Fara í innihald

Jilin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Landakort sem sýnir legu Jilin héraðs í norðausturhluta Kína.
Kort af legu Jilin héraðs í Kína.

Jilin (kínverska: 吉林; rómönskun: Jílín) er hérað í norðausturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Það liggur að Rússlandi í austri, Norður-Kóreu í suðaustri, kínversku héruðunum Liaoning í suðri og Heilongjiang í norðri og Innri Mongólíu í vestri. Jilin iðnvæddist snemma og einkennist efnahagur héraðsins af stóriðju. Héraðið er ríkt af náttúrulegum auðæfum og hefur stóran forða af olíu, gasi, kolum, olíuleirstein svo nokkuð sé nefnt. Héraðið var áður hluti af Mansjúríu. Höfuðborg héraðsins og stærsta borg er Changchun. Íbúafjöldi Jilin er um 27 milljónir.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Héraðið Jilin liggur í miðhluta norðaustur Kína. Það á landamörk að Rússlandi (fylkinu Prímorja) í austri, Norður-Kóreu (héruðin Rason, Norður Hamgyong, Ryanggang og Chagang) í suðaustri, kínversku héruðunum Liaoning í suðri og Heilongjiang í norðri og sjálfstjórnarsvæði Innri Mongólíu í vestri.

Höfuðborg Jilin héraðs og stærsta borg Changchun, er staðsett á Norðaustur-Kína sléttunni (einnig kölluð Songliao sléttan eða Mansjúríusléttan). Árið 2010 voru höfuðborgarbúar 7,7 milljónir.

Jilin héraðið nær yfir 187.000 ferkílómetra. Íbúafjöldi þess var árið 2010 um 27 milljónir.

Héraðið hefur gnægð af hefðbundnum kínverskum lækningalindum, með um það bil 27.000 tegundir af villtum plöntum og 9.000 tegundir af lækningajurtum.

Jilin er ríkt af náttúrulegum steinefnum. Þar eru 136 tegundir steinefna, þar af hafa 70 þeirra verið nýttar. Það hefur stórum forða af olíu, gasi, kolum, járni, nikkel, mólýbden, talkúm, grafít, gifsi, kísilgúr, sementbergi, vollastónít, gulli og silfri. Héraðið hefur mestan forða af olíuleirstein í Kína.

Jilin er hálent í suðaustri og lækkar varlega til norðvesturs. Changbai-fjöll liggja um suðausturhéruðin. Þar er hæsti tindur héraðsins, Paektu-fjall í 2.744 m. Aðrir fjallagarðar eru Jilinhada fjöllin, Zhang Guangcai fjöllin og Longgang fjöllin.

Um Jilin renna Yalu fljót og Tumen fljót í suðausturhlutanum. Saman mynda þau hluta af landamærunum milli Kína og Norður-Kóreu. Yalu fljót fellur í Kóreuflóa en Tumen fljót rennur til Japanshafs.

Auk höfuðborgarinnar Changchun með 7.7 íbúa milljónir íbúa (2010) eru margar stórar borgir: Jilin borg (4.4 milljónir íbúa); Siping borg (3.4 milljónir íbúa); Songyuan borg (2.9 milljónir íbúa); Tonghua borg (2.3 milljónir íbúa) og Baicheng borg (2 milljónir íbúa)

Í fornöld var Jilin byggð af ólíkum hirðingjaættbálkum og þjóðum af gresjum Evrasíu): Xianbei, Sushen, Mohe, Jursjenum (síðar Mansjú þjóð) og Wùjí. Kóreuríkin Buyeo (2. öld f. Kr.–494), Goguryeo (37 f.Kr.– 668) og Balhae (698–926) réðu á um tíma yfir hluta þessa svæðis.

Svæðið eða hlutar þess, féll síðan undir yfirráð Xiongnu þjóða, Xianbei-ríkis, Khitan Liao-ættarveldisins (á 4. öld), Jurchen Jin-ættarinnar (um 1125) sem síðar varð sigruð af Mongólsku Yuan-ættinni undir Djengis Khan. Eftir að veldi Mongóla í Kína féll árið 1368, tók Ming ættarveldið yfir svæðið. Tjingveldið sem átti ættir að rekja til norðaustur Kína (Mansjúríu) tók síðan við á 17. öld. Stóð það til 1911.

Eftir að landsvæði Prímorja var tekið yfir af Rússum árið 1860, hóf Tjingveldið að opna svæðið fyrir farandfólki Han kínverja, sem flest kom frá Shandong. Í byrjun 20. aldar voru Han Kínverjar orðnir ríkjandi þjóðernishópur héraðsins.

Við hertöku Japana á Mansjúríu árið 1932 stofnuðu þeir leppríkið Mandsjúkó og settu Puyi fyrrum keisara Tjingveldisins yfir. Borgin Changchun (þá kölluð Hsinking), nú höfuðborg Jilin, var gerð að höfuðborg Mandsjúkó. Eftir ósigur Japans árið 1945 náði Rauði herinn Jilin héraði. Svæðið, ásamt norðausturhluta Kína, fór undir kommúnista studdum Sovétríkjunum. Eftir sigur byltingarstjórnar kínverska kommúnistaflokksins í Kínversku borgarastyrjöldinni árið 1949 fór Jilin hérað undir yfirráð þeirra. Héraðið náði þá reyndar til minna landsvæðis, eða einungis til umhverfis Changchun og Jilin borg. Changchun var þá undanskilin héraðinu. Á fimmta áratugnum var Jilin stækkað að núverandi landamörkum.

Líkt og nágrannahéruðin í Norðaustur-Kína fór Jilin snemma í iðnvæðingu og einkennist efnahagur héraðsins af stóriðju. Norðaustur-Kína var lengi miðstöð stóriðju í Kína, fyrst undir hernámi Japana og síðan undir ríkisstýrðri þróun Alþýðulýðveldisins Kína. Frá níunda áratug síðustu aldar hefur svæðið orðið fyrir miklum áhrifum af endurskipulagningu kínverska hagkerfisins með lokun eða samþjöppun margra ríkisfyrirtækja einkum í stóriðju.

Iðnaður héraðsins hefur einkum verið framleiðsla á bifreiðum, lestarvögnum og járnblendi.

Landsframleiðsla Jilin héraðs hefur aukist gríðarlega síðari ár. Á árunum 2003 til 2007 jókst landsframleiðsla um 51 prósent.

Landbúnaðarframleiðsla héraðsins byggir einkum á hrísgrjónum, hveiti, maís og dúrru. Hrísgrjón eru aðallega ræktuð í austurhluta héraðsins. Þá er framleiðsla ginseng umfangsmikil fyrir hefðbundna kínverska læknisfræði.

Í Changbai fjöllum eru mikilvæg timburframleiðsla. Sauðfjárrækt er mikilvæg í vesturhlutunum.

Lýðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Han kínverjar er allsráðandi um héraðið (um 91 prósent héraðsbúa árið 2000), að undanskildu þjóðarbroti Kóreumanna (4 prósent) í Yianbian sýslu við landamæri Kóreu. Stærstur hluti Mansjú fólksins (4 prósent) býr í miðhluta héraðsins, í nágrenni við borgirnar Jilin og Siping. Lítill hópur Hui (kínverskir múslimar) býr í héraðinu auk mongóla sem er að finna í norðvestur Jilin.

Meirihluti héraðsins talar mandarín.