Merking

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Merking er það sem tengir merkingarbera við það sem hann á við eða tjáir. Merking er viðfangsefni bæði málvísinda, merkingarfræði og málspeki eða heimspeki tungumáls.

Merkingarberi[breyta | breyta frumkóða]

Merkingarberi er sú eining sem er merkingarbær, það er að segja það sem getur haft merkingu. Oftast eru orð talin merkingarbær en í málvísindum er gjarnan litið á orðshluta sem merkingarbærar einingar og er þá minnsta merkingarbæra einingin nefnd morfem (myndan). Í málspeki er á hinn bóginn stundum litið svo á að einungis setningar sem tjá heildstæða hugsun séu merkingarbærar og að orð séu ekki merkingarbær nema þegar þau eru notuð.

Skilningur og tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

Ein áhrifamesta kenning málspekinnar um merkingu er sú hugmynd Gottlobs Frege að merking sé tvíþætt og felist í tilvísun annars vegar og skilningi hins vegar (á þýsku „Bedeutung“ og „Sinn“).[1] Með tilvísun er átt við það sem orð (eða heil setning) vísar til. Tilvísun orðsins „Morgunstjarnan“ er því reikistjarnan Venus, þ.e. sjálf reikistjarnan sem átt er við. Með skilningi er átt við inntak orðsins. Skilningur orðsins „Morgunstjarnan“ gæti því verið „skærasta stjarnan á himninum fyrir sólarupprás“. Með þessum greinarmuni taldi Frege að honum tækist að útskýra hvernig fullyrðing á borð við „Morgunstjarnan er Kvöldstjarnan“ gæti verið upplýsandi; ef merking væri einungis fólgin í tilvísuninni væri fullyrðingin ekki upplýsandi því þá jafngilti hún því að segja „Venus er Venus“.

Frege og Bertrand Russell héldu fram svokallaðri lýsingarhyggju til að útskýra í hverju tilvísunin fælist. Þeir töldu að tilvísunin væri fólgin í lýsingu sem mælandinn hefði í huga. Þannig væri tilvísunin til Aristótelesar þegar maður nefnir hann fólgin í einhverri lýsingu á Aristótelesi sem maður hefði í huga, t.d. „nemandi Platons og kennari Alexanders mikla“.

Frege setti kenningu sína fram í greininni „Über Sinn und Bedeutung“ („Skilningur og tilvísun“) árið 1892. Greinarmuni hans svipar til en er ekki nákvæmlega sá sami og greinarmunur Johns Stuarts Mill á tilvísun og aukamerkingu (á ensku „denotation“ og „connotation“). Russell setti fyrst fram lýsingarhyggjuna í grein sinni „Um tilvísun“ (á ensku „On Denoting“) sem birtist fyrst árið 1905 í tímaritinu Mind.[2]

Lýsingarhyggjan varð fyrir alvarlegri gagnrýni snemma á 8. áratug 20. aldar, einkum frá Hilary Putnam og Saul Kripke og hafa vinsældir kenningarinnar dalað síðan þá enda þótt hún eigi sér enn málsvara, einkum John Searle.

Merking og notkun[breyta | breyta frumkóða]

Önnur nálgun sem kom fram um miðja 20. öld gekk út frá því að merking orðs væri fólgin í notkun þess. Þessa nálgun má rekja til Ludwigs Wittgenstein í riti sínu Rannsóknir í heimspeki sem kom út að honum látnum árið 1953. Kenning Wittgensteins á sér marga málsvara í heimspeki samtímans en hafði einnig gríðarleg áhrif á marga hugsuði, svo sem P.F. Strawson, H.P. Grice, J.L. Austin og mannamálsheimspekina í Oxford.

Sannkjör, sannleikur og merking[breyta | breyta frumkóða]

Á síðasta þriðjungi 20. aldar setti bandaríski heimspekingurinn Donald Davidson fram áhrifamikla kenningu um merkingu sem byggði á kenningu pólska rökfræðingsins Alfreds Tarski um sannleika. Kenning af því tagi sem Davidson hefur haldið fram er nefnd sannkjarakenning um merkingu. Samkvæmt sannkjarakenningu um merkingu er merking staðhæfinga fólgin í sannkjörum þeirra en sannkjörin eru þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að staðhæfing geti talist sönn. Samkvæmt þessu skilur maður staðhæfingu ef og aðeins ef maður veit hvernig heimurinn þyrfti að vera til þess að hún gæti talist sönn. Maður skilur til dæmis setninguna „Ísland er í Asíu“ og veit þar af leiðandi hver merking hennar er ef og aðeins ef hann áttar sig á sannkjörum fullyrðingarinnar, það er að segja áttar sig á því hvernig heimurinn væri ef hún væri sönn. Á hliðstæðan máta má segja að maður skilji spurningu og skipun ef og aðeins ef maður veit hvaða upplýsingar þyrftu að koma fram til að svara spurningunni og hvað þyrfti að gera til þess að hlýða skipuninni.

Davidson birti greinina „Truth and Meaning“ árið 1967 þar sem hann færði rök fyrir því að það yrði að vera hægt að lýsa reglum allra tungumála sem hægt er að læra með endanlegri lýsingu, enda þótt á tungumálinu væri hægt að mynda óendanlegan fjölda setninga — eins og gera má ráð fyrir að náttúruleg tungumál séu. Ef ekki væri hægt að lýsa reglum málsins í endanlegri lýsingu, þá væri ekki hægt að læra málið af reynslunni (sem er endanleg) líkt og menn læra tungumál sín. Af þessu leiðir að það hlýtur að vera mögulegt að setja fram merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál sem getur lýst merkingu óendanlegs fjölda setninga á grundvelli endanlegs fjölda frumsendna. Davidson fylgdi í kjölfar Rudolfs Carnap og annarra og færði einnig rök fyrir því að merking setningar væri fólgin í sannkjörum hennar og greiddi þannig götu sannkjarakenninga í merkingarfræði nútímans. Í stuttu máli lagði hann til að það hlyti að vera mögulegt að greina endanlegan fjölda málfræðireglna í tungumáli og útskýra hvernig hver og ein þeirra virkar þannig að mynda mætti augljóslega sannar fullyrðingar um sannkjör allra þeirra óendanlega mörgu setninga sem hafa sannkjör. Það er að segja, það verður að vera hægt að gefa endanlega kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál; prófsteinninn á það hvort kenningin er rétt er sá hvort hún getur myndað allar setningar á forminu „'p' er sönn ef og aðeins ef p“ (t.d. „'Snjór er hvítur' ef og aðeins ef snjór er hvítur“). (Þessar setningar nefnast T-jafngildi en Davidson fær hugmyndina að láni frá Alfred Tarski.)

Davidson setti kenninguna fyrst fram í John Locke-fyrirlestrunum sem hann flutti í Oxford og í kjölfarið reyndu fjölmargir heimspekingar að þróa davidsonskar kenningar í merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál. Davidson lagði margt fram til slíkrar kenningar í ritgerðum um tilvitnanir, óbeinar ræður og lýsingar á athöfnum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sjá Frege, Gottlob, „Skilningur og merking“, Guðmundur Heiðar Frímannsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 9-29.
  2. Sjá Russell, Bertrand, „Um tilvísun“, Ólafur Páll Jónsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994).

Heimildir og frekari fróðleikur[breyta | breyta frumkóða]

  • Austin, J.L., How to Do Things With Words] (Cambridge: Harvard University Press, 1962).
  • Davidson, Donald, Inquiries into Truth and Meaning 2. útg. (Oxford: Oxford University Press, 2001).
  • Dummett, Michael, Frege: Philosophy of Language 2. útg. (Cambridge: Harvard University Press, 1981).
  • Gauker, Christopher, Words without Meaning (Cambridge, MA.: MIT Press, 2003).
  • Grice, Paul, Studies in the Way of Words (Cambridge: Harvard University Press, 1989).
  • Grice, Paul, „Utterer's Meaning and Intention“, The Philosophical Review 78 (1969): 147-77.
  • Frege, Gottlob, „Skilningur og merking“, Guðmundur Heiðar Frímannsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994): 9-29.
  • Horwich, Paul, Meaning (Oxford: Oxford University Press, 1999).
  • Lycan, William G., Philosophy of Language: A Contemporary Introduction (London: Routledge, 2000)
  • Miller, Alexander, Philosophy of Language (London: UCL Press, 1998).
  • Russell, Bertrand, Inquiry into Meaning and Truth (London: Routledge, 1992).
  • Russell, Bertrand, „Um tilvísun“, Ólafur Páll Jónsson (þýð.), hjá Ólafi Páli Jónssyni og Einari Loga Vignissyni (ritstj.), Heimspeki á 20. öld (Reykjavík: Mál og menning, 1994).
  • Searle, John og Daniel Vanderveken, Foundations of Illocutionary Logic (Cambridge: Cambridge University Press, 1985).
  • Searle, John, Expression and Meaning (Cambridge: Cambridge University Press, 1979).
  • Searle, John, Intentionality (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
  • Searle, John, Speech Acts (Cambridge: Cambridge University Press, 1969).
  • Taylor, Kenneth, Truth & Meaning: An Introduction to the Philosophy of Language (London: Blackwell, 1998).
  • Travis, Charles, The Uses of Sense: Wittgenstein's Philosophy of Language (Oxford: Oxford University Press, 1989).

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Mikilvægir hugsuðir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]