Fara í innihald

Pitcairn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Pitcairn Islands)
Pitcairn Islands
Fáni Pitcairn Skjaldarmerki Pitcairn
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Come Ye Blessed
Staðsetning Pitcairn
Höfuðborg Adamstown
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Laura Clarke
Bæjarstjóri Charlene Warren-Peu
Bresk hjálenda
 • Landnám 15. janúar 1790 
 • Nýlenda 30. nóvember 1838 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

47 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
236. sæti
50
1/km²
Gjaldmiðill nýsjálenskur dalur
Tímabelti UTC-8
Þjóðarlén .pn
Landsnúmer +64

Pitcairn (pitkern Pitkern Ailen) er eyja og fjögurra eyja eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi. Aðeins næststærsta eyjan, Pitcairn, er byggð. Hinar heita Henderson, Ducie og Oeno. Eyjarnar eru aðeins 47 ferkílómetrar að stærð samanlagt og dreifast um 100 ferkílómetra hafsvæði. Henderson er langstærst, með 86% af landsvæði eyjanna, en er óbyggð. Næstu eyjar eru Mangareva (hluti af Frönsku Pólýnesíu) í vestri og Páskaeyja í austri.

Eyjarnar eru eina breska nýlendan sem eftir er í Kyrrahafi. Eyjarnar, sem voru áður óbyggðar, eru þekktastar fyrir það að þar námu land uppreisnarmenn af skipinu Bounty ásamt þeim Tahítíbúum sem fylgdu þeim. Pitcairn er fámennasta lögsagnarumdæmi heims; í janúar 2020 höfðu aðeins 43 fasta búsetu þar.[1] Flestir hafa íbúar eyjanna verið 233 árið 1937. Árið 2004 lenti samfélagið á eyjunum í miklum vandræðum þegar sjö karlar á eyjunum voru kærðir fyrir að nauðga mörgum stúlkum á barnsaldri þar og í ljós kom að það virðist hafa viðgengist þar að fullorðnir karlar nauðgi stelpum allt niður í 10-11 ára aldur.[2] Sex þeirra fengu dóma og var sá síðasti látinn laus árið 2009.[3]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Pitcairn-eyjar eru suðaustasti hluti Tuamotu-eyja (sem flestar tilheyra Frönsku Pólýnesíu), og eru fjórar talsins: Pitcairn-eyja, Oeno (hringrif með fjórum smáeyjum, þar á meðal Sandy Island), Henderson og Ducie (hringrif með fjórum smáeyjum).

Eyjarnar mynduðust úr hraunkviku á heitum reit. Pitcairn-eyja er leifar af eldfjalli, aðallega mynduð úr móbergi, en norðurhlið öskjunnar hefur brotnað niður. Pitcairn er eina eyjan með varanlega byggð.[4] Aðalbyggðin á eyjunni er Adamstown, ofan í gígnum.[4] Aðeins er hægt að komast til Pitcairn með skipi um Bounty-vík, út af bröttum klettum.[4] Eyjan Henderson, sem er langstærsta eyjan í eyjaklasanum þar sem fjölbreytt dýralíf heldur til, getur líka borið mannabyggð, þrátt fyrir vatnsskort, en er óaðgengileg þar sem brattir kalksteinsklettar umkringdir hvössum kóröllum liggja eftir allri ströndinni. Árið 1988 var Henderson sett á Heimsminjaskrá UNESCO.[5] Aðrar eyjar eru í meira en 100 km fjarlægð og eru óbyggilegar.

Ekkert varanlegt vatnsból er á Pitcairn-eyju, en þar eru þrjár árstíðabundnar uppsprettur.[4]

Eyja eða hringrif Tegund Stærð þurrlendis
(km2)
Heildarstærð
(km2)
Íbúar
2020
Staðsetning
Ducie hringrif 0,7 3,9 0 24°40′28″S 124°47′10″V / 24.67444°S 124.78611°V / -24.67444; -124.78611
Henderson upplyft kóraleyja 37,3 37,3 0 24°22′01″S 128°18′57″V / 24.36694°S 128.31583°V / -24.36694; -128.31583
Oeno hringrif 0,65 16,65 0 23°55′40″S 130°44′30″V / 23.92778°S 130.74167°V / -23.92778; -130.74167
Pitcairn-eyja eldfjallaeyja 4,6 4,6 50 25°04′00″S 130°06′00″V / 25.06667°S 130.10000°V / -25.06667; -130.10000
Pitcairn
(allar eyjarnar)
43,25 62,45 50 23°55′40″ að 25°04′00″S,
124°47′10″ að 130°44′30″V

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Pitcairn er breskt handanhafssvæði með heimastjórn. Fulltrúi Bretadrottningar er stjórnarfulltrúi Bretlands á Nýja-Sjálandi, með aðsetur í Wellington, sem er jafnframt landstjóri á Pitcairn.[6]

Stjórnarskrá Pitcairn frá 2010 gefur eyjunum leyfi til sjálfstjórnar með fulltrúalýðræði, meðan Bretland fer með varnar- og utanríkismál. Pitcairn er fámennasta lýðræði heims. Landstjórinn og eyjaráðið geta sett lög til að tryggja „frið, reglu og góða stjórn“ á Pitcairn. Eyjaráð Pitcairn skipar venjulega borgarstjóra til að sjá um daglega stjórn. Landstjórinn skipar ráðgjafa sem sér um samskipti milli ráðsins og skrifstofu landstjóra.

Frá 2015 hafa hjónabönd samkynhneigðra verið lögleg á Pitcairn, þótt ekki sé vitað um nein samkynhneigð pör á eyjunni.[7]

Nýlendunefnd Sameinuðu þjóðanna telur Pitcairn með á lista Sameinuðu þjóðanna yfir landsvæði án sjálfstjórnar.[8]

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]
Adamstown
Kirkjan í Adamstown.

Eina kirkjan á Pitcairn er kirkja sjöunda dags aðventista.[9] Sjöunda dags aðventistar eru ekki ríkistrú á Pitcairn þar sem engin lög hafa verið sett af heimastjórninni um hana. Íbúar eyjarinnar snerust til sjöunda dags aðventisma undir lok 19. aldar. Á síðustu árum hefur aðild að kirkjunni dalað og eftir 2000 sóttu aðeins átta af 40 íbúum eyjarinnar messur reglulega,[10] en flestir mæta í kirkjuna við sérstök tækifæri. Frá sólarlagi á föstudegi til sólarlags á laugardegi halda eyjarskeggjar sabbatinn hátíðlegan.

Kirkjan var reist árið 1954 og er rekin af kirkjuráði og presti sem oftast gegnir embættinu í tvö ár. Sabbatskólinn hittist kl. 10 á laugardagsmorgnum og klukkustund síðar hefst guðsþjónusta. Á þriðjudagskvöldum er bænastund.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Young, Simon (Janúar 2020). „Letters to the Editor“. The Pitcairn Miscellany.. árgangur 63 no. 1.
  2. Tweedie, Neil (5. október 2004). „Islander changes his plea to admit sex assaults“. The Telegraph. London. Afrit af uppruna á 12. ágúst 2017. Sótt 29. nóvember 2011.
  3. „Last Pitcairn rape prisoner released“. The Sydney Morning Herald. 23. apríl 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2015. Sótt 4. júlí 2015.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 Furey, Louise; Ash, Emma (2021). 'Old Stones for Cash'. The acquisition history of the Pitcairn stone tool collection in Auckland Museum“. Records of the Auckland Institute and Museum. 55 (55): 1–18. doi:10.32912/ram.2020.55.1. ISSN 0067-0464. Sótt 19. apríl 2021.
  5. Editors of Encyclopædia Britannica, The (2015). Pitcairn Island: Island, Pacific Ocean. Afrit af uppruna á 24. nóvember 2015. Sótt 20. október 2015.
  6. "Home Geymt 31 ágúst 2006 í Wayback Machine." Government of the Pitcairn Islands. Sótt 31. október 2011.
  7. „Pitcairn Island, population 48, passes law to allow same-sex marriage“. TheGuardian.com. Associated Press. 22. júní 2015. Afrit af uppruna á 15. desember 2015. Sótt 12. desember 2016.
  8. „United Nations list of Non-Self-Governing Territories“. United Nations. Afrit af uppruna á 27. febrúar 2014. Sótt 4. júlí 2015.
  9. „CIA World Factbook: Pitcairn Islands“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 26. febrúar 2013.
  10. „Turning Point for Historic Adventist Community on Pitcairn Island“. Adventist News Network. Silver Spring, Maryland: General Conference of Seventh-day Adventists. 28. maí 2001. Afrit af uppruna á 19. október 2015. „Although the Adventist Church has always maintained a resident minister and nurse on Pitcairn, there have been fewer adherents and some church members have moved away from the island. By the end of 2000, regular church attendees among the island population of 40 numbered only eight.“
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.