Fara í innihald

Gustav Heinemann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gustav Heinemann
Gustav Heinemann árið 1969.
Forseti Vestur-Þýskalands
Í embætti
1. júlí 1969  30. júní 1974
KanslariKurt Georg Kiesinger
Willy Brandt
Helmut Schmidt
ForveriHeinrich Lübke
EftirmaðurWalter Scheel
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. júlí 1899
Schwelm, Konungsríkinu Prússlandi, þýska keisaradæminu
Látinn7. júlí 1976 (76 ára) Essen, Vestur-Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn (1957–1976)
Alþýski þjóðarflokkurinn (1952–1957)
Kristilegi demókrataflokkurinn (1945–1952)
MakiHilda Ordemann ​(g. 1926)​
Börn4
Undirskrift

Gustav Walter Heinemann (23. júlí 1899 – 7. júlí 1976) var þýskur stjórnmálamaður sem var forseti Vestur-Þýskalands frá 1969 til 1974. Hann var borgarstjóri Essen frá 1946 til 1949, innanríkisráðherra Vestur-Þýskalands frá 1949 til 1950 og dómsmálaráðherra frá 1966 til 1969.

Gustav Heinemann fæddist þann 23. júlí 1899 í Schwelm í Vestfalíu. Faðir hans var starfsmaður í verksmiðju Krupp-fjölskyldunnar. Heinemann gekk í ýmsa þýska háskóla og lauk embættisprófi í þjóðfélagsfræðum árið 1922 og doktorsprófi í lögfræði árið 1929.[1]

Heinemann gegndi herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni en að henni lokinni snerist hann gegn róttækri þjóðernishyggu sem breiddist út í Þýskalandi. Á millistríðsárunum vann Heinemann sem lögfræðingur og síðan sem framkvæmdastjóri „Rínsku stálsmiðjanna“. Hann var jafnframt framámaður Vitnisburðar kirkunnar, tímarits þýskra mótmælenda.[2] Heinemann var ávallt harður andstæðingur nasista og var virkur í andspyrnu allan þann tíma sem Hitler var við völd í Þýskalandi.[3]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir seinni heimsstyrjöldina tók Heinemann þátt í stofnun Kristilega demókrataflokksins. Hann hóf beina þátttöku í stjórnmálum og varð borgarstjóri í Essen frá 1946 til 1949, þar sem hann gegndi mikilvægu hlutverki í endurbyggingu borgarinnar eftir eyðileggingu stríðsins.[1]

Árið 1949 var Heinemann skipaður innanríkisráðherra í fyrstu stjórn Konrads Adenauer kanslara.[4] Heinemann sagði hins vegar af sér sem innanríkisráðherra og yfirgaf Kristilega demókrataflokkinn árið 1959 vegna skoðanaágreinings við Adenauer.[2] Heinemann var á móti endurhervæðingu Þýskalands, sem hann taldi að myndi hindra endursameiningu landsins. Heinemann stofnaði í kjölfarið eigin stjórnmálaflokk, Alþýska þjóðarflokkinn, sem átti að vera fulltrúi þriðju stefnunnar á milli Kristilegra demókrata og jafnaðarmanna. Þessi flokkur náði aldrei miklu fylgi og því gekk Heinemann árið 1958 í Jafnaðarmannaflokkinn.[1]

Heinemann varð dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Kurts Georgs Kiesinger árið 1966 þegar Kristilegir demókratar mynduðu samsteypustjórn með Jafnaðarmönnum. Á meðan Heinemann var dómsmálaráðherra stýrði hann umræðum sem leiddu til þess að starfsemi nýs þýsks kommúnistaflokks var leyfð, en gamli þýski kommúnistaflokkurinn hafði þá verið bannaður í Vestur-Þýskalandi. Kristilegir demókratar í Bæjaralandi, sér í lagi fjármálaráðherrann Franz Josef Strauss, gagnrýndu Heinemann harðlega fyrir að heimila stofnun nýs kommúnistaflokks. Heinemann sagðist ekki gera þetta af neinu dálæti á kommúnistum, heldur þar sem þetta myndi gefa Vestur-Þýskalandi lýðræðislegra yfirbragð en Austur-Þýskalandi og nýr kommúnistaflokkur væri ólíklegur til að ná miklu fylgi.[1]

Forseti Vestur-Þýskalands (1969-1974)

[breyta | breyta frumkóða]

Jafnaðarmannaflokkurinn valdi Heinemann sem forsetaefni sitt í forsetakosningum á vestur-þýska sambandsþinginu árið 1969. Heinemann sigraði Gerhard Schröder, frambjóðanda Kristilegra demókrata, með 512 atkvæðum gegn 506. Var þetta naumasti sigur í forsetakosningum á sambandsþinginu fram til þessa.[4]

Heinemann var forseti þegar hundrað ár voru liðin frá stofnun Þýskalands árið 1971. Í ræðu sem hann hélt við tilefni aldarafmælisins gagnrýndi Heinemann gamlar hugmyndir um stofnun ríkisins, fyrsta kanslarann Otto von Bismarck og ýmis atriði í sögu síðari tíma. Meðal annars gagnrýndi hann það að engir fulltrúar byltinganna 1848 hefðu verið viðstaddir yfirlýsinguna um stofnun Þýskalands í Versölum og sagði að pólitískt vald í þýska keisaradæminu hefði eingöngu verið í höndum aðalsmanna og herforingja en ekki lýðræðislegra stofnana.[5]

Heinemann naut mikilla vinsælda undir lok kjörtímabils síns í forsetaembætti. Hann gaf þó ekki kost á sér til endurkjörs árið 1974 vegna hás aldurs.[6] Heinemann lést árið 1976, tveimur árum eftir að hann lét af forsetaembætti.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1 2 3 4 „Gustav Heinemann – nýkjörinn forseti Vestur-Þýzalands“. Morgunblaðið. 8. mars 1969. bls. 3.
  2. 1 2 „Gustav Heinemann: Forseti V-Þýzkalands“. Lesbók Morgunblaðsins. 7. september 1969. bls. 4; 12.
  3. „Gustav Heinemann – forseti Vestur-Þýzkalands“. Alþýðublaðið. 17. september 1970. bls. 5.
  4. 1 2 Karl Willy Beer (16. ágúst 1969). „Gustav Heinemann - þriðji forseti þýzka Sambandslýðveldisins“. Tíminn. bls. 7; 11.
  5. „Hann horfist í augu við staðreyndir“. Alþýðublaðið. 26. janúar 1971. bls. 7.
  6. „Scheel tekinn við sem forseti“. Morgunblaðið. 2. júlí 1974. bls. 28.
  7. „Heinemann fyrrum forseti horfinn á vit feðranna“. Vísir. 8. júlí 1976. bls. 6.


Fyrirrennari:
Heinrich Lübke
Forseti Vestur-Þýskalands
(1. júlí 196930. júní 1974)
Eftirmaður:
Walter Scheel