Fara í innihald

Menntaskólinn á Akureyri

Hnit: 65°40′35″N 18°05′40″V / 65.6765°N 18.0944°V / 65.6765; -18.0944
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Menntaskólin á Akureyri

Latína: Schola Akureyrensis
Einkunnarorð Virðing - Víðsýni - Árangur
Stofnaður 1880 (1106)
Skólameistari Karl Frímannson
Aðstoðarskólameistari Sigurlaug A. Gunnarsdóttir
Nemendur 607
Nemendafélag Huginn
Skólablað Muninn
Staðsetning Eyrarlandsvegi 28, 600 Akureyri
Gælunöfn MA (skammstöfun)
Gælunöfn nemenda MA-ingar
Heimasíða www.ma.is

Menntaskólinn á Akureyri (latína Schola Akureyrensis), skammstafað MA, er íslenskur framhaldsskóli staðsettur á Brekkunni á Akureyri. Núna er skólinn bóknámsskóli, sem býður upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs frá hausti 2016. Við hann eru þrjár meginbrautir, náttúrufræðibraut, félagsgreinabraut og mála- og menningarbraut, sem greinast í fleiri brautir.


Menntaskólinn á Akureyri er ein af elstu og helstu menntastofnunum landsins. Hann hefur verið starfræktur á Akureyri frá árinu 1904.

Upphaf Menntaskólans á Akureyri er yfirleitt rakið til stofnunar Möðruvallaskóla á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880. Þó má líta á skólann sem beint framhald af því skólahaldi sem fór fram á Hólum í Hjaltadal allt frá biskupstíð Jóns Ögmundssonar um 1106 og stóð til 1802 þegar Hólaskóli var lagður niður með konungsbréfi.

Jón biskup helgi með bók og biskupsstaf. – Mynd úr íslensku handriti frá 19. öld.

Fyrsti Hólabiskupinn, Jón Ögmundsson, var vel menntaður, hafði alist upp hjá Ísleifi biskupi Gissurarsyni og lært hjá honum. Hann stofnaði fljótlega skóla á Hólum, líklega um 1108, þótt oftast sé skólinn talinn hafa verið stofnaður 1106 þegar Jón var vígður. Skólinn var reistur í vestur frá kirkjudyrum og var hin vandaðasta smíð.

Möðruvellir í Hörgárdal. Skólahúsið er til vinstri.

Um leið og Hólaskóli hafði verið lagður niður hófst barátta Norðlendinga fyrir því að „norðlenski skólinn“ yrði endurreistur. Stofnun Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum 1880 var sigur í þeirri baráttu.

Gagnfræðiskólinn á Akureyri

[breyta | breyta frumkóða]

1902 brann skólahúsið á Möðruvöllum og var skólinn þá fluttur um set til Akureyrar og var þá kallaður Gagnfræðaskólinn á Akureyri. Fyrstu tvö árin á Akureyri hafði hann aðsetur í Hafnarstræti 53 en fluttist svo inn í hið nýja Gagnfræðaskólahús við Eyrarlandsveg haustið 1904 þegar bygging þess var langt komin. Húsið er enn í notkun og kallast nú Gamli skóli. Árið1905 var skólinn tengdur Menntaskólanum í Reykjavík þannig að nemendur gátu tekið fyrstu þrjú ár hans á Akureyri og sest svo beint í fjórða bekk í Reykjavík.

Á árunum 1924–1927 fór svo fram menntaskólakennsla í fyrsta sinn í skólanum þ.e. seinni þrjú árin til viðbótar við þau þrjú sem áður hafði verið boðið uppá. Þeir nemendur sem luku því námi fengu svo utanskóla stúdentspróf frá MR vorið 1927. Á árunum 1927–1930 var mikil togstreita um það á Alþingi og í ráðuneytum hvort leyfa ætti skólanum að brautskrá stúdenta. Þeirri baráttu lauk ekki fyrr en 1930 þegar skólinn var gerður alfarið að menntaskóla og tók sér núverandi nafn. Síðan 1930 hefur skólinn stækkað mjög við sig í nemendafjölda og húsakosti og nú stunda þar um 600 manns nám og skólinn útskrifar um 200 stúdenta á ári hverju.

Árið 2008 voru samþykkt ný lög um framhaldsskóla á Íslandi. Haustið 2010 hóf MA kennslu eftir nýrri námskrá í 1. bekk og fyrstu stúdentar samkvæmt nýrri námskrá voru brautskráðir vorið 2014.

Menntaskólinn á Akureyri bauð áfram upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs, eða 240 framhaldsskólaeiningar eftir að framhaldskólinn var styttur í þrjú ár. Námið skiptist í kjarna og val, en val hefur verið aukið í nýju kerfi og er nú um fjórðungur námsins. Nemendur geta ýmist valið sér kjörsviðsgreinar eða áfanga í frjálsu vali. Síðustu stúdentar eftir því kerfi brautskráðust 2019.

Námsframboð

[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn á Akureyri er hefðbundinn bóknámsskóli sem býður upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Skólinn er bekkjaskóli og hefur verið frá stofnun hans. Einnig gefst einstaklingum nokkur kostur á valáföngum innan hvers sviðs.

MA hefur lengi haft leið fyrir nemendur til að ljúka stúdentsprófi 19 ára, með því að taka við öflugum nemendum beint úr 9. bekk í grunnskóla.

Samkvæmt nýjustu námsskrá býður skólinn upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs, eða 200 framhaldsskólaeiningar, með valmöguleikum nemenda að taka stúdentspróf á lengri tíma, 3½ eða 4 árum. Námið skiptist í sameiginlegan kjarna, bundið pakkaval og brautarkjarna.

Allir nemendur í 1. bekk taka íslandsáfangann, sem er tvískiptur stór 20 feininga samsettur áfangi, um það bil helmingur námseininga á fyrsta ári. Annars vegar er um að ræða menningarlæsi með áherslu á íslensku, sögu og samfélagsgreinar, og hins vegar náttúrulæsi, með áherslu á íslensku, jarðfræði og náttúrufræðigreinar.

Námsbrautir eru:

  • Náttúrufræðibrautir sem skiptast niður í:
    • Heilbrigðisbraut
    • Raungreina- og tæknibraut
    • Náttúrufræðibraut
  • Mála- og menningarbraut
  • Kjörnámsbrautir sem eru:
    • Leiklistabraut
    • Tónlistarbraut
  • Félagsgreinabraut

Félagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkuð er um gamlar hefðir í skólanum og má til dæmis nefna þegar nemendur safnast á ganga Gamla skóla til þess að reyna að syngja fyrir fríi eða söngsal.

Skólafélagið Huginn

[breyta | breyta frumkóða]

Skólafélagið Huginn sér um skipulag félagslífsins, gefur út skólablaðið Muninn og stendur fyrir viðburðum á borð við Ratatosk sem eru opnir dagar þar sem brugðið er útaf hefðbundinni stundaskrá skólans og boðið upp á ýmiss konar fyrirlestra og námskeið. Undir skólafélaginu starfa svo fjölmörg félög eins og leikfélagið LMA, dansfélagið PríMA, tónlistarfélagið TóMA, íþróttafélagið ÍMA, kórinn SauMA, ljósmynda- og myndbandafélag, kaffivinafélagið KaffMA og svo framvegis. Algengt er að nöfn félaganna séu skammstöfuð og enda þau þá ávallt á MA, þar má nefna HíMA og VíMA sem eru stjórnmálafélög skólans (Hægri menn í MA og Vinstri menn í MA).

Eitt af því sem einkennir mjög andrúmsloftið í skólanum er það að nemendur hans koma alls staðar af landinu en stór heimavist er við skólann. Um helmingur nemenda skólans kemur ekki frá Akureyri.

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri

[breyta | breyta frumkóða]

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (LMA) hefur sett upp fjölmörg leikverk. Nú síðustu ár hefur myndast hefð fyrir því að söngleikir séu settir upp þegar fer að vora. Sem dæmi var árið 2014 settur upp rokksöngleikurinn Vorið vaknar í leikstjórn Jóns Gunnars, árið 2015 söngleikurinn Rauða myllan í leikstjórn Garúnar og eins Konungur ljónanna í leikstjórn Völu Fannell.

Árshátíð MA

[breyta | breyta frumkóða]

Árshátíð skólans hefur löngu fest sig í sessi og er haldin á ári hverju í kringum fullveldisdaginn 1. desember. Mikið er lagt í árshátíðina og er hún haldin hátíðlega með mat og skemmtiatriðum. Hefð er fyrir því að undirfélög Hugins sýni slík atriði. Sem dæmi má nefna dansatriði PríMA, tónlistaratriði TóMA og myndbönd frá myndbandafélögum.

Hús skólans

[breyta | breyta frumkóða]
Gamli skóli, elsta hús Menntaskólans á Akureyri.
Byggingar MA úr lofti.

Skólinn á nú mest allt landið milli Eyrarlandsvegar, Hrafnagilsstrætis, Þórunnarstrætis og Lystigarðs og hefur reist nokkur hús þar. Kennsla fer fram í fjórum húsum skólans.

Gamli skóli

[breyta | breyta frumkóða]

Gamli skóli er elsta hús skólans. Hann var byggður sumarið 1904. Framkvæmdir hófust í maí og hófst kennsla í húsinu í október sama ár en þá var húsið að mestu tilbúið. Á efri hæð hússins er að finna sal sem var samkomusalur skólans allt fram til 1968. Í dag hýsir gamli skóli kennarastofu og skrifstofur stjórnenda skólans auk þess sem kennsla í erlendum tungumálum fer að mestu fram þar.

Íþróttahúsið

[breyta | breyta frumkóða]

Íþróttahús skólans hefur á síðustu áratugum verið kallað Fjósið, en það hefur þó aldrei hýst nein húsdýr. Það var byggt sem íþróttasalur árið 1905 norðan við vegg hlöðu sem skólameistari hafði fyrir hey handa hestum sínum. Löngu síðar var opnað á milli salarins og hlöðunnar og henni breytt í búningsherbergi og böð. Enn síðar var byggt við íþróttahúsið rými sem var fyrst geymsla og verkstæði, síðar innréttað sem kraftlyftingarsalur.

Möðruvellir

[breyta | breyta frumkóða]

Möðruvellir voru teknir í notkun 1968 og er húsið nefnt eftir Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem fyrirrennari Menntaskólans á Akureyri var eitt sinn. Húsið hefur frá upphafi verið notað að mestu til raungreinakennslu, í kjallara þess var aðalsamkomusalur skólans á árunum 1968–1996. Í kjallaranum eru nú tölvuver og aðstaða nemendafélagsins.

Troðfull Kvos á Hólum.

Hólar voru teknir í notkun 1996 og eru nefndir eftir Hólum í Hjaltadal. Byggingin stendur á milli Gamla skóla og Möðruvalla og tengist þeim með göngum þannig að nú er innangengt milli allra kennsluhúsa skólans. Á Hólum er aðalinngangur skólans, bókasafnið og stór samkomusalur sem kallaður er Kvosin. Þar er einnig vinnuaðstaða fyrir kennara og nokkrar kennslustofur sem eru mest notaðar fyrir kennslu í félagsvísindagreinum, íslensku og sögu.

Sameiginleg Heimavist og nemendagarðar Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Framkvæmdir við núverandi heimavist MA hófust 1946 en verkið gekk hægt og lauk því ekki fyrr en um 1970. Fram að því hafði heimavist skólans verið í Gamla skóla. Bókasafn skólans var lengi hýst í húsi heimavistarinnar. Nýir nemendagarðar voru teknir í notkun 2003 austan við eldri heimavist. Í húsinu eru 118 smáíbúðir sem ætlaðar eru bæði nemendum við MA sem og VMA. Þann 16. október árið 2006 var nýbyggingin við heimavistina vígð og geta nú um 330 nemendur búið á vistinni. Oft er talað um gömlu og nýju vist.

Þekktir nemendur

[breyta | breyta frumkóða]
Fyrir lista yfir þekkta nemendur skólans má sjá þekkta nemendur Menntaskólans á Akureyri.
  • Sverrir Páll Erlendsson (2015). „Um Menntaskólann á Akureyri“. MA.
  • „Karl Frímannsson er nýr skólameistari Menntaskólans á Akureyri“. Stjórnarráð Íslands.
  • Jón Már Héðinsson, Sigríður Steinbjörnsdóttir, Úlfar Hauksson, Valdimar Gunnarsson, og Jón Hjaltason. (2008). Saga Menntaskólans á Akureyri. Menntaskólinn á Akureyri.


Fyrri:
Menntaskólinn við Sund
Sigurvegari Gettu betur
1991-1992
Næsti:
Menntaskólinn í Reykjavík
Fyrri:
Borgarholtsskóli
Sigurvegari Gettu betur
2006
Næsti:
Menntaskólinn í Reykjavík


65°40′35″N 18°05′40″V / 65.6765°N 18.0944°V / 65.6765; -18.0944