandamál kemur t.d. að góðum notum og er líklegri til að auðvelda líf sjúklingins. Auk þess er mikilvægt að fjölskyldumeðlimir styrki jákvæða hegðun einstaklingsins og láti hann vita hvað þeim finnst. Líkt og aðrir gera geðklofar sér nefnilega ekki alltaf grein fyrir því hvað er æskileg hegðun. Fjölskyldumeðlimir sem gera sér ekki grein fyrir sjúkdóminum, einkennum hans og því hvernig eigin viðbrögð eru og eiga að vera eru líklegir til að auka á streitu einstaklingsins og því á líkur þess að sjúklingnum hraki. Dæmi eru um að fjölskyldumeðlimir hafi getað spáð fyrir um tímabil geðklofaeinkenna betur en sjúklingurinn sjálfur, svo sem með því að fylgjast með svefnvenjum hans eða breytingum á tali. Slíkt eykur að sjálfsögðu líkurnar á því að hægt verði að koma í veg fyrir tímabil einkenna.

Sjálfshjálparhópar[breyta | breyta frumkóða]

Sjálfshjálparhópar fyrir geðklofa og fjölskyldur þeirra eru mikilvægir. Hóparnir styrkja samheldni einstaklinga og hjálpa þeim að gera sér grein fyrir því að þeir standi ekki einir, að aðrir séu í sömu sporum. Í sjálfshjálparhópum geta geðklofar og fjölskyldumeðlimir einnig fengið ráð frá öðrum sem hafa verið í sömu sporum. Þrátt fyrir að flestir leiti til sjálfshjálparhópa eftir að þeir hafa útskrifast og eru að fóta sig á ný í lífinu er gagnsemi þeirra ekki eingöngu bundið við það hlutverk. Þeir geta verið mikilvægir þrýstihópar í ýmsum málum og geta unnið að því að breyta viðhorfum fólks til sjúkdóma, sem gerir það því oft auðveldara fyrir fjölskyldumeðlimi ef sjúkdómur bankar uppá hjá þeim. Sjálfshjálparhópar, sem í upphafi hafa ef til vill haft það helst á stefnuskrá sinni að sýna samhyggð og stuðning, geta þannig þróast í það að veita upplýsingar og útrýma fordómum.

Stuðningur við geðklofa getur komið úr öðrum áttum en þeim sem minnst er á hér að ofan. Prestar og vinir geta haft sitt að segja þegar kemur að því að sinna eða hjálpa geðklofa. Almennt gildir að því meiri sem stuðningurinn er og því betur sem aðrir skilja sjúkdóminn og það hvað geðklofinn gengur í gegnum, því betri eru horfurnar fyrir hann og því minni líkurnar á því að honum hraki. Þetta breytir því þó ekki að þrátt fyrir að geðklofi fái alla þá meðferð sem hann getur er enn þá hætta á að honum hraki.

Batahorfur[breyta | breyta frumkóða]

Í um það bil þriðjungi tilfella þjáist sjúklingur af psychotic tímabili í nokkra mánuði og nær sér svo að fullu án meðferðar. Einkenni geðklofa minnka oft síðar á ævinni og tengist það minnkuðu dópamínmagni heilans. Geðklofi er ólæknanlegur en hægt er að meðhöndla hann með antipsychotic lyfjum. Hann er því oft borinn saman við sykursýki, sem er ólæknanleg en hægt er að halda í skefjum með insúlíni. Lyf við geðklofa geta haft óþægilegar aukaverkanir, svo sem truflað hreyfiskyn, og margir sjúklingar hætta að taka lyfin sín.

Niðurstöður hafa gefið til kynna að insight-oriented sálaraflsmeðferð, þar sem einstaklingurinn er beðinn að skilja orsakir hugarástands síns, er tilgangslaus og getur jafnvel haft neikvæð áhrif.

Batalíkur geðklofa hafa batnað síðustu áratugi. Þrátt fyrir að engin meðferð sé til sem lækni geðklofa er nauðsynlegt að muna það að margir sem fá meðferð geta lifað nokkuð eðlilegu lífi þrátt fyrir sjúkdóminn. Frekari rannsóknir, þróun lyfja og meðferðarform ættu að auka líkurnar á bata geðklofasjúklinga.

Þegar fylgst hefur verið með geðklofum í langan tíma er ljóst að afar mismunandi er hvernig þeir spjara sig. Sumir þættir virðast auka líkurnar á bata geðklofasjúklinga, svo sem ef einstaklingurinn hefur lifað sjálfstæðu lífi í samfélaginu áður og stundað vinnu. Þekking okkar á sjúkdóminum takmarkar hins vegar þær ályktanir sem við getum dregið af þessum staðreyndum. Ljóst er að þörf er á frekari rannsóknum á þessum sjúkdómi sem hefur svo alvarleg áhrif á líf þeirra sem af honum þjást.

Það er há tíðni sjálfsvíga meðal geðklofa og flest þeirra eiga sér stað á fyrstu árum eftir greiningu.

Geðklofi og lyf[breyta | breyta frumkóða]

Tvennt sérstaklega getur "kveikt" geðklofa: Lyf og streita. Þá er átt við að geðklofinn komi fram þegar einstaklingur er undir miklu álagi eða neytir efna í miklum mæli. Lyf sem geta þannig aukið líkur á að geðklofi komi fram eru örvandi lyf (svo sem kókaín og amfetamín), ofskynjunarlyf (svo sem LSD) og jafnvel marijúana.

Það hefur einnig vakið athygli að meirihluti geðklofa reykja. Á meðan algengi reykinga eru um 25% þá er talan hjá geðklofum allt að þrisvar sinnum hærri. Það getur verið sérstaklega erfitt fyrir geðklofa að hætta að reykja, þar sem fráhvarfseinkennin geta ýtt undir einkenni geðklofans. Það hefur einnig vakið athygli að geðklofar eru síður líklegri til að deyja úr lungnakrabbameini. Ekki er víst hver ástæðan fyrir því síðara er en hún getur legið í genum einstaklingsins eða í auknum líkum geðklofa á að deyja fyrir aldur fram.

Aðrar kenningar um geðklofa[breyta | breyta frumkóða]

Á sjöunda áratugnum komu fram kenningar um að geðklofar væru í raun og veru ekki veikir heldur endurspegluðu þeir öfgar fjölbreytileika mannfólksins og það, ásamt því að þeir næðu ekki að aðlagast samfélaginu nægjanlega vel, ylli því að þeim væri komið fyrir á hælum. Þessi nálgun er hluti mun viðameiri spurningar: hvað er heilbrigt og hvað ekki? Á meðan þær spurningar eru þarfar og eiga í flestum tilfellum rétt á sér gera þær lítið fyrir geðklofa í sjálfu sér. Geðklofi er sjúkdómur sem finnst í öllum samfélögum og prósenta þeirra sem taldir eru þjást af geðklofa er sömuleiðis svipuð alls staðar, burtséð frá menningu. Þau rök renna stoðum undir þá staðhæfingu að geðklofi sé í raun sjúkdómur sem gangi, a.m.k. að einhverju leyti, í erfðir.

Ýmislegt[breyta | breyta frumkóða]

Geðklofi og sjálfsvíg[breyta | breyta frumkóða]

Geðklofar eru í sérstaklega mikilli hættu á að fremja sjálfsvíg og talið er að allt að 10% þeirra sem þjást af geðklofa fremji sjálfsvíg, sérstaklega ungir karlmenn sem þjást af geðklofa. Engin ein ástæða er fyrir þessu en mikilvægar ástæður eru án efa sú kvöl sem oft fylgir sjúkdóminum og sú breyting á lífi einstaklinga sem hann hefur í för með sér.

Geta börn verið með geðklofa?[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem geðklofi er líffræðilegur sjúkdómur þá geta börn, strangt til tekið, verið með geðklofa. Sjúkdómurinn kemur hins vegar ekki fram fyrr en síðar. Sumir telja ákveðin persónueinkenni barna, svo sem undarlegt tal, vera merki um geðklofa en afar fá börn upplifa ofskynjanir eða þær óeðlilegu ranghugmyndir sem finnast í geðklofa.

Eru geðklofar vanalega ofbeldisfullir?[breyta | breyta frumkóða]

Fólk með geðklofa eru ekki alla jafna hættulegir öðrum og hafa rannsóknir sýnt að ofbeldisverknaðir mælast ekki í meira hlutfalli hjá þeim en fólki án geðraskana. Margir geðklofar kjósa enda að halda sig til hlés og blanda ekki geði við aðra. Hins vegar eru nokkrir þættir sem auka líkurnar á því að geðklofar sýna ofbeldishegðun og eru þeir mikilvægustu hvort þeir hafi sýnt ofbeldisfulla hegðun áður en þeir greindust með geðklofa og það hvort þeir misnoti áfengi. Í því tilviki er mikilvægt að muna það að áfengi eykur einnig líkur á ofbeldisverkum þeirra sem ekki hafa greinst með geðklofa.

Skáldsögur og kvikmyndir[breyta | breyta frumkóða]

Frekari lesning[breyta | breyta frumkóða]

  • Bentall, R. (2003) Madness explained: Psychosis and Human Nature. London: Penguin Books Ltd. ISBN 0-7139-9249-2
  • Green, M.F. (2001) Schizophrenia Revealed: From Neurons to Social Interactions. New York: W.W. Norton. ISBN 0-393-70334-7
  • Torey, E.F., M.D. (2001) Surviving Schizophrenia: A Manual for Families, Consumers, and Providers (4th Edition). Quill (HarperCollins Publishers) ISBN 0-06-095919-3
  • Vonnegut, M. The Eden Express. ISBN 0-553-02755-7. Persónuleg lýsing geðklofasjúklings.
  • Read, J., Mosher, L.R., Bentall, R. (2004) Models of Madness: Psychological, Social and Biological Approaches to Schizophrenia. ISBN 1-58391-906-6. Lífeðlisfræðilegar- og genafræðilegar kenningar varðandi geðklofa.
  • Boyle, Mary,(1993), Schizophrenia: A Scientific Delusion, Routledge, ISBN 0-415-09700-2 (Amazon Review).
  • Keen, T. M. (1999) Schizophrenia: orthodoxy and heresies. A review of alternative possibilities. Journal of Psychiatric and Mental Health Nursing, 1999, 6, 415-424. PDF Geymt 14 maí 2005 í Wayback Machine. Grein um ráðandi kenningar og aðrar kenningar um geðklofa.
  • Kelly, Evelyn B., Ph.D. (2001), Coping with Schizophrenia.
  • Szasz, T. (1976) Schizophrenia: The Sacred Symbol of Psychiatry. New York: Basic Books. ISBN 0-465-07222-4

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]