Fara í innihald

Rökgreiningarheimspeki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rökgreining)
[edit]
Saga vestrænnar heimspeki
Fornaldarheimspeki
Forverar Sókratesar
Klassísk heimspeki
Hellenísk heimspeki
Rómversk heimspeki
Heimspeki síðfornaldar
Miðaldaheimspeki
Skólaspeki
Heimspeki endurreisnartímans
Heimspeki 15. aldar
Heimspeki 16. aldar
Nýaldarheimspeki
Heimspeki 17. aldar
Heimspeki 18. aldar
Heimspeki 19. aldar
Heimspeki 20. aldar
Rökgreiningarheimspeki
Meginlandsheimspeki
Heimspeki samtímans

Rökgreiningarheimspeki eða analýtísk heimspeki er ríkjandi heimspeki í hinum enskumælandi heimi. Hún varð til í upphafi 20. aldar en á rætur að rekja aftur til loka 19. aldar. Upphafsmenn rökgreiningarheimspekinnar voru þýski heimspekingurinn Gottlob Frege (1848-1925) og bresku heimspekingarnir G.E. Moore (18731958) og Bertrand Russell (18721970).

Rökgreiningarhefðin spratt upp úr tilraunum heimspekinga til að finna traustari grunn fyrir rökfræðina og til að smætta alla stærðfræði í rökfræði sem og frá áhuga þeirra á máli og merkingu. Rökgreiningarheimspekingar sóttu sumir innblástur sinn í breska raunhyggjuhefð, meðal annars til Davids Hume (17111776) og Johns Stuarts Mill (18061873), enda þótt ýmsir mikilvægir hugsuðir rökgreiningarhefðarinnar kæmu frá meginlandi Evrópu.

Ein afleiðing þessa var sú að rökfræði og málspeki urðu miðlæg viðfangsefni í heimspeki allt frá upphafi 20. aldar, enda þótt þau gnæfi ekki lengur yfir heimspekinni. Ýmsir skólar í heimspeki eiga uppruna sinn í fyrsta skeiði rökgreiningarheimspekinnar, sem fékkst einkum við tungumál og rökfræði. Meðal þeirra eru: rökfræðileg raunhyggja, rökfræðilegur atómismi, rökfræðihyggja and heimspeki hversdagsmáls. Rökgreiningarheimspekingar síðari tíma hafa meðal annars fengist við siðfræði (svo sem Philippa Foot, R.M. Hare, og J. L. Mackie), stjórnmálaheimspeki (svo sem John Rawls og Robert Nozick), fagurfræði (svo sem Arthur Danto), trúarheimspeki (svo sem Alvin Plantinga og Richard Swinburne), málspeki (svo sem W.V.O. Quine, Hilary Putnam, Donald Davidson, David Kaplan, John Searle og Saul Kripke), hugspeki (svo sem Donald Davidson, John Searle, Daniel Dennett og Paul Churchland) og athafnafræði (svo sem Elizabeth Anscombe og Donald Davidson). Analýtísk frumspeki hefur einnig orðið fyrirferðamikil (svo sem hjá P.F. Strawson, Saul Kripke, David Lewis og Peter van Inwagen).

Skilgreiningar á rökgreiningarheimspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Hugtakið rökgreiningarheimspeki er margrætt en í grófum dráttum má greina á milli þrenns konar skilgreininga á rökgreiningarheimspeki: (a) skilgreininga út frá tiltekinni kenningu, (b) skilgreininga út frá aðferðafræði, og (c) skilgreininga út frá hefðinni.

Skilgreiningar út frá tiltekinni kenningu

[breyta | breyta frumkóða]

Kenningarnar sem oftast eru sagðar vera kjarninn í rökgreiningarheimspekinni eru rökfræðileg raunhyggja og rökfræðilegur atómismi. Í aðeins víðari merkingu á hugtakinu telst heimspeki hversdagsmáls, heimspeki heilbrigðrar skynsemi eða einhver blanda af ofantöldu til rökgreiningarheimspeki. Þessi orðanotkun var eðlileg þangað til á 6. áratug 20. aldar. Fram að þeim tíma höfðu flestir rökgreiningarheimspekingar fengist við áþekk efni og haft áþekkar kenningar. Aftur á móti er þessi orðanotkun æ meira villandi, enda eru mjög fáir rökgreiningarheimspekingar eftir sem tilheyra einhverri þeirra hreyfinga sem áður töldust til rökgreiningarheimspeki.

Skilgreiningar út frá aðferðafræði

[breyta | breyta frumkóða]

„Aðferðafræði” rökgreiningarheimspekinnar er almenn aðferð við iðkun heimspekinnar. Upphaflega aðferðin fólst í rökgreiningu eða hugtakagreiningu. Seinna tók málgreining við sem meginaðferðafræði innan rökgreiningarheimspekinnar. Nú um stundir leggja rökgreiningarheimspekingar áherslu á skýrleika og nákvæmni í framsetningu heimspekilegra vandamála og í viðureigninni við þau, á röksemdafærslur og vitnisburð umfram mælskulist, og á að forðast margræðni. Þetta hefur leitt til þess að mörg viðfangsefni heimspekinnar eru betur fallin til sérhæfingar og nákvæmnisvinnu og hefur einnig gert skrif margra heimspekinga mun tæknilegri en þau voru áður. Leiða má líkum að því að þessi þróun hafi einnig gert að verkum að heimspekin hafi mun síður „lífsspekilegu“ víddina (sem fjallar til dæmisum tilgang lífssins og svo framvegis), sem oft er kennd við heimspeki. Gagnrýnendur rökgreiningarheimspekinnar benda gjarnan á þetta. Á hinn bóginn hefur þessi þróun eflt heimspekina sem fræðigrein og aukið mátt hennar, bætt rökræðugrundvöllinn og dregið úr líkununum á því að heimspekingar tali hverjir fram hjá öðrum.

Skilgreiningar út frá hefðinni

[breyta | breyta frumkóða]

Hefð rökgreiningarheimspekinnar hófst seint á 19. öld og um aldamótin með Gottlob Frege, Bertrand Russell, G. E. Moore, og Ludwig Wittgenstein við upphaf 20. aldar og henni tilheyra allir sem vinna í anda og að arfleifð þeirra sem og þau verk rökgreiningarheimspekinga sem hafa birst síðan. Hún einkennist fyrst og fremst af tilhneigingu til þess að skýra heimspekileg mál og gátur með greiningu og beitingu rökfræðinnar, þ.e. með aðferðinni sem lýst er í (2) að ofan.

Tengsl við meginlandsheimspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Hugtakið „rökgreiningarheimspeki“ vísar til þess að rætur þessarar heimspeki liggi að nokkru leyti í hugmyndinni um „rökgreiningu“ frá upphafi 20. aldar. Hugtakið hefur einnig verið notað til að greina að „rökgreiningarheimspeki“ frá annars konar heimspeki, einkum „meginlandsheimspeki“. Síðarnefnda heimspekin vísar einkum til evrópskrar heimspeki eftir Immanuel Kant Kant hefur verið innblástur bæði meginlandsheimspekingum og rökgreiningarheimspekingum en er venjulega ekki flokkaður sem meginlandsheimspekingur sjálfur né heldur sem rökgreiningarheimspekingur.

Annað hugtakið (rökgreiningarheimspeki) gefur til kynna heimspekilega aðferð, en hitt hugtakið (meginlandsheimspeki) gefur hins vegar til kynna landfræðilegan uppruna. Af þessum ástæðum er greinarmunurinn afar villandi. Margir af upphafsmönnum rökgreiningarheimspekinnar, Gottlob Frege, Ludwig Wittgenstein, Rudolf Carnap, og rökfræðilega raunhyggjan (Vínarhringurinn og Berlínarhringurinn), og pólsku rökfræðingarnir voru allir að störfum (a.m.k. hluta ævinnar) á meginlandi Evrópu. Í dag er stór hluti heimspekinnar í Þýskalandi, á Norðurlöndum og víða á meginlandi Evrópu rökgreiningarheimspeki. Á hinn bóginn fást gríðarlega margir í enskumælandi löndum við meginlandsheimspeki, oft í bókmenntafræði- eða menningarfræðideildum innan veggja háskóla.

Sumir telja að greinarmunurinn sé gagnslaus: Ekkert viðfangsefni meginlandsheimspekinnar er ófært um að vera rannsakað með hefðbundnum aðferðum og tólum rökgreiningarheimspekinnar. Hugtakið „meginlandsheimspeki“, myndi þá ef til vill, líkt og „Grísk heimspeki“, gefa til kynna ákveðið tímabil eða tiltekinn hóp heimspekilegra skóla eins og t.d. þýsku hughyggjuna, marxisma, sálgreinningu sem heimspeki, tilvistarstefnu, fyrirbærafræði og póst-strúktúralisma.

Formleg mál og náttúruleg tungumál

[breyta | breyta frumkóða]

Markmið rökgreiningarheimspekinnar er að skýra og leysa heimspekileg vandamál með því að rannsaka og skýra tungumálið, sem er notað til að setja vandamálin fram. Þetta hefur borið nokkurn árangur, meðal annars: nýtíma rökfræði, greinarmunurinn á skilningi og merkingu í greinargerð fyrir eðli merkingar, ófullkomleikasetningu Kurts Gödel, lýsingarhyggju Bertrands Russell, hrekjanleikakenningu Karls Popper og merkingarfræðilegu kenninguna um sannleikann, sem Alfred Tarski setti fram.

Það eru tveir rauðir þræðir í gegnum alla rökgreiningarhefðina. Annars vegar viðleitni til að skilja tungumál með hjálp táknlegrar rökfræði. Með öðrum orðum, að setja fram gátur heimspekinnar á formlegan máta með einum eða öðrum hætti.

Hins vegar viðleitni til að skilja heimspekilegar hugmyndir með ítarlegri og nákvæmri rannsókn á því náttúrulega tungumáli, sem er notað til að setja þær fram – oftast með þó nokkurri áherslu á heilbrigða skynsemi í meðförum erfiðra hugtaka.

Þessar tilhneigingar togast stundum á en stundum bæta þær hver aðra upp. Eins og frægt var Ludwig Wittgenstein í upphafi hallur undir þá aðferð að beita formlegum málum til þess að leysa heimspekileg vandamál en endaði á greiningu á náttúrulegum málum.

  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Analysis
  • „Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki?“. Vísindavefurinn.