Þunglyndi (geðröskun)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Maður í geðlægð.

Þunglyndi er geðröskun sem felur í sér dapra lund, breytingar á hugsun, hegðun og líkamsheilsu. Langvinn vanlíðan með viðvarandi depurð, vonleysi og þeirri hugsun að flest eða allt sé tilgangslaust eru einkenni um sjúklegt þunglyndi. Sé vanlíðanin svo alvarleg að hún skerði námsgetu eða vinnuþrek og valdi truflun á einkalífi er um að ræða alvarlegt þunglyndi.

Þunglyndi eykur líkur á vinnutapi, erfiðleikum í samböndum og skipbroti í námi eða vinnu. Það gerir horfur þeirra sem eiga við líkamleg veikindi að etja verri og ýtir oft undir ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Læknisfræðilega er þunglyndi flokkað sem sjúkdómur sem veldur ekki eingöngu sálrænum einkennum, heldur margvíslegum áhrifum á mörg líffærakerfi líkamans. Talið er að á hverjum tíma séu um 4-6% þjóðarinnar með sjúklegt þunglyndi, þ.e. 12-18 þúsund manns, [1] og er talið að 15-20% fólks fái þunglyndi í einhverri mynd einhvern tímann á ævinni. [2]

Orsakir[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er vitað með vissu hvað það er sem veldur þunglyndi. Greina má ætlaðar orsakir gróflega í 3 flokka: Líffræðilega þætti, sálræna þætti og félagslega þætti:

Líffræðilegar orsakir: Mikill fjöldi rannsókna bendir til að líffræðilegir þættir eigi sinn þátt í þróun þunglyndis. Sumar rannsóknir hafa bent til ójafnvægis eða skorts á ákveðnum boðefnum í heila, enda hafa flest þunglyndislyf áhrif á virkni þessara boðefna (serótónín og noradrenalín).
Erfðir: Erfðarannsóknir benda sterklega til að erfðir eigi nokkurn þátt í þróun þunglyndis, að minnsta kosti hjá þeim sem veikjast aftur og aftur. Þáttur erfða er samt langt frá því að vera auðskilinn og mjög erfitt er að greina áhrif erfða frá áhrifum umhverfis vegna þess hve margir þættir fléttast iðulega saman við tilurð þunglyndis. Erfðaþátturinn er sterkari hjá þeim sem greinast með geðhvörf heldur en þeim sem greinast með þunglyndi en fá aldrei oflæti. Það er ekki sjúkdómurinn sjálfur sem erfist, heldur er það fremur tilhneigingin til að veikjast undir álagi.
Dægursveifla: Langt er síðan menn vissu að lyndisraskanir og óeðlilegt svefnmynstur færu saman. Hvort tveggja þekkist, að svefntruflanir leysi sjúkdóminn úr læðingi og svefntruflanir séu hluti af sjúkdómsmyndinni, en hið síðarnefnda er þó mun algengara. Gildir það bæði um þunglyndi og örlyndi.
Sálrænir og félagslegir þættir: Þrátt fyrir að erfðir og líffræðilegir þættir eigi þátt í orsök þunglyndis eru ýmsir sálrænir þættir eða umhverfisþættir einnig mikilvægir. Rannsóknir hafa einkum beinst að áhrifum: Gagnrýni í uppvexti, neikvæðs sjálfsmats, áunnins sjálfsbjargarleysis, missis foreldris, (einkum móður, þegar börn eru ung að aldri) og ofverndar án nærgætni.[3] Þættir eins og lágar tekjur, skilnaður eða sambandserfiðleikar, eða atvinnumissir geta aukið líkurnar á því að einstaklingar verði þunglyndir. [4]

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Þótt einkenni þunglyndis séu margvísleg og að vissu marki einstaklingsbundin má greina þau í nokkra meginflokka:

Breytt atferli: Þunglyndir kvarta oft um ýmislegt, til dæmis um peningaleysi, vinnuna, hávaða, umhverfið, einsemd, skort á ást og umhyggju og verri einbeitingu en áður. Einnig verða þeir óvirkir; draga gjarnan úr samskiptum við aðra, mæta verr í vinnu, eiga í erfiðleikum með að tjá sig og tala við aðra, hafa tilhneigingu til þess að liggja fyrir uppi í rúmi, kynlífslöngun minnkar og þeir vanrækja eigið útlit. Lítil ánægja fer að fylgja því sem áður var gaman. Þá eru sjálfsvígshótanir og sjálfsvígstilraunir einnig nokkuð algengar hjá einstaklingum með þunglyndi, einkum ef þeir sem eiga í hlut neyta áfengis eða annarra vímugjafa reglulega. Sjálfsvígshugsanir eru mjög algengar í langvinnu eða alvarlegu þunglyndi og endurspegla iðulega vonleysi og/eða sektarkennd. Stundum eru slíkar hótanir þó einkum til marks um reiði í garð ættingja og vina.
Breytt tilfinningaviðbrögð: Þeir sem stríða við þunglyndi finna oft fyrir tómleika og depurð. Sumir upplifa frekar dofnar tilfinningar en aðrir finna sárari og áleitnari tilfinningar en áður. Þreyta er algeng, einnig kvíði, spenna, eirðarleysi, leiði, áhugaleysi, aukin sektarkennd, vantraust á eigin getu, aukin viðkvæmni og tíðari grátur en áður.
Skert hæfni: Við þunglyndi skerðist félagshæfni, fólk hefur minna skopskyn en áður, verri skipulagshæfni og minnkaða getu til þess að leysa vandamál daglegs lífs.
Breytt viðhorf: Þunglyndi einkennist af lakara sjálfstrausti, neikvæðari sjálfsmynd, svartsýni, vonleysi og hjálparleysi. Fólk á von á hinu versta, ásakar sjálft sig og gagnrýnir sig, og sjálfsvígshugsanir geta skotið upp kollinum. Algengt er að finnast sem aðrir hafi yfirgefið mann eða séu að gefast upp á samskiptum við mann. Þessu fylgir minnkaður áhugi á samskiptum við aðra, kynlífi, mat, drykk, tónlist og hverju því sem venjulega vekur áhuga fólks.
Líkamleg einkenni: Þunglynt fólk á oft í erfiðleikum með svefn; það á erfitt með að sofna, sefur of mikið eða vaknar of snemma. Kynhvöt minnkar, matarlyst breytist (getur bæði aukist og minnkað), fólk þyngist eða léttist, fær meltingartruflanir, hægðatregðu, höfuðverki, svima, sársauka og aðra álíka kvilla eða einkenni. Eins og lesanda er væntanlega ljóst eru þær margvíslegu breytingar sem lýst er hér að ofan hamlandi á öllum sviðum mannlegs lífs og leiða iðulega af sér ómældar þjáningar hins veika og hans nánustu. Það er því mikilvægt að þunglyndir leiti sér hjálpar, til að mynda hjá klínískum sálfræðingum eða geðlæknum, til að vinna bug á meinum sínum.[5]

Undirflokkar[breyta | breyta frumkóða]

Meðal undirflokka þunglyndis eru:
Djúp geðlægð (Major depression-depressive episode, á ensku): Einkennist af einu eða fleiri tímabilum þar sem hlutaðeigandi finnur fyrir þunglyndiseinkennum sem skulu hafa varað að í a.m.k. 2 vikur. Lundin er þung, áhugi lítill eða enginn og getan til að gleðjast minnkar greinilega eða hverfur. Þreyta og framtaksleysi verður ráðandi. Sjálfsmat lækkar, svartsýni, sektarkennd eða vonleysi einkennir gjarna hugsanir. Matarlyst og svefn breytast gjarnan (skerðast eða aukast), sektarkennd verður oft áberandi og einbeiting ófullnægjandi. Sjálfsvígshugsanir geta sótt á. Mikil vanlíðan skerðir verulega getu einstaklingsins til að vinna, læra, hvílast, borða og taka þátt í athöfnum sem áður voru gefandi eða áhugaverðar.
Óyndi (Dysthymia á ensku): Einkennist af þrálátri þungri lund sem hefur staðið yfir nær látlaust í a.m.k. 2 ár. Einstaklingar sem þjást af óyndi geta t.d. lýst líðan sinni á þann hátt að þeir sjái nánast aldrei glaðan dag eða nái ekki að hrista af sér drungann. Þunglyndiseinkennin eru þó færri og vægari en í djúpri geðlægð og raska ekki eins mikið hæfni manna til að taka þátt í lífinu með eðlilegum hætti. Áhættan er þó á djúpri geðlægð.
Geðhvörf (Bipolar disorder eða manic depressive illness á ensku): Einnig þekkt sem geðhvarfasýki og tvískauta lyndisröskun. Geðhvörf einkennast af sveiflukenndu hugarástandi sem felur í sér bæði uppsveiflur (örlyndi) og niðursveiflur (þunglyndi).[6]

Meðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Helstu þættir meðferðar gegn þunglyndi eru lyfjameðferð og samtalsmeðferð. Hugræn atferlismeðferð hefur reynst gagnleg við þunglyndi.[7] Líkamsrækt hefur góð áhrif á milt og meðaldjúpt þunglyndi en hefur því miður lítil eða engin áhrif á djúpt þunglyndi. Hollt mataræði og reglusemi skiptir miklu. Mikilvægt er að sjúklingur þekki til sjúkdómseinkenna, hafi skilning á eðli og orsökum veikindanna og fræðist um horfur. Mælt er með að hann geri aðgerðaplan. [8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sjúklegt þunglyndi Doktor.is. Skoðað 5. mars. 2016.
  2. Rannsaka endurtekið þunglyndi Mbl.is. Skoðað 3. mars, 2016.
  3. Af hverju stafar þunglyndi? Vísindavefur. Skoðað 5. mars, 2016.
  4. [http://midstodsalfraedinga.is/sites/default/files/baekl_thunglyndi.pdf Þunglyndi og depurð - Leiðbeiningarbæklingur] Skoðað 5. mars, 2016.
  5. Hver er hin almenna skilgreining á þunglyndi? Vísindavefur. Skoðað 5. mars, 2016.
  6. Hvað er þunglyndi? Persona.is. Skoðað 5. mars, 2016
  7. MEðferðarhandbók - Ham Reykjalundur. Skoðað 5. mars, 2016.
  8. Sjúklegt þunglyndi Doktor.is. Skoðað 5. mars, 2016