Fara í innihald

Heimspeki 19. aldar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
[edit]
Saga vestrænnar heimspeki
Fornaldarheimspeki
Forverar Sókratesar
Klassísk heimspeki
Hellenísk heimspeki
Rómversk heimspeki
Heimspeki síðfornaldar
Miðaldaheimspeki
Skólaspeki
Heimspeki endurreisnartímans
Heimspeki 15. aldar
Heimspeki 16. aldar
Nýaldarheimspeki
Heimspeki 17. aldar
Heimspeki 18. aldar
Heimspeki 19. aldar
Heimspeki 20. aldar
Rökgreiningarheimspeki
Meginlandsheimspeki
Heimspeki samtímans

Heimspeki 19. aldar er ýmist talin síðasti hluti þess tímabils í sögu vestrænnar heimspeki, sem kallast nýaldarheimspeki, eða sérstakt tímabil í sögu heimspekinnar, sem tekur við af nýaldarheimspeki en fer á undan heimspeki 20. aldar.

Stutt sögulegt yfirlit[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 17891815 breyttu byltingar, stríð og átök evrópskri menningu. Þegar margar af félagslegum og menningarlegum hefðum liðinnar aldar höfðu liðið undir lok var búið að varða veginn fyrir róttækar efnahagslegar og stjórnmálalegar breytingar. Evrópsk heimspeki tók þátt í og knúði áfram margar þessara breytinga.

Áhrif frá tíma upplýsingarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Á 18. öld höfðu heimspekingar upplýsingartímans gríðarleg áhrif og verk heimspekinga á borð við David Hume, Immanuel Kant og Jean-Jacques Rousseau höfðu mikil áhrif á nýja kynslóð hugsuða. Seint á 18. öld reyndi hreyfing sem kennd er við rómantík að sameina skynsemisviðhorf fortíðarinnar og lífrænni og tilfinningalegri sýn á veruleikann. Helstu hugmyndirnar sem kveiktu þennan neista voru hugmyndir um þróun, sem Johann Wolfgang von Goethe og Charles Darwin héldu fram, og hugmyndir um það sem kalla mætti undirliggjandi reglu, til dæmis frjáls markaður Adams Smith. Aukinn þrýstingur fyrir jafnrétti og örari breytingum náði hámarki með byltingum og óreiðu sem höfðu einnig áhrif á heimspekina.

Á síðasta þriðjungi 18. aldar komu fram fjölmargar hugmyndir sem bæði kerfisbundu fyrri heimspeki og ögruðu sjálfum grundvellinum að kerfisbindingu heimspekinnar. Immanuel Kant var áhrifamesti heimspekingur þessa tíma. Annar áhrifamikill heimspekingur tímabilsins var Jean-Jacques Rousseau. Báðir voru þeir afurð 18. aldarinnar en áttu báðir mikinn þátt í að umbreyta hugarfari 18. aldarinnar. Rousseau, í tilraun til þess að útskýra eðli ríkisvaldsins ögraði sjálfri undirstöðu ríkisvaldsins með yfirlýsingu sinni um að „maðurinn er frjáls borinn en hvarvetna í hlekkjum“. Kant, í tilraun til að sameina raunhyggju og rökhyggju og finna mannlegri þekkingu öruggan grundvöll, neyddist til að halda því fram að við sæjum ekki hlutina í sjálfum sér, heldur aðeins hlutina eins og þeir birtast okkur.

Þýska hughyggjan[breyta | breyta frumkóða]

Heimspeki Kants, sem er nefnd forskilvitleg hughyggja, varð seinna sértækari og almennari, í höndunum á þýsku hughyggjumönnunum. Þýsk hughyggja náði vinsældum í kjölfarið á útgáfu G.W.F. Hegels á Fyrirbærafræði andans (Phänomenologie des Geistes) árið 1807. Í ritinu heldur Hegel því fram að markmið heimspekinnar sé að koma auga á mótsagnirnar sem blasa við í mannlegri reynslu (sem verða til, meðal annars, vegna þess að menn viðurkenna bæði að sjálfið sé virkt, huglægt vitni og óvirkur hlutur í heiminum) og að losa okkur við þessar mótsagnir með því að samræma þær. Hegel sagði að sérhver staða (thesis) skapaði eigin andstöðu (antithesis) og að úr þeim tveimur yrði til niðurstaða (synthesis), ferli sem er þekkt sem „hegelsk þrátt“. Meðal heimspekinga í hegelsku hefðinni eru Ludwig Andreas Feuerbach og Karl Marx.

Gagnrýni tilvistarspekinnar[breyta | breyta frumkóða]

Um miðbik 19. aldar kom fram mikil gagnrýni á hegelska heimspeki frá danska heimspekingnum Søren Kierkegaard (1813 – 1855), sem einnig gagnrýndi dönsku kirkjuna fyrir innantóm formlegheit.[1] Kierkegaard er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar sem varð vinsæl heimspekistefna á 20. öld. Heimspeki Kierkegaards er stundum lýst sem „kristilegri tilvistarspeki“ eða „tilvistarspekilegri sálarfræði“.

Annar mikilvægur hugsuður á síðari hluta aldarinnar var Friedrich Nietzsche (1844 – 1900). Nietzsche var einnig gagnrýninn á þýska hughyggjumenn sem og á viðteknar siðferðishugmyndir og á trúarbrögðin.[2] Frægasta hugmynd Nietzsches er hugmynd hans um „ofurmennið“, sem hefur sig upp yfir „þrælasiðferðið“ og skilgreinir forsendur eigin tilvistar.

Raunhyggja, frjálslyndi og leikslokasiðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Breski heimspekingurinn John Stuart Mill[3] (1806-1873) hélt áfram raunhyggjuhefðinni þar í landi en árið 1843 kom út eftir hann ritið Rökkerfi (A System of Logic) þar sem hann setti fram fimm lögmál um aðleiðslu, sem áttu að varpa ljósi á orsakavensl. Lögmálin eru nefnd aðferð Mills. Í siðfræði setti Mill fram nytjastefnuna sem er leikslokasiðfræði í anda Jeremys Bentham en hugmyndin hafði upphaflega komið fram hjá David Hume.[4] Nytjastefnan varð gríðarlega vinsæl siðfræði í hinum enskumælandi heimi og var ríkjandi kenning fram á síðari hluta 20. aldar. Mill varði frjálshyggju í ritinu Frelsið (On Liberty), sem kom út árið 1859, og mælti fyrir kvenréttindum í ritinu Kúgun kvenna (The Subjection of Women), sem kom út árið 1869 og markaði upphaf femínískrar frjálshyggju.

Ameríska gagnhyggjan[breyta | breyta frumkóða]

Seint á 19. öld varð til ný heimspeki í nýja heiminum. Charles Sanders Peirce (1839 – 1914) og William James (1842 – 1910) eru taldir frumkvöðlar þeirrar stefnu sem nefnist gagnhyggja[5] (e. pragmatism), sem kynnti til sögunnar það sem síðar nefndist verkhyggja, það er sú hugmynd að það sem sé mikilvægt fyrir góða (vísindalega) kenningu sé gagnsemi hennar en ekki hversu vel hún endurspeglar raunveruleikann. Meðal hugsuða innan þessarar hefðar eru John Dewey, George Santayana og C.I. Lewis. Heimspekingarnir Henri Bergson og G.E. Moore voru um margt sama sinnis og gagnhyggjumennirnir enda þótt þeir séu venjulega ekki sjálfir taldir til gagnhyggjumanna. Á 20. öld hefur gagnhyggjan átt málsvara á borð við Richard Rorty og Hilary Putnam sem hafa farið með hana á nýjar brautir.[6]

Helstu heimspekingar 19. aldar[breyta | breyta frumkóða]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Søren Kierkegaard“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  2. „Friedrich Nietzsche“ og „Nietzsche's Moral and Political Philosophy“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  3. Um Mill, sjá John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998). Einnig: „John Stuart Mill“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  4. Um siðfræði Mills má lesa hér. Um nytjastefnu almennt má lesa hér. Um siðfræði Humes er fjallað hér og hér.
  5. Um Peirce má lesa hér; um James má lesa hér.
  6. Sjá Richard Rorty, Philosophy and the Mirror of Nature (Princeton: Princeton University Press, 1981) og Consequences of Pragmatism (Minneapolis: University of Minnesota Press, 1982). Um Putnam, sjá Yemima Ben-Menahem, Hilary Putnam (Cambridge: Cambridge University Press, 2005) og Maximilian De Gaynesford, Hilary Putnam (McGill-Queen's University Press, 2006).