Roman Herzog

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Roman Herzog
Roman Herzog árið 2012.
Forseti Þýskalands
Í embætti
1. júlí 1994 – 30. júní 1999
KanslariHelmut Kohl
Gerhard Schröder
ForveriRichard von Weizsäcker
EftirmaðurJohannes Rau
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. apríl 1934
Landshut, Bæjaralandi, Þýskalandi
Látinn10. janúar 2017 (82 ára) Jagsthausen, Baden-Württemberg, Þýskalandi
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn (1970–2017)
MakiChristiane Krauß (g. 1958; d. 2000)
Alexandra Freifrau von Berlichingen (g. 2001)
Börn2
HáskóliLudwig-Maximilian-háskóli
VerðlaunKarlsverðlaunin (1997)
Undirskrift

Roman Herzog (5. apríl 1934 – 10. janúar 2017) var þýskur stjórnmálamaður, dómari og lögfræðingur sem var forseti Þýskalands frá 1994 til 1999. Herzog var meðlimur í Kristilega demókrataflokknum og var fyrsti forsetinn sem var kjörinn eftir sameiningu Þýskalands. Hann var áður dómari við stjórnlagadómstól sambandslýðveldisins og var forseti dómstólsins frá 1987 til 1994. Áður en hann var útnefndur dómari var hann lagaprófessor. Herzog hlaut Karlsverðlaunin árið 1997.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Roman Herzog átti ættir að rekja til Bæjaralands en var engu að síður mótmælandatrúar ólíkt meirihluta íbúa þar. Hann nam lögfræði við Háskólann í München og lauk prófi þar undir handleiðslu Theodors Maunz, eins þekktasta lögspekings Þjóðverja á þeim tíma. Herzog vann með Maunz að fræðiritum um stjórnarskrá þýska sambandslýðveldisins til ársins 1965, en þá bauðst honum kennarastaða í ríkisrétti og stjórnmálafræði við Fríháskólann í Vestur-Berlín. Hann vann þar til ársins 1969, en flutti þá til að taka við kennarastöðu við Háskólann í Speyer.[1]

Herzog gekk í Kristilega demókrataflokkinn árið 1970 og var kjörinn landsfulltrúi á þýska sambandsþinginu í Bonn árið 1973. Þar kynntist hann Helmut Kohl, þáverandi forsætisráðherra Rínarlands-Pfalz. Fimm árum síðar tók Herzog til starfa fyrir stjórn Kristilega demókrataflokksins í Baden-Württemberg, þar sem hann varð fyrst menningarmálaráðherra og síðan innanfylkisráðherra.[1] Herzog gat sér orð fyrir hörku árið 1982 þegar hann lýsti því yfir að þeir sem tækju þátt í setuverkföllum yrðu látnir greiða kostnað fyrir lögregluaðgerðir vegna þeirra.[2]

Árið 1983 var Herzog útnefndur í sæti við þýska stjórnlagadómstólinn í Karlsruhe. Sem dómari kom Herzog gagnrýnendum sínum á óvart þegar hann úrskurðaði að ekki væri hægt að banna mótmælaaðgerðir af þeirri ástæðu einni að ofbeldisfullur minnihluti kynni að notfæra sér þær. Herzog varð forseti stjórnlagadómstólsins árið 1987 en var talinn óhræddur við að gefa út pólitískar yfirlýsingar um ýmis mál. Meðal annars hvatti hann til þess að útlendingum búsettum í Þýskalandi yrði gert auðveldara að fá þýskan ríkisborgararétt.[2]

Í forsetakosningum árið 1994, þeim fyrstu eftir sameiningu Þýskalands, valdi Kristilegi demókrataflokkurinn Herzog sem forsetaefni sitt. Herzog var kjörinn í þriðju og síðustu kosningaumferð kjörmannasamkundunnar þann 23. maí með 696 atkvæðum gegn 605 sem Johannes Rau, forsetaefni Jafnaðarmanna, hlaut.[2]

Þann 27. janú­ar 1996, á 50 ára afmæli frelsunar Auschwitz-útrýmingarbúðanna, lýsti Herzog því yfir að dagurinn yrði þaðan í frá op­in­ber minn­ing­ar­dag­ur fórn­ar­lamba nas­ism­ans.[3]

Herzog gegndi einu kjörtímabili í forsetaembætti og sóttist ekki eftir endurkjöri. Að lokinni forsetatíð sinni var Herzog formaður sérfræðinganefndar sem vann að gerð Sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.[4] Herzog lést þann 10. janúar árið 2017.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Ágúst Þór Árnason (20. janúar 1994). „Kristilegir sameinast um forsetaframbjóðanda“. Tíminn. bls. 8.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Roman Herzog“. Morgunblaðið. 25. maí 1994. bls. 37.
  3. „Roman Herzog látinn“. mbl.is. 10. janúar 2017. Sótt 26. ágúst 2023.
  4. „Pólitísk yfirlýsing eða bindandi sáttmáli?“. Morgunblaðið. 29. ágúst 2000. bls. 26.
  5. Atli Ísleifsson (10. janúar 2017). „Fyrrverandi forseti Þýskalands látinn“. Vísir. Sótt 26. ágúst 2023.


Fyrirrennari:
Richard von Weizsäcker
Forseti Þýskalands
(1. júlí 199430. júní 1999)
Eftirmaður:
Johannes Rau