Walter Scheel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Walter Scheel
Walter Scheel árið 1974.
Forseti Vestur-Þýskalands
Í embætti
1. júlí 1974 – 30. júní 1979
KanslariHelmut Schmidt
ForveriGustav Heinemann
EftirmaðurKarl Carstens
Varakanslari Vestur-Þýskalands
Í embætti
22. október 1969 – 16. maí 1974
KanslariWilly Brandt
ForveriWilly Brandt
EftirmaðurHans-Dietrich Genscher
Utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands
Í embætti
21. október 1969 – 16. maí 1974
KanslariWilly Brandt
ForveriWilly Brandt
EftirmaðurHans-Dietrich Genscher
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. júlí 1919
Höhscheid, Rínarhéraði, Fríríkinu Prússlandi, Weimar-lýðveldinu
Látinn24. ágúst 2016 (97 ára) Bad Krozingen, Baden-Württemberg, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurFrjálsi demókrataflokkurinn (1946–2016)
Nasistaflokkurinn (1942–1945)
MakiEva Charlotte Kronenberg (g. 1942; d. 1966)
Mildred Wirtz (g. 1969; d. 1985)
Barbara Wiese (g. 1988)
Börn4
VerðlaunKarlsverðlaunin (1977)
Undirskrift

Walter Scheel (8. júlí 1919 – 24. ágúst 2016) var þýskur stjórnmálamaður og meðlimur í Frjálsa demókrataflokknum (FDP). Scheel var forseti Vestur-Þýskalands frá 1974 til 1979.

Scheel tilheyrði vinstri væng FDP og varð árið 1961 efnahagsmálaráðherra Vestur-Þýskalands. Hann tók við forystu Frjálsa demókrata sjö árum síðar og stóð fyrir myndun bandalags flokksins við Jafnaðarmannaflokkinn undir stjórn Willy Brandt. Flokkarnir tveir mynduðu samsteypustjórn árið 1969 þar sem Scheel varð varakanslari og utanríkisráðherra. Í því embætti studdi hann hina svokölluðu austurstefnu Brandt, sem fól í sér sáttaviðleitni gagnvart Austur-Þýskalandi.

Scheel var kjörinn forseti Vestur-Þýskalands árið 1974. Hann gegndi einu fimm ára kjörtímabili í því embætti en gaf ekki kost á sér til endurkjörs árið 1979 þar sem hann skorti þá stuðning á þingi.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Walter Scheel fæddist þann 8. júlí árið 1919 í Solingen og nam viðskiptafræði að loknu stúdentsprófi. Hann gegndi herskyldu í þýska flughernum frá 1939 til 1945 og var orðinn liðsforingi þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk. Eftir stríðslok vann hann sem fjármálaráðgjafi hjá ýmsum stofnunum til ársins 1953, en þá kom hann á fót eigin ráðgjafarskrifstofu í Düsseldorf og settist þar að.[1]

Scheel gekk í Frjálsa demókrataflokkinn árið 1946 og hlaut strax ábyrgðarstörf á vegum flokksins, fyrst í borgarstjórn Solingen og síðan á fylkisþingi Norðurrínar-Vestfalíu. Scheel var kjörinn á sambandsþing Þýskalands árið 1953 og gat sér þar gott orð fyrir þátt sinn í efnahagslegri enduruppbyggingu Vestur-Þýskalands. Hann varð meðal annars formaður þingnefndar sem hafði umsjón með þróunarhjálp frá vestur-þýska ríkinu.[1]

Árið 1961 varð Scheel ráðherra og fór með stjórn ráðuneytis sem sá um efnahagssamstarf við önnur ríki. Hann gegndi þessu embætti til ársins 1966, þegar Kristilegir demókratar og Jafnaðarmenn mynduðu samsteypustjórn og Frjálsir demókratar fóru í stjórnarandstöðu. Scheel var síðan kjörinn formaður Frjálsa demókrataflokksins þann 30. janúar þegar Erich Mende lét af formannsembættinu.[1]

Undir forystu Scheel fór FDP að leggja áherslu á breytingar í utanríkisstefnu Vestur-Þýskalands. Flokkurinn studdi áframhaldandi aðild ríkisins að Atlantshafsbandalaginu en hvatti til þess að stefnunni í garð Austur-Þýskalands yrði breytt. Vestur-Þýskaland hafði ávallt gert tilkall til þess að vera hin eina réttmæta stjórn alls Þýskalands og hafði farið eftir svokallaðri Hallstein-kenningu, sem fól í sér að landið sleit stjórnmálasambandi við öll ríki sem viðurkenndu sjálfstæði Austur-Þýskalands. Scheel og Frjálsir demókratar sögðu nauðsynlegt að horfast í augu við þá staðreynd að tvö þýsk ríki hefðu orðið til eftir seinni heimsstyrjöldina og að bæði ríkin yrðu að viðurkenna hvort annað svo þau gætu tekið sæti í Sameinuðu þjóðunum.[1]

Eftir kosningar árið 1969 ákvað Jafnaðarmannaflokkurinn að mynda samsteypustjórn ásamt Frjálsum demókrötum. Willy Brandt, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, varð þá kanslari en Scheel varð varakanslari og utanríkisráðherra. Sem utanríkisráðherra var Scheel einarður stuðningsmaður „austurstefnu“ (þ. Ostpolitik) Brandt, sem fólst í vinsamlegri stefnu og samningaviðræðum við Austur-Þýskaland og önnur kommúnistaríki Austurblokkarinnar.[2] Hann lauk fyrsta áfanga framkvæmdaráætlunar þessarar stefnu árið 1974 þegar hann fór í heimsóknir til Ungverjalands og Búlgaríu, sem voru þá síðustu tvö ríkin sem Vestur-Þýskaland tók upp stjórnmálasamband við.[3]

Stefna Scheel jók nokkuð við vinsældir FDP, sem hækkaði fylgi sitt úr 5,8 prósentum í 8,4 prósent atkvæða í þingkosningum árið 1972. Scheel varð sér í lagi vinsæll meðal yngri og róttækari kjósenda.[4] Scheel hlaut óvenjulega frægð árið 1974 þegar hann söng inn á hljómplötuna Hátt uppi á gula vagninum (þ. Hoch auf dem gelben Wagen), sem var seld í góðgerðaskyni og náði efst á vinsældalista stærstu útvarpsstöðva í Evrópu.[3]

Árið 1974 varð Scheel forsetaefni ríkisstjórnar Jafnaðarmanna og Frjálsra demókrata í forsetakosningum á sambandsþinginu. Scheel tók við forsetaembættinu í byrjun júlí þetta ár og naut þá stuðnings um 78 prósenta Vestur-Þjóðverja.[5] Næsta ár varð Scheel fyrstur forseta Vestur-Þýskalands til að fara í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna, sem þótti bera merki um hve mikið samskipti ríkisins við Austurblokkina hafði batnað á undanförnum árum.[6]

Scheel bauð sig ekki fram til annars kjörtímabils í forsetakosningum árið 1979, enda þótti þá ljóst að hann nyti ekki stuðnings meirihluta til endurkjörs í kjörmannasamkundunni þrátt fyrir að hann væri vinsæll hjá þýskri alþýðu.[7] Scheel lét af embætti í lok júní það ár en lýsti þó yfir vilja til að vera áfram virkur í stjórnmálaumræðu.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Nýir stjórnendur í Bonn“. Morgunblaðið. 8. október 1969. bls. 15.
  2. „Tekst Walter Scheel að halda velli?“. Tíminn. 8. nóvember 1972. bls. 7.
  3. 3,0 3,1 „Walter Scheel“. Morgunblaðið. 29. maí 1974. bls. 16.
  4. Guðmundur Pétursson (12. janúar 1974). „Efstur á plötulista sem og í pólitíkinni“. Vísir. bls. 6.
  5. „Scheel tekinn við sem forseti“. Morgunblaðið. 2. júlí 1974. bls. 28.
  6. Vladimir Lomeiko (20. nóvember 1975). „Hver er ástæða heimsóknar Walter Scheel til Moskvu?“. Tíminn. bls. 7.
  7. Guðmundur Pétursson (26. maí 1979). „Íhaldsmaðurinn Karl Carsten líklega næsti forseti V-Þýskalands“. Vísir. bls. 6.
  8. „Walter Scheel á enn margt ógert“. Vísir. 2. nóvember 1979. bls. 8.


Fyrirrennari:
Gustav Heinemann
Forseti Vestur-Þýskalands
(1. júlí 197430. júní 1979)
Eftirmaður:
Karl Carstens