Fara í innihald

Fullveldisdagurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hinn almenni þjóðfáni Íslands

Fullveldisdagurinn er svo nefndur til minningar um að þann 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.

Lítið var samt um hátíðahöld þegar upp á hann var haldið í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Katla gaus einnig frá 12. október til 4. nóvember og seint í október barst drepsótt sú sem kölluð var spænska veikin til landsins og létust hundruð manna. Loks brast á nýtt kuldakast þegar veikin stóð sem hæst og ekki þótti ráðlegt að hafa langa útisamkomu við þessar aðstæður.

Fullveldisdagurinn sem þjóðhátíðardagur[breyta | breyta frumkóða]

Koparrista af drukknun Eggerts Ólafssonar. Myndskreyting úr í riti Ólafs Ólafssonar (Olavius) Drauma diktur um søknud og sorglegan missir þess Havitra, Gøfuga og Goda Manns Herra Eggerts Olafssonar, Vice-Løgmanns sunnan og austan a Islande a samt Hans dygdum pryddar Konu Frur Ingibjargar Gudmunds Dottur (Kaupmannahöfn: Paul Herman Höecke, 1769).

Dagurinn varð þó ekki þjóðhátíðardagur þegar í stað. Fyrstu þrjú árin á eftir var nýi íslenski fáninn að vísu dreginn að hún sumstaðar og kennsluhlé gert í skólum eins og oft tíðkast enn. Árið 1921 var Fálkaorðan stofnuð og á þriðja og fjórða áratugnum var 1. desember oftast valinn til að sæma menn því heiðursmerki. Þá veitir þennan dag forseti Íslands afreksmerki lýðveldisins fyrir björgun úr lífsháska.

Háskólastúdentar hófu hátíðarhöld á fullveldisdaginn á fyrstu árum þriðja áratugarins og héldu tryggð við daginn þegar 17. júní tók við sem þjóðhátíðardagur eftir lýðveldisstofnun 1944 og héldu því áfram til ársins 1960. Var upphaf þess fagnaður sá að árið 1921 minntust stúdentar þessa dags sem fæðingardags Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings og skálds og hófu samhliða því söfnun fjár í minningarsjóð hans. Árið eftir, 1922, ákváðu stúdentar að halda 1. desember hátíðlegan sem þjóðminningardag og um leið hefja stórátak til fjársöfnunar fyrir byggingu stúdentagarðs.

Fyrir utan hátíðarhöld stúdenta var þó lítið um viðburði þennan dag að öllu jöfnu. Samkomur voru mjög fátíðar í sveitum enda árstíminn illa til þess fallin við húsakost og samgöngur millistríðsáranna. Samkomur voru því einna helst í kaupstöðum og bar mest á því við Breiðafjörð og Vestfirði en einnig á Mið-Norðurlandi. Dagsins var mest minnst í skólum og samkomur haldnar í héraðsskólum eftir að þeir tóku til starfa kringum 1930. Nokkur dæmi eru einnig úr öllum landsfjórðungum að ungmennafélög í sveitum gengjust fyrir fullveldisfagnaði. Var víða litið á daginn líkt og sunnudag og reynt að hafa aðalmáltíðina í samræmi við það. Eftir stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 var það yfirleitt með hátíðardagskrá 1. desember.

Almanak Þjóðvinafélagsins hefur löngum verið afar gætið við að bæta við nýjum almanaksdögum og í dagatali þess er fullveldisdagsins ekki getið fyrr en árið 1923 og þá orðað sem „Ísland sjálfstætt ríki 1918“. Það hélst til 1967 þegar orðið Fullveldisdagurinn var fyrst haft um 1. desember í almanakinu.

Fullveldisdagurinn varð einn af opinberum fánadögum lýðveldisins með forsetatilskipun árið 1944. Sjaldnast er mikið um hátíðarhöld þennan dag í seinni tíð en oft er gefið frí í skólum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.