Jón Sigurðsson (f. 1941)
Jón Sigurðsson (f. 17. apríl 1941) er íslenskur hagfræðingur og fyrrum alþingismaður og ráðherra. Að loknum stjórnmálaferli varð Jón seðlabankastjóri í Seðlabanka Íslands en síðar aðalbankastjóri Norræna fjárfestingabankans.
Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1960, fil. kand. prófi í þjóðhagfræði og tölfræði frá Stokkhólmsháskóla árið 1964 og M.Sc. Econ. í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1967.
Áður en Jón settist á þing var hann m.a. forstjóri Þjóðhagsstofnunar frá 1974-1986. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi árið 1987 og varð dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sama ár. Í annarri og þriðju ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og Viðeyjarstjórninni (til 1993) var hann iðnaðar- og viðskiptaráðherra.