Karl Carstens
Karl Carstens | |
---|---|
Forseti Vestur-Þýskalands | |
Í embætti 1. júlí 1979 – 30. júní 1984 | |
Kanslari | Helmut Schmidt Helmut Kohl |
Forveri | Walter Scheel |
Eftirmaður | Richard von Weizsäcker |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. desember 1914 Bremen, þýska keisaradæminu |
Látinn | 30. maí 1992 (77 ára) Meckenheim, Þýskalandi |
Þjóðerni | Þýskur |
Stjórnmálaflokkur | Kristilegi demókrataflokkurinn (1955–1992) Nasistaflokkurinn (1940–1945) |
Maki | Veronica Prior |
Háskóli | Yale-háskóli, Háskólinn í Búrgund, Goethe-háskóli, Ludwig-Maximilian-háskóli, Háskólinn í Königsberg, Hamborgarháskóli |
Verðlaun | Karlsverðlaunin (1984) |
Undirskrift |
Karl Carstens (14. desember 1914 – 30. maí 1992) var þýskur stjórnmálamaður. Hann var forseti Vestur-Þýskalands frá 1979 til 1984.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Karl Carstens fæddist þann 14. desember árið 1914 í Bremen. Hann stundaði lögfræðinám í Dijon, München, Königsberg og Hamborg.[1] Hann lagði jafnframt stund á hagfræði á námsárum sínum og lærði bæði frönsku og ensku.[2] Carstens hlaut mastersgráðu frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum.[3]
Carstens gekk í Nasistaflokkinn árið 1933 en sagði sig úr honum tveimur árum síðar. Hann gekk aftur í flokkinn árið 1940, að eigin sögn til þess að geta haldið áfram í laganámi.[4] Carstens var jafnframt stormsveitarmaður í SA-sveitunum (þ. Sturmabteilung) frá árinu 1933 á tíma nasistastjórnarinnar.[5] Carstens gegndi þjónustu í þýska hernum á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og var þá foringi í loftvarnasveitum Berlínar.[4]
Þegar Carstens var 34 ára var hann sendur til Bonn sem nokkurs konar sendifulltrúi heimaborgar sinnar. Hann varð þar pólitískur lærlingur Konrads Adenauer kanslara og Walters Hallstein og fékk áhuga á utanríkismálum. Í ágúst árið 1954 varð Carstens fulltrúi Þjóðverja við Evrópuráðið í Strassborg.[1]
Á kanslaratíð Kurts Georgs Kiesinger varð Carstens yfirmaður forsætisráðuneytisins. Hann hafði þar afskipti af ólöglegri vopnasölu vestur-þýsku leyniþjónustunnar. Carstens var náinn samverkamaður Kiesingers og hélt áfram stöðu sinni hjá kanslaraembættinu þar til Willy Brandt tók við af Kiesinger árið 1969.[5]
Carstens var kjörinn á þýska sambandsþingið fyrir Kristilega demókrataflokkinn árið 1972. Þrátt fyrir að hafa ekki fyrri reynslu af þingstörfum var hann valinn leiðtogi stjórnarandstöðunnar á þinginu sama ár.[1] Carstens var talinn til hægri vængs Kristilegra demókrata og var ötull andstæðingur austurstefnu stjórnvalda, sem fól í sér bætt samskipti við Austur-Þýskaland og önnur kommúnistaríki Austurblokkarinnar. Árið 1976 var Carstens kjörinn forseti þýska sambandsþingsins með stuðningi bæverska íhaldsleiðtogans Franz Josefs Strauss.[5]
Walter Scheel, forseti Vestur-Þýskalands, ákvað árið 1979 að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Skoðanakannanir sýndu að Scheel naut afgerandi stuðnings meðal almennings til að gegna öðru kjörtímabili en hann hafði ekki stuðning vísan á kjörþinginu sem kýs forsetann. Kristilegir demókratar völdu Carstens sem forsetaefni sitt í forsetakosningunum og hann var kjörinn í mars 1979. Carstens var fyrsti forseti sambandslýðveldisins sem var kjörinn úr röðum stjórnarandstöðunnar.[2]
Á forsetatíð sinni reyndi Carstens að vinna sér velvild Þjóðverja með því að fara í mikla gönguferð þvert yfir Þýskaland, frá Eystrasalti til Alpafjalla. Ætlunin var að koma við í sem flestum þorpum og bæjum á gönguleiðinni og brúa þannig bilið milli alþýðu og stjórnmálamanna. Gönguferðin var ekki farin í einu vetfangi heldur var henni skipt í mánaðarlegar tveggja eða þriggja daga gönguferðir og áætlað að ljúka henni á tveimur árum.[6]
Carstens gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakosningum árið 1984. Flokksbróðir hans, Richard von Weizsäcker, var kjörinn til að taka við af honum í maí það ár.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Karl Carsten: Tekur hann við af Willy Brandt?“. Alþýðublaðið. 16. mars 1973. bls. 5.
- ↑ 2,0 2,1 Þórarinn Þórarinsson (25. mars 1979). „Karl Carstens verður eftirmaður Scheels“. Tíminn. bls. 6.
- ↑ Guðmundur Pétursson (26. maí 1979). „Íhaldsmaðurinn Karl Carsten líklega næsti forseti V-Þýskalands“. Vísir. bls. 6.
- ↑ 4,0 4,1 „Karl Carstens: umdeildur vegna fortíðar sinnar“. Morgunblaðið. 27. maí 1979. bls. 15.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 „Nýr forseti Vestur-Þýskalands: Hægri maður með skuggalega fortíð“. Þjóðviljinn. 1. júlí 1979. bls. 5.
- ↑ Þórarinn Þórarinsson (18. maí 1980). „Söguleg gönguferð þýzka forsetans“. Tíminn. bls. 6.
- ↑ „Richard von Weizsäcker forseti Vestur-Þýskalands“. Morgunblaðið. 24. maí 1984. bls. 22.
Fyrirrennari: Walter Scheel |
|
Eftirmaður: Richard von Weizsäcker |