Shandong

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Landakort sem sýnir legu Shandong héraðs í Austur- Kína.
Kort af legu Shandong héraðs  í Austur- Kína.

Shandong (kínverska: 山东; rómönskun: Shāndōng) er standhérað í Austur- Kína sem liggur við Gulahaf til móts við Kóreuskaga. Shandong er næstfjölmennasta hérað Kína. Þar bjuggu tæplega 99.5 milljónir íbúa árið 2016.

Nafnið Shandong, sem þýðir „austur af fjöllum“, var fyrst notað opinberlega á Jin-ættarveldinu á 12. öld. Héraðið samanstendur af tveimur aðskildum hlutum. Annars vegar er landsvæði inni í landi sem afmarkast af héruðunum í Hebei í norðri og vestri, Henan í suðvestri og Anhui og Jiangsu í suðri. Hins vegar er Shandong-skagi, sem nær um 320 kílómetra sjávarmegin frá ársléttum Wei og Jiaolai, með Bóhaíhaf í norðri og Gulahaf í suðri. Skaginn er stór hluti strandlengju héraðsins eða um 2.535 kílómetra.

Svæðið inn í landi, sem nær yfir um það bil tvo þriðju af flatarmáli héraðsins, felur í sér hæðótt miðsvæði, með miðju á hinum frægu Tai fjöllum og frjósama landbúnaðarsvæði í norðri, vestri og suðri sem er hluti vatnasvæði hins mikla Gulafljóts og Norður-Kína sléttunni.

Höfuðborg héraðsins, Jinan, er staðsett rétt norðvestur af Tai-fjalli og um fimm kílómetra suður af Gulafljóti, sem rennur frá suðvestri til norðausturs um héraðið áður en það tæmist í Bóhaíhaf.

Shandong hefur leikið stórt hlutverk í kínverskri sögu allt frá upphafi siðmenningar þar í landi við neðri hluta Gulafljóts. Það hefur þjónað sem mikilvæg menningar- og trúarleg miðstöð daoisma (taóisma), kínversks búddisma og konfúsíusisma. Tai-fjallið í Shandong er eitt dáðasta fjall daoismans. Búddahofin í fjöllunum sunnan við héraðshöfuðborgina Jinan voru eitt sinn meðal fremstu staða búddista í Kína.

Borgin Qufu er fæðingarstaður Konfúsíusar og þar var síðar miðstöð konfúsíusisma. Þar þróaðist Konfúsíusismi frá því sem síðar var nefnt „Hundrað skóla hugsun“ byggðum á kenningum Konfúsíusar.

Staðsetning Shandong á mótum viðskipta annars vegar á milli norðurs og suður Kína og hins vegar á austurs og vesturs, hefur stuðla að uppbyggingu héraðsins sem öflugri efnahagsmiðstöð. Eftir tímabil pólitísks óstöðugleika og efnahagsþrenginga sem hófst seint á 19. öld hefur efnahagur Shandong aukist mjög.

Myndir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]